Enn eitt árið er að líða í aldanna skaut. Með hækkandi aldri líða árin alltaf hraðar og hraðar. Árin fljúga hreinlega burt eins og vikurnar, janúar orðinn eins og mánudagur og allt í einu kominn föstudagur, nýtt ár. Orðinn 67 ára, hvernig gerðist þetta eiginlega?
Takk samt, hinn valkosturinn er síðri. Áramótaheitin mín eru engin frekar en venjulega nema halda bara áfram veginn, vonandi án stóráfalla.
Allt of upptekinn af vinnu minni. Það er ekkert nýtt. Ekki að ég sé alltaf að vinna eða í vinnunni því ég er latur til flestra verka. Andlega er ég samt alltaf í vinnunni sem getur verið íþyngjandi fyrir sálina. Viðfangsefni mín eru oft viðkvæm, valda pínu margra, jafnvel ótta. Afbrotafræðin er eigi að síður forvitnileg og spennandi fræðigrein. Hrærigrautur mótsagnakenndra tilfinninga flækist stundum fyrir mér.
Meistaranám í afbrotafræði í Háskóla Íslands
Á vinnustað mínum, Háskóla Íslands, erum við nýbyrjuð að kenna afbrotafræði á meistarastigi á ensku í alþjóðlegum háskóla. Aðsóknin hefur farið fram úr björtustu vonum og nú er fjöldi nemenda að læra til fræðigreinar sem ég sérhæfði mig í BNA á níunda áratug síðustu aldar. Veröld glæpa í heimsveldinu vestra er samt allt önnur en hjá okkur. Skotárásir, fjöldamorð, gengjastríð, margfaldir lífstíðardómar og dauðarefsingar. Varla geta Bandaríkin verið fyrirmynd okkar í refsipólitík eða hvað.
Afbrotafræðin er aftur á móti alþjóðleg fræðigrein með víða skírskotun og bandarískt fræðafólk hefur lengi verið leiðandi í greininni. Ég hef samt smám saman fært mig frá rannsóknum og samstarfi í BNA til Norðurlanda og Evrópu sem líkjast okkur meir hvað snertir bæði viðfangsefni og nálgun okkar á vanda afbrota.
Alþjóðlegt rannsóknarsamstarf
Á þessu ári hef ég tekið þátt í tveimur alþjóðlegum rannsóknum. Önnur tengist refsipólitík á Norðurlöndum, afstöðu borgaranna og dómara til afbrota og refsinga. Fyrstu niðurstöður voru kynntar í Þjóðarspeglinum í HÍ nú á haustdögum. Hitt verkefnið tengist sáttamiðlun í brotamálum í Evrópu sem er á lokastigi. Á árinu var ég kallaður til af erlendri stofnun sem sérfræðingur í greiningu á skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi í alþjóðlegu ljósi. Niðurstaðan var að brot af því tagi eru óneitanlega til staðar á Íslandi, jafnvel í vaxandi mæli, en ekki eins umfangsmikil og víða þekkist á Vesturlöndum. Þau tengjast meðal annars fíkniefnum, netglæpum og mansali af ýmsu tagi.
Umskipti í fjölda manndrápa
Afbrot á Íslandi voru áberandi á árinu eins og oft áður, einkum ofbeldisbrot af ýmsu tagi og aukinn hnífaburður ungmenna. Ofbeldisbrotum tilkynntum til lögreglu hefur aftur á móti ekki fjölgað í heildina á síðustu árum sem kann að koma á óvart. Fjöldi manndrápa stingur þó í augu og er verulegt áhyggjuefni. Mikið stökk varð á þessu ári – alls átta manndráp fyrstu ellefu mánuðina og fjöldinn aldrei meiri á einu ári. Frá aldamótum hafa verið framin yfir 60 manndráp á Íslandi og til ársins 2020 var fjöldinn að jafnaði rúmlega tvö manndráp á ári. Frá og með 2020 verða umskipti. Við erum með nær fjögur manndráp á ári að jafnaði síðan og árið 2024 sker sig úr með átta manndráp og árið ekki enn liðið.
„Ofbeldisbrotum tilkynntum til lögreglu hefur aftur á móti ekki fjölgað í heildina á síðustu árum sem kann að koma á óvart
Ef við skoðum eðli þessara manndrápa eru þau ekki ýkja frábrugðin drápum fyrri ára. Mestmegnis karlar að drepa aðra karla, oft tengsl milli gerenda og þolenda, fjölskyldu- eða vinatengsl, yfirleitt ekki skipulögð fyrir fram með löngum fyrirvara, oft tengd áfengi og vímuefnum. Upplýsast frekar fljótt, ólíkt því þegar um skipulagða brotastarfsemi er að ræða. Aftur á móti vekur ugg að börn sem gerendur eða þolendur koma meira við sögu manndrápsmála en oft áður sem hlýtur að vekja okkur til umhugsunar og aðgerða.
Þróun manndrápa á Íslandi
Varðandi þróun manndrápa á Íslandi er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa í huga að þau hafa áður komið í hrinum. Við erum fámenn þjóð með tiltölulega fáum málum á hverju ári og ætíð má búast við einhverjum sveiflum milli ára. Það koma ár með mörgum drápum, svo ár með færri, jafnvel engum. Um aldamótin síðustu voru sem dæmi fimm manndráp eitt árið. Í fræðunum er talið nauðsynlegt að skoða manndrápstíðni í fámennum samfélögum í lengra samhengi, jafnvel tíu eða fimmtán ár, og taka mannfjöldaþróun með í reikninginn sem hefur verið veruleg á Íslandi á þessari öld. Við skulum vona að bæði manndrápstíðnin og fjöldinn leiti aftur niður á við á næstu árum eins og oft áður hefur gerst hjá okkur. Í þessu samhengi er hollt fyrir okkur að hafa í huga að Ísland mældist friðsamasta þjóð í heimi af meira en 160 þjóðum samkvæmt Global Peace Indexinum árið 2024 – þá voru ofbeldi og afbrot tekin með í reikninginn. Eigi að síður verður að taka vanda ofbeldis á Íslandi alvarlega því við getum gert miklu betur.
Doktorsvarnir í Finnlandi og á Íslandi
Í nóvember var ég andmælandi doktorsritgerðar Marko Mikkola við háskólann í Tampere í Finnlandi. Rannsóknin sem ritgerðin byggði á var um þolendur netglæpa í alþjóðlegum samanburði. Ákaflega fróðlegt greinasafn og ánægjulegt að taka þátt í þeirri fræðilegu umræðu sem spannst í vörninni. Ekki síður var skemmtilegt að fá tækifæri til að kynnast og tengjast fræðimönnum við skólann og leggja á ráðin með ný verkefni í framtíðinni. Og nú í desember varði Svala Ísfeld Ólafsdóttir doktorsritgerð sína með glæsibrag í Hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem ég var leiðbeinandi. Viðfangsefnið kynferðisbrot gegn börnum, að sönnu viðkvæmt og erfitt, en tekið fyrir á afar næman og faglegan hátt.
Gleðilegt nýtt ár!
Nýtt ár, 2025, er nú handan við hornið og fleiri spennandi verkefni bíða. Óska öllum landsmönnum árs og friðar.
Athugasemdir