Til þeirra sem mættuð ekki á fundinn í morgun, þið getið túlkað þetta skeyti sem formlegt uppsagnarbréf: Þið eruð öll rekin,“ skrifaði Baldvin Oddsson, trompetleikari og framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins The Musicians Club, í skeyti til starfsmanna sinna á samskiptaforritinu Slack um miðjan nóvember.
Starfsmennirnir sem erindið átti við voru 99 talsins. Einungis ellefu höfðu mætt á umræddan morgunfund. Þau fengu að halda starfi sínu.
Skilaboðin fóru í dreifingu og vöktu athygli bandarískra fréttamiðla, meðal annars Fortune og The Economic Times.
„Tilraunir til þess að „slaufa“ mér hafa mistekist algjörlega“
Flestir starfsmenn í ólaunaðri fjarvinnu
Í skeytinu tíundaði Baldvin ástæðurnar fyrir uppsögnunum en sagði starfsfólkið ekki hafa staðið við gerða samninga. Þá bað hann þá sem sagt var upp að skrá sig út af öllum reikningum fyrirtækisins og skila vinnutækjum og öðrum búnaði sem tilheyrðu fyrirtækinu.
Í skeytinu áminnti Baldvin starfsfólk sitt fyrir vanþakklæti og sagði þau hafa farið illa með þau tækifæri sem hann hafi boðið þeim innan fyrirtækisins. Baldvin lauk skilaboðunum með því að segja þeim sem mættu ekki á fundinn einfaldlega að hypja sig.
„Ég gaf ykkur tækifæri til að gera líf ykkar betra, til að vinna af eljusemi og vaxa. Þrátt fyrir það hafið þið sýnt mér að þið takið þessu ekki alvarlega. Af 110 manns, voru aðeins 11 mættir í morgun. Þessir 11 fá að vera áfram. En restinni af ykkur hefur verið sagt upp,“ skrifaði Baldvin.
Í greinum Fortune og The Economic Times er þess getið að meirihluti starfsmanna fyrirtækisins hafi unnið þar launalaust, annaðhvort sem starfsnemar eða sem ólaunaðir hlutastarfsmenn, og þá vinna flestir í fyrirtækinu störf sín í fjarvinnu.
Baldvin svarar fyrir sig
Ekki náðist í Baldvin við vinnslu fréttarinnar, en hann hefur brugðist við fréttaflutningi erlendra miðla á samfélagsmiðlum, meðal annars á LinkedIn viku eftir að hann sagði starfsfólkinu upp. Þar sagði hann að sú mikla athygli sem málið vakti hafi bæði verið góð og slæm. Sumir hafi reynt að slaufa honum á meðan aðrir hafi sent honum stuðningskveðjur og hrós.
Hann sagðist standa við ákvörðun sína og bætti því við að neikvæð umfjöllun hefði haft gagnstæð áhrif. Sú mikla umræða sem fór af stað hefði skilað sér í aukinni aðsókn á vefsíðu félagsins sem hefði nýlega slegið sölumet. Þá hefði starfsumsóknum hjá félaginu fjölgað ört eftir að málið komst í hámæli.
„Tilraunir til þess að „slaufa“ mér hafa mistekist algjörlega,“ skrifaði Baldvin og bætti því við að fyrirtækið stæði betur eftir að hafa sagt starfsfólkinu upp. Baldvin sagðist jafnframt hafa fengið yfir 300 skilaboð frá öðrum framkvæmdastjórum, leiðtogum úr viðskiptalífinu og stórum fréttamiðlum. Þessum erindum sagðist hann ætla að svara á allra næstu dögum. Heimildin sendi Baldvini fyrirspurn um málið. Erindinu hefur ekki verið svarað.
Viðbrögðin við færslunni voru í takti við efnistök hennar. Sumir gagnrýndu Baldvin harðlega í athugasemdakerfinu. Þeim athugasemdum svaraði Baldvin gjarnan fullum hálsi. Aðrir hrósuðu Baldvini fyrir að taka djarfa ákvörðun og fyrir að standa fast á sínu.
Ungstirni í klassíska tónlistarheiminum
Baldvin er sem fyrr segir trompetleikari á þrítugsaldri. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann komið ansi víða við á sínum ferli og spilað fyrir frægar hljómsveitir á borð við American Symphony Orchestra, New York Philharmonic og Sinfóníuhljómsveit Íslands svo eitthvað sé nefnt. Þá sinnir hann trompetkennslu við hinn víðfræga Julliard-skóla í New York.
Þegar nafni Baldvins er slegið upp í leitarvél má finna ýmsar greinar sem birtar voru á árunum 2010 til 2015, þar sem fjallað var um einn efnilegasta trompetleikara landsins. Baldvin lauk einleikaraprófi aðeins 15 ára að aldri og innritaðist síðan í listmenntaskólann Interlochen í Michigan. Árið 2015 varð hann einn sigurvegara í einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ungir einleikarar. Árið 2016 útskrifaðist hann með gráðu í klassískum hljóðfæraleik frá Manhattan School of Music.
Baldvin hefur ekki aðeins verið viðriðinn tónlistina heldur hefur hann einnig komið að veitingarekstri hér á landi. Árið 2019 stofnaði Baldvin, ásamt tveimur æskuvinum sínum í Vesturbænum, matarvagninn Tacoson sem, eins og nafnið gefur til kynna, sérhæfir sig í að framreiða mexíkóska göturétti. Fjallað var um staðinn í frétt sem birtist á mbl.is í fyrra.
Sprotafyrirtæki stofnað 2023
Fyrirtækið The Musicians Club var stofnað árið 2023 og er það rekið af móðurfélaginu Brass Club LLC. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í bænum Sheridan í Wyoming í Bandaríkjunum. Félagið rekur stafrænt markaðstorg sem sérhæfir sig í sölu á hljóðfærum og öðrum aukahlutum sem tengist hljóðfæraleik. Á vefsíðu fyrirtækisins kemur fram að fyrirtækið leitist við að útvega tónlistarfólki, jafnt byrjendum sem lengra komnum, hágæða vörur sem viðskiptavinum býðst að fá sent heim til sín.
Í mánaðargamalli færslu sem Baldvin birti á Linkedin-síðu sinni segir hann frá tildrögum þess að hann stofnaði fyrirtækið:
„Þegar ég starfaði sem tónlistarmaður í Lincoln Center lenti ég einu sinni í því að mig bráðvantaði búnað eftir æfingu. Ég uppgötvaði að sá búnaður var ekki bara ófáanlegur í næsta nágrenni heldur í landinu öllu. Þetta var kveikjan að The Musicians Club,“ skrifar Baldvin og bætir við að nú bjóði fyrirtækið yfir 30.000 mismunandi vörur til sölu sem eiga að létta tónlistarmönnum lífið til muna.
Þá er sömuleiðis hægt að skrá sig í stakar kennslustundir í hljóðfæraleik á vefsíðunni. Hægt er að bóka tíma hjá leiðbeinanda í gegnum bókunarkerfi á vefnum. Kennslan fer ýmist fram í gegnum fjarfundarforritið Zoom eða í eigin persónu. Á vefsíðunni kemur fram að markmiðið sé að brúa bilið milli nemenda og hljóðfæraleikara á heimsklassa.
Athugasemdir