Það fór sem fór. Nærri 10% atkvæða – til vinstri – skila engum á þing! Gat varla farið ver. Það er sögulegt þegar hverfur af þingi hreyfing sem átt hefur öflugan þingflokk (5-14 þingmenn) í aldarfjórðung (1999–2024).
Nú hefst nýr kafli – en - „hvað það verður, veit nú enginn / vandi er um slíkt að spá – en eitt er víst, að alltaf verður / ákaflega gaman þá.“
Það er gömul saga að vinstri öflin séu sundruð, en nú ber nýrra við að hægriöflin skuli skiptast í 3 flokka, Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Viðreisn. Nú ætti vinstrafólk að skáka íhaldinu og hefja undirbúning þess að mæta sameinað í næstu Alþingiskosningar.
Það sem sagt er í þessari grein eru skoðanir höfundar. Hreyfingin hefur enn sem komið er enga formlega ákvörðun tekið um framhaldið.
Tilkoma Vinstrigrænna um aldamótin
Laust fyrir síðustu aldamót var reynt að sameina 4 vinstriflokka: Alþýðubandalag, Alþýðuflokk, Þjóðvaka og Kvennalista. Það tókst næstum því, en fólk sem var umhverfissinnað, á móti NATO og hersetunni og almennt lengra til vinstri, sættist ekki á þá kratastefnu sem hin nýstofnaða Samfylking markaði sér. Það fólk stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, VG, sem hefur verið eitur í beinum Samfylkingarinnar allar götur síðan. Báðir flokkarnir náðu strax inn á þing og hafa verið þar, uns VG dettur nú út um leið og Samfylkingin landar kosningasigri.
Ég valdi strax VG, vegna umhverfisverndarstefnunnar, sem þá var ný og fersk í íslenskri pólitík, og andstöðunnar við Nató og amerísku herstöðina á Miðnesheiði. Þá andstöðu erfði VG m.a. frá Alþýðubandalaginu, en umhverfis- og náttúruverndarstefnan var ný í íslenskri pólitík og margt fólk vissi ekki hvernig það ætti að taka henni. Mér eru minnisstæðar Grænu smiðjurnar, fræðslu- og stefnumótunar-samkomur sem Hjörleifur Guttormsson stýrði á fyrstu árum hreyfingarinnar, þar sem margvísleg umhverfis- og náttúruverndarmál voru krufin og leitað lausna.
Á fyrstu árunum var stuð og gaman að ryðja nýja braut í íslenskri pólitík, að tvinna saman baráttu fyrir jöfnuði, náttúruvernd, kvenfrelsi og heimsfriði. VG-liðum var núið það um nasir að vera á móti framförum og vilja helst flytja aftur í moldarkofa og tína fjallagrös. Vinstrigræn voru frá upphafi öflug í stjórnarandstöðu og beittu sér ákaft gegn Kárahnúkavirkjun og tilheyrandi náttúrueyðileggingu og unnu þannig hug og hjörtu náttúruverndarfólks.
Strax í upphafi var stefnan sett á kvenfrelsi, enda mjög öflugar konur í hreyfingunni og gefinn var út um það ítarlegur bæklingur fyrir kosningarnar 2003. Þótti mörgum skrítið þegar Steingrímur J og fleiri karlkyns forystumenn sögðust vera feministar. Þannig höfðu fáir karlmenn talað fram að því.
Þeim sem vilja sökkva sér í þessa sögu bendi ég á bókina Hreyfing rauð og græn, sem Pétur Hrafn Árnason skrifaði og gefin var út á tvítugsafmæli hreyfingarinnar 2019.
Fyrir, um og eftir hrun
Samfylkingin og Vinstrigræn unnu stórsigur í kosningunum 2009 og mynduðu ríkisstjórn til að koma Íslandi aftur á kortið, eftir að hægri öfl í Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Samfylkingu höfðu bókstaflega keyrt það í kaf. Sambúðin var erfið, einkum vegna þess að Samfylkingin hélt fast í þá stefnu að Ísland skyldi ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, en þar stefndi VG í gagnstæða átt. Við gríðarlega erfiðleika var að etja og þó flokkum þessum tækist að safna saman molum hins hrunda hagkerfis misstu þeir fylgi í næstu kosningum, einkum VG. Síðustu ár hefur Samfylkingin náð vopnum sínum og beitt þeim óspart á VG, með verulegum árangri.
Vinstrigræn lögðu strax í byrjun áherslu á að kvótinn yrði innkallaður og gerður að raunverulegri þjóðareign. Var gefin út um það ítarlega áætlun fyrir kosningarnar 2003 og aftur 2007 og varð kvótinn mikið kosningamál. Samfylkingin tók svo upp svipaða stefnu og var innköllun kvótans á stefnuskrá beggja flokkanna í stjórnarsamstarfinu 2009–2013, en þar reyndist við ofurefli fjársterkra aðila að etja og auðmannafjölskyldur hafa treyst tökin á óveiddum fiskinum í sjónum.
Höfuðandstæðingar saman í stjórn 2017
Stjórnarslitin haustið 2017 urðu vegna þess að Björt framtíð gafst upp á Sjálfstæðislfokknum vegna spillingar þar. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi, en varð engu að síður stærsti flokkurinn, með 16 þingmenn. Næst komu Vinstrigræn með 11, svo Framsókn með 8 og aðrir flokkar með 4-7.
Eftir kosningar 28. okt. 2017 gátu engir tveir flokkar myndað meirihluta, en 4 möguleikar voru á þriggja flokka stjórn, þar sem tveir stærstu flokkarnir, fjandvinirnir Vinstrigræn og Sjálfstæðisflokkur, urðu að vera innanborðs (BDV=35, DSV=34, DMV=34 og DPV=33). Ef Sjálfstæðiflokkurinn yrði ekki með þá var eini möguleikinn á fjögurra flokka stjórn BPSV=32 og meirihlutinn naumur (32 þingmenn). Þessir flokkar ræddu saman en Framsókn sagði stopp, meirihlutinn væri of naumur og Samfylkingu og Pírötum varla treystandi.
Nokkrir möguleikar voru á að mynda 5 flokka meirihluta, þar af einn nokkuð til vinstri, BMPSV, með 39 þingmenn. Það tók Framsókn ekki í mál, t.d. voru formenn Framsóknar og Miðflokks ekki fúsir til samstarfs. Fimm flokka meirihluti án Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var t.d. FMPSV=35, en ekki reyndi á það.
En eftir nokkurra daga þreifingar og þjark hófust árangursríkar samræður Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrigrænna, undir forystu VG og Katrínar Jakobsdóttur. Þau börðu saman stjórnarsáttmála á 2 vikum, þannig að hver flokkur fékk að mestu yfirráð yfir ákveðnum málaflokkum – og ráðherra þeirra málaflokka. Eftir tíð stjórnarskipti, vegna siðferðibrests og spillingar Sjálfstæðisflokks og formanns Miðflokks, þótti mikils vert að ná efnahagslegum og pólitískum stöðugleika. Stjórninni gekk vel fyrsta kjörtímabilið og fyrri hluta þess síðara og tókst að sigla þjóðarskútunni gegnum heimsfaraldur og náttúruhamfarir. Þar áttu Vinstrigræn mestan þátt og tókst að nokkru að verja kjör þess fólks sem veikast stóð, þrátt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Vorið 2023, þegar síðara kjörtímabilið var hálfnað, jókst ólgan í Sjálfstæðisflokknum, þar þótti mönnum Vinstrigræn ráða of miklu. Reynt var að settla málin á fundi á Þingvöllum, en í janúar lá við stjórnarslitum því Sjálfstæðisflokkurinn hélt málum í gíslingu og þoldi ekki að liðakð væri fyrir kjarasamningum. Svo yfirgaf Katrín sökkvandi skipið vorið 2024 og þá voru örlögin ráðin.
Ég tel að fráfarandi ríkisstjórn hafi í raun verið þjóðstjórn, þar sem mjög ólík stjórnmálaöfl afstýra neyð með því að sameinast um brýnar aðgerðir. Ég útskýri það í grein sem ég skrifaði mánuði fyrir kosningar og birti hér á visir.is.
Í þætti á Stöð tvö 1. des, þar sem formenn gera upp kosningaúrslitin, kemur margt fróðlegt fram hjá Svandísi og einkum þó Sigurði Inga, bæði um stjórnarmyndunina 2017 og um ástandið á stjórnarheimilinu síðasta 1 1/2 árið.
Svo mæli ég með BA-ritgerð Öddu Þóreyjardóttur Smáradóttur við H.Í. 2020: Leiðin að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Óvinsældir
Nú er það svo í þessum heimi að flestir sem kosnir eru til valda verða af því óvinsælir og hljóta lítið þakklæti fyrir að hafa beitt sér fyrir mis vinsælum málum, jafnvel þótt margt gangi vel. Ástæðan er ekki ljós. Gæti verið hluti af almennri óánægju og heimtufrekju sem kapítalískt hagkerfi elur upp í fólki. Í fréttum segir helst frá hörmungum og því sem illa tekst, en að mestu þagað um það sem vel tekst og vel er gert. Er ekki almennt meiri stemming fyrir glæpasögum og stríðsleikjum heldur en sögum um virðingu, ást og vináttu?
Flokkar sem fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum hafa ávallt tapað fylgi. Í aðdraganda stjórnamyndunar 2017 gengum við í flokksráði Vinstrigrænna út frá því að það myndi kosta flokkinn fylgi, en töldum það varða mestu að bjarga fólkinu í landinu frá stjórnarkreppu og stjórnleysi, þó það bitnaði á eigin vinsældunum. Við ákváðum að taka hagsmuni fólksins fram yfir hagsmuni flokksins. En við bjuggumst varla við svo miklu fylgishruni sem varð 30. nóvember.
Það var undantekning frá áðurnefndri meginreglu að ríkisstjórnarflokkarnir þrír juku svolítið fylgið í lok kjörtímabilsins 2021 og ákváðu því að halda áfram annað kjörtímabil. Þar réði miklu að ríkisstjórnin, með Katrínu og Svandísi í fararbroddi, hafði tekið skynsamlega á covid-faraldrinum og farið að ráðum bestu vísindamanna. Var efnahagsástandið furðu gott eftir þær hamfarir, t.d. lítið atvinnuleysi og lágir vextir. Eftir að venjulegra ástand komst á dvínuðu vinsældirnar mjög.
Hvað nú?
Í aldarfjórðung hefur VG sett mark sitt á þjóðlífið með félagslegum áherslum, baráttu fyrir friði, náttúruvernd og fyrir réttindum og kjörum alþýðufólks, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Engum nema Vinstrigrænum, með Katrínu Jakobsdóttur fremsta í flokki, hefur tekist að halda saman ríkisstjórn þriggja gjörólíkra flokka í nærri 7 ár. Nú er þeim kafla lokið, en eftir stendur árangur, sem lýst er hér á eftir.
Ráðherrar VG unnu hörðum höndum að því að raungera stefnu VG í sem flestu og gáfu sér lítinn tíma til að útskýra það sem þeir náðu fram. Pólitískir andstæðingar gáfu sér tíma til að nöldra sífellt á netinu um það sem miður fór og því öllu klínt á VG. Altalað var, líka innan raða VG, að Katrín væri undir hæl Bjarna og Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu.
Ástandið var svipað í Sjálfstæðisflokknum. Þar var því haldið fram að VG réði öllu og Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn langt til vinstri. Vinsældir beggja flokka dvínuðu verulega, en á lokasprettinum náði Sjálfstæðisflokkurinn að rétta svolítið úr kútnum, en VG ekki, og Framsókn fékk sína verstu kosningu í hundrað ára sögu flokksins.
Nú munu Vinstrigræn meta stöðu sína og möguleika eftir kosningaósigurinn og starf flokksins í sveitarstjórnum heldur áfram. Í óförum felast tækifæri. Næstu misseri er brýnt að koma á samræðum og samstarfi þeirra þriggja vinstriflokka sem áttu samleið út af þingi í þessum kosningum. Svandís vék að því í fyrrnefndum þætti á Stöð 2. Það kom m.a. fram í kosningaspám hve munurinn á stefnu þeirra er lítill. Framtíðin er óviss – og spennandi!
Það sem VG náði fram
Hér á eftir eru taldar upp úrbætur og lagabreytingar í anda Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem fráfarandi ríkisstjórn stóð fyrir. Upptalningin er ekki tæmandi og hér er ekki nefnt það sem Sjálfstæðisflokkurinn náði fram af sínum stefnumálum (svo sem sala Íslandsbanka).
Efnahagur og húsnæði
• Þriggja þrepa skattkerfi tekið upp að nýju með lágtekjuþrepi, dregið úr skattlagningu fólks með lágar tekjur
• Fjármagnstekjuskattur hækkaður
• Barnabætur hækkaðar og kerfinu breytt þannig að mun fleiri fjölskyldur fá barnabætur
• Fæðingarorlof lengt úr 9 í 12 mánuði, með skýrum reglum um skiptingu milli foreldra
• Stuðlað að farsælum kjarasamningum (m.a. með hlutdeildarlánum, styttingu vinnuvikunnar og komið á fríum skólamáltíðum), meginforsenda þess að verðbólga og vextir fara nú lækkandi.
• Fiskeldisgjald hækkað
• Fjármagnstekjuskattur hækkaður
• Húsnæðisbætur hækkaðar
• Atvinnuleysisbætur hækkaðar
• 10 ára samkomulag ríkis og sveitafélaga um framboð á húsnæði
• Aukinn stuðningur ríkis við framboð á húsnæði með stofnframlögum
• Hlutdeildarlán fyrir þá sem kaupa sína fyrstu íbúð
• Einkavæðingaráráttu Sjálfstæðisflokksins haldið í skefjum
• Stuðlað að óhagnaðardrifnum leigufélögum með verkalýðshreyfingunni (m.a. Bjarg).
Umhverfismál
• Yfir 30 svæði friðlýst, m.a. Látrabjarg, Geysir, Búrfellsgjá og Kerlingarfjöll
• Lögfesting markmiðs um kolefnishlutleysi
• Gerðar aðgerðaráætlanir í loftslagsmálum og fjárveitingar auknar
• Unnin stefna um aðlögun íslensks samfélags að yfirvofandi loftslagsbreytingum
• Stuðlað að aukinni landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis
• Loftslagsráð stofnað og tók strax til starfa
• Flokkun úrgangs samræmd með reglugerð (nr.803/2023), m.a. flokkun lífræns úrgangs
• Tekin skref til innleiðingar hringrásarhagkerfis, m.a. bann við markaðssetningu óþarfa einnota plasts
• Aðgerðaráætlun til að sporna gegn matarsóun
• Bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands (reglugerð)
• Virkjanaáráttu með tilheyrandi náttúrueyðileggingu haldið í skefjum og ákall um að almenningur njóti forgangs að þeirri orku sem framleidd er.
Atvinna
• Fjárfest í þróun kornræktar
• Fyrsta aðgerðaráætlun í lífrænni ræktun
• Ný nálgun í útrýmingu riðuveiki
• Hafró og Matvælastofnun efldar og dýraverndarlöggjöf nútímavædd
• Nýtt hafrannsóknaskip smíðað
• Aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar.
Jafnræði, lýðræði, mannréttindi (m.a. hinsegin fólks)
• Sett ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (nr.150/2020)
• Sett lög um jafna meðferð á vinnumakaði (nr.86/2018)
• Lagabreytingar um kynferðislega friðhelgi, umsáturseinelti, hatursorðræðu og fl.
• Ný löggjöf um þungunarrof (sem 18 þingmenn kusu gegn)
• Lög um kynrænt sjálfræði
• Mannréttindastofnun stofnuð
• Fyrsta aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks
• Ísland komst í 1. sæti á réttindakorti trans fólks
• Ísland komst úr 18. í 5. sæti á Regnbogakorti hinsegin fólks
• Heildarendurskoðun upplýsingalaga
• Bætt réttarstaða brotaþola og uppljóstrara
• Skattrannsóknir efldar
• Aukið aðgengi að stafrænni opinberri þjónustu
• Rafræn skilríki eru nú í eigu ríkisins
• Nýjar siðareglur fyrir ráðherra
• Mörk sett á eignarhald á landi með breytingu á jarðalögum
• Frumvarp um heildstæða endurskoðun á stjórnarskrá 2021.
Velferðar- og heilbrigðismál
• Nýtt sjúkrahótel opnað
• Bygging nýs Landsspítala hófst 2018 og fjármagni veitt til þeirrar byggingar öll árin
• Mörkuð ítarleg heilbriðisstefna til 2030, með þingsályktun sumarið 2019.
• Sálfræðingar á allar heilsugæslur (fyrsta skrefið...)
• Ákvörðun um nýtt húsnæði fyrir geðsvið LSH
• Geðheilsuteymi komið á fót um allt land (fyrsta skrefið...)
• Tannlæknakostnaður eldra fólks og öryrkja lækkaður verulega
• Hærri styrkupphæðir vegna tannréttinga
• Eininfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi lögfest vor 2024 og kemur til framkvæmda 2025
• Frítekjumark öryrkja hækkað úr 110.000 í 200.000 og dregið úr skerðingum
• Fjölgun NPA samninga
• Fyrsta landsáætlun um fatlað fólk lögð fram á Alþingi
• Tekinn upp félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða
• Kostnaðarþátttaka sjúklinga minnkuð
• Sett lög um sorgarleyfi í kjölfar barnsmissis (nr.77/2022).
Mennta- og menningarmál
• Ný farsældarlög um málefni barna, þar sem stuðningskerfi við börn er endurskoðað frá grunni til að tryggja samstarf ólíkra stofnana ríkis og sveitarfélaga í þágu barna. Mestu breytingar til áratuga
• 30% námslána breytt í styrk og ábyrgðamenn námslána felldir brott
• LÍN breytt í Menntasjóð námsmanna (lög nr.60/2020)
• Ný miðstöð menntunar og skólaþjónustu (lög nr.90/2023)
• Aðgerðir til fjölgunar kennaranema
• Fyrsta aðgerðaráætlun um vernd íslenskrar tungu
• Rannsóknasetur skapandi greina stofnað 2023 og framlög aukin til rannsókna og nýsköpunar.
Athugasemdir (6)