Ef ég kjarna það sem ég hef lært af lífinu þá skiptir mig miklu máli að eiga tengsl og að hugsa. Félagsleg tengsl eru það sem gæðir líf okkar merkingu. Þau eru allt frá einföldu nikki til náinna samskipta. Mér finnst þessi einföldu samskipti mjög ánægjuvekjandi. Þau eiga sér stað úti í búð, í samtali við ókunnugan, við að bjóða góðan daginn, í spjalli í morgunsárið yfir kaffibolla eða deila næstum því óvart hugsunum mínum með vinnufélögum. Fyrir mig er þetta límið sem gerir daginn minn samfelldan og góðan. Í smástund næ ég að mæta annarri manneskju, ég sé hana og upplifiaað vera séður.
Að grípa tækifærið í hversdeginum til að tala um það sem brennur þér á hjarta og bulla smá er nærandi og gefandi. Sýnum hvort öðru biðlund þegar við erum trufluð í dagsins önn og nikkum til baka eða tökum spjallið – þá held ég að dagarnir verði pínu betri (biðlund er fallegt orð).
„Hæglæti er skynsöm lífssýn“
Dýpri og nánari samskipti á ég og við alls konar vini, til dæmis æskuvini, vinnuvini, fjölskylduvini, óvartvini og hverfisvini. Þessi tengsl eru jafnmikilvæg mér og vatn er gróðri. Það sem helst heldur mér fjarri þessum gæðum er annríki og hugmynd um dugnað og vinnusemi. Með góðu skipulagi er stundum hægt að halda tengslum en að hægja á lífi sínu, ætla sér aðeins minna, er ráð sem dugar miklu betur. Hæglæti er skynsöm lífssýn – sem mig langar að tileinka mér meira.
Þorvaldur Þorsteinsson skáld benti okkur á að taka eftir því sem þú tekur eftir. Þetta hefur reynst gagnlegt leiðarljós. Ég hef til dæmis tekið eftir einu hjá mér – sem ég er pínu feiminn að játa. Mér finnst fólk mjög athyglisvert en samt virðist ég ekki taka eftir því. Það sem ég á við er að ég man stundum ekki eftir því hvar ég hitti það áður, eða hvað það heitir. Þau eru komin inn í minni mitt en samt ekki. Ég skil þetta ekki alveg enda ég enn þá verk í vinnslu og stundum mótsagnakenndur.
Ungur fékk ég þá umsögn í Fossvogsskóla að ég væri mjög masgefinn. (Þetta er fallegt orð). Mér hefur alltaf þótt gaman að ræða málin en það felur í sér gagnvirkt ferli, nefnilega bæði að tala og hlusta. Ég viðurkenni þó að það tók mig öllu lengri tíma að læra að hlusta en tala. Mín kraumandi forvitni um fólk og lífið almennt er líklega það sem hefur hjálpað mér mest í að læra að hlusta.
Í gegnum samtal við sjálfan mig og aðra hef ég átt kost á að yrða mínar hugsanir og fá viðbrögð við þeim. Þetta hefur reynst mér ómetanlegt við að smíða mína þekkingu og öðlast skilning á sjálfum mér og umhverfi mínu. Sókrates orðaði það einhvern veginn þannig að órannsakað líf væri ekki þess virði að lifa því. Ætli hann hafi verið að vísa til þess að það sé mikilvægt að hugsa um reynslu sína? Þetta sem við nefnum reynslu – og að verða reynslunni ríkari – samanstendur af alls konar upplifunum í dagsins önn. Að rifja upp þessar upplifanir, tala um þær og með einhverjum hætti horfa á þær úr fjarlægð – hefur reynst mér gagnlegt. Með þessum hætti hef ég smám saman öðlast aðgengi að sjálfum mér sem ég held að sé kjarninn í allri góðri ævimenntun – sem orðið felur í sér – er ævilangt ferli. Já, ég er verk í vinnslu.
En er nóg að hugsa um og ígrunda sína reynslu, sitt líf – og þannig þroskast sem einstaklingur? Held ekki. Það þarf að koma hugsunum sínum í orð og svo í athafnir. Vinnan er stundum góður vettvangur til athafna, en margt sem mikilvægast er í lífinu er utan sviðs vinnunnar. Það hefur reynst mér mikilvægt að gefa mér tóm til athafna og frítíminn er góður vettvangur. Þær stundir sem ég ver úti í náttúrunni með fólki reynast mér gæðastundir. Hvort sem það er í gönguferð eða fjöruferð, skíðaferð til fjalla eða hjólaferð – þá skapar hið félagslega og náttúrulega umhverfi möguleika á sterkri tengslamyndun. Þetta eru gæðatómstundir.
Ég er sem sagt masgefinn. Mér finnst gaman að hlusta og það kveikir hjá mér alls konar pælingar, og ég fer út um víðan völl í samtölum. Verð að bæta við einni sögu og gleymi oft stund og stað við þessa iðju. Mér finnst líka gott að fara úr einu verkefni í annað – og jafnvel vera að gera tvennt eða þrennt í einu.
Sumir hafa nefnt þetta „hátterni“ ADHD. Dísa dóttir mín er nokkuð sannfærð um að ég hafi þessa eiginleika – og þegar ég hef nýverið deilt með fólki sem þekkir mig vel þessari greiningu hennar þá er það – mér til mikillar furðu – almennt sammála henni. „Kobbi, þú ert nú kannski ekki með ofvirkni en örugglega með ADHD.“ Ég hef nú ekki náð sátt við þessa óformlegu greiningu en kannski er hún greining á mínum ofurkrafti – sem mér finnst réttara að kalla víðhygli. Ég á auðvelt með að taka eftir, láta huga minn fanga augnablikið, verða pínu hugfanginn af fólki og ganga á vald augnabliksins.
Vinur víðhyglinnar minnar er nokkuð jákvætt viðhorf til kaos. Sumir kunna að sjá kaos sem glundroða, upplausn eða óstjórn. Ég sé í kaosinu tækifæri fyrir umrót, ný hlutverk, að takast á við hið óvænta og læra að lifa við óvissu. Þetta kaos sem ég held að sé mikilvægt er ekki óskipulag, heldur frekar aðstæður sem við höfum takmarkaða stjórn yfir. Sumt í samskiptum okkar við fólk og sambýli við náttúru er þess eðlis. Reynum að setja smá kaos inn í okkar líf og prófum að spjalla við ókunnugt fólk í búðinni.
Reynsla mín hefur kennt mér að það er bara í góðu lagi!
Athugasemdir