Félag í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar og fleiri sem tengjast útgerðarfélaginu Samherja hefur stækkað við hlut sinn í verslunarrisanum Högum.
Tilkynnt var um viðskiptin til Kauphallarinnar í dag, vegna þess að stjórnarformaður Haga, Eiríkur S. Jóhannsson, er jafnframt forstjóri fjárfestingafélagsins Kaldbaks, sem framkvæmir kaupin. Eftir viðskiptin er Kaldbakur með 8,13% hlut í Högum og er þar langstærsti einkafjárfestirinn, en 10 af 11 stærstu hluthöfunum eru lífeyrissjóðir. Í dag keypti Kaldbakur 4 milljónir hluta á 400 milljónir króna og á samtals 90 milljónir hluta.
Þorsteinn Már Baldvinsson á fjórðungshlut í Kaldbak í gegnum önnur félög, en fyrverandi eiginkona hans á rétt tæplega fjórðung. Aðrir stærstu eigendur eru börn Kristjáns Vilhelmssonar, sem eiga hátt í helming á móti þeim tveimur.
Meðal félaga sem Kaldbakur á að fullu er Kattarnef ehf, sem átti ríflega 18% hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, áður en það færði hlutinn yfir til félags í eigu Eyþórs Arnalds, fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í fléttu sem fól í sér afskrift láns gegn kaupunum.
Umsvif Þorsteins Más Baldvinssonar í íslensku viðskiptalífi eru ekki takmörkuð við Kaldbak. Samtals ráða tvö eignarhaldsfélög í eigu Þorsteins Más og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, 79 milljörðum króna í árslok 2023.
Hagar er eigandi Bónuss, Hagkaupa, Olís, Eldum Rétt, Aðfanga, Banana, Stórkaupa og Zöru.
Á þetta Samherjafyrirtæki orðið hlut í öllum stærstu matvöruverslunum landsins,
nema Krónunni?