Alþingi hefur skipað rannsóknarnfend til að fjalla um aðdrganda og eftirmál snjóflóðanna sem féllu á Súðavík 16. janúar árið 1995. Eitt flóðanna féll á byggð nyrst í bænum með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið, þar af 8 börn á aldrinum eins til fjórtán ára.
Þrátt fyrir að tæp þrjátíu ár séu liðin frá því að snjóflóðin féllu er enn mörgum spurningum ósvarað. Nýjar upplýsingar í málinu komu fram í rannsókn Heimildarinnar sem birt var í apríl árið 2023 og var það meðal annars á grundvelli þeirra sem aðstandendur þeirra sem fórust í flóðinu fóru fram á að málið yrði rannsakað nú.
Nefndina skipa þau Finnur Þór Vilhjálmsson héraðsdómari, Dóra Hjálmarsdóttir verkfræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur, samkvæmt tilkynningu á vef Alþingis. Þeim er ætlað að leggja mat ákvarðanir um snjóflóðavarnir og upplýsingagjöf um hættu til íbúa Súðavíkur og rannsaka framkvæmd almannavarna í aðdraganda og í kjölfar flóðsins, ásamt eftirfylgni stjórnvalda.
Fyrsta rannsóknarnefndin um annað en hrunið
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti að koma nefndinni á fót fyrr á árinu en á síðasta ári beindi Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, erindi til nefndarinnar eftir fundi eftirlifendum og aðstandnendum þeirra sem létust í flóðinu. Þingið samþykkti svo tillögu nefndarinnar með öllum greiddum atkvæðum í apríl síðastliðnum en nú hefur nefndin fyrst verið mönnuð.
Þetta er fyrsta rannsóknarnefndin sem Alþingi skipar sem fjallar um eitthvað annað en aðdraganda og eftirmál tengd falli bankanna og efnahagshruninu 2008.
Hingað til hafa yfirvöld þó hafnað ítrekuðum beiðni aðstandenda þeirra sem létust í Súðavíkurflóðinu um opinbera rannsókn. Almannavarnir ríkisins voru látnar gera skýrslu um flóðið, þrátt fyrir að þar væri stofnunin í raun að rannsaka eigin ákvarðanir og viðbrögð.
Hverjir eru nefndarmennirnir?
Finnur Þór er héraðsdómari í Reykjavík en hann var fyrst settur dómari árið 2023 en þá hafði hann starfað sem saksóknari hjá Héraðssaksóknara. Hann var líka starfsmaður rannsóknarnefndar alþingis um hrunið og meðritstjóri skýrslu rannsóknanefndarinnar um einkavæðingu Búnaðarbankans.
Dóra Hjálmarsdóttir er öryggisráðgjafi og verkfræðingur hjá Verkís verkfræðistofu. Hún er sérfræðingur í neyðarviðbrögðum og hefur kennt áhættustjórnun við Háskólann á Bifröst.
Þorsteinn lauk doktorsgráðu sinni árið 1995 og hóf störf sem snjóflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni sama ár. Síðan 2014 hefur hann stundað kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands og hefur hann einbeitt sér að náttúruhafmörum.
Athugasemdir