Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag að breytingar sem gerðar voru á búvörulögum í mars stríði gegn stjórnarskránni og hafi því ekki lagagildi. Breytingarnar, sem voru harðlega gagnrýndar, fólu í sér undanþágur frá samkeppnislögum sem heimiluðu kjötafurðastöðvum samráð og samruna sín á milli.
Í dómnum segir að með samþykkt lagafrumvarpsins hafi verið brotið í bága við 44. grein stjórnarskrárinnar. Hún kveður á um að ekki megi samþykkja lagafrumvarp nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Samkvæmt dómnum átti upphaflega frumvarp Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, og það sem var samþykkt eftir breytingar sem urðu í atvinnuveganefnd þingsins „fátt sameiginlegt en þingmálsnúmerið og heitið.“
„Við blasir að öllum texta frumvarpsins er laut að efni upphaflega frumvarpsins var skipt út og nýr settur í hans stað annars efnis,“ segir í úrskurði héraðsdóms.
Upphaflegt markmið lagabreytinganna var að létta til með bændum. Fjölmargir bentu þó á að breytingin gagnaðist aðallega stórum fyrirtækjum í landbúnaði en lítil trygging var fyrir því að ávinningurinn skilaði sér til bænda.
„Afurðastöðvarnar stýrðu þessu. Það voru ekki bændur sem gerðu það, það er langur vegur frá,“ sagði Gunnar Þorgeirsson, fráfarandi formaður Bændasamtaka Íslands, í viðtali við Heimildina um lagabreytinguna í apríl.
Síðan lögunum var breytt hefur Kaupfélag Skagfirðinga nýtt sér undanþáguheimildirnar til að yfirtaka Kjarnafæði Norðlenska og fyrir nokkrum dögum var greint frá fyrirætlunum KS að kaupa B. Jensen, sem rekur sláturhús, kjötvinnslu á Norðurlandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir