Fyrir flesta Íslendinga gætu heilnæmustu viðbrögðin við kjöri Donalds Trump á forsetastól verið að hætta að fylgjast með fréttum og huga að því að „rækta garðinn sinn“, eins og lagt var til í Birtíngi eftir Voltaire.
Fjölmiðlamaðurinn og rýnirinn Egill Helgason orðaði þetta sem svo á bandaríska kjördaginn: „Ég á erfitt með að þola illskuna og glundroðann í heiminum. Það er óhugur í mér vegna ýmissa atburða og ég er farinn að forðast að fylgjast með fréttum.“
Allar líkur eru hins vegar á því að við verðum hluti af söguþræðinum hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ný söguöld
Illskan sem vísað er til er í stuttu máli athæfi út frá eigin hagsmunum sem skaðar aðra og virðir ekki tilvistargrundvöll þeirra, sem fylgir róttækur skortur á samkennd. Það sem réttlætir slíkar aðgerðir eru sögur sem skýra atburðina og skipa fólki í hlutverk.
Rússar hafa mulið niður borgir Úkraínu í tvö og hálft ár. Þeir gera það með tilvísun til bræðralags og mikilfengleika sinn sem þjóðar, en einnig með tilvísun um að utanaðkomandi öfl ógni þeim, nánar tiltekið Vesturlönd. Í upphafi sagði Vladimir Pútín Rússlandsforseti að þeir ætluðu að stunda heræfingar við landamærin, en réðust svo inn.
Ísraelsmenn hafa drepið á bilinu 12 til 17 þúsund börn á aflokuðu Gazasvæðinu síðasta árið. Þeir hafa drepið um þúsund manns síðasta mánuðinn, meira en eina manneskju á hverjum klukkutíma allan sólarhringinn. Tilefnið, eða casus belli, var fjöldamorð Hamasliða á óbreyttum borgurum í Ísrael síðasta haust.
Báðar „þjóðir“ gera það í samhengi sögu. Þjóð er í reynd saga. Hún er sagan af okkur og hinum. Ísraelsmenn lifa út frá sögunni af umsetnu þjóðinni, mögulega útvalinni af guði og sannarlega ofsóttri á köflum, þótt staðan hafi snúist við í Palestínu. Eftir tímabil alþjóðahyggju og alþjóðasamstarfs á forsendum smærri þjóða hefur ný bylgja þjóðernishyggju risið, ekki minnst í stærstu ríkjunum.
Kínverjar sitja um Taívan og stefna að því að ráðast inn í landið innan fárra ára, af þjóðernisástæðum og þeirri röksemd að það var hluti af ríkisvaldi Kína fyrir tíð Kommúnistaflokksins, en reyndar veigruðu þeir sér ekki við því að hernema og taka yfir aðra þjóð í Tíbet þegar landsmenn þar lágu vel við höggi, í aðgerð sem Kínverjar nefna „friðsöm frelsun Tíbets“.
Lykilatriðið er að sögur þurfa ekki að vera sannar til að hafa áhrif. Eins og Yuval Noah Harari fjallar um í nýútkominni bók, Nexus, hafa sögur þann tilgang að víkka út líffræðileg tengsl, að sameina fólk eins og í ættbálkasamfélagi. Þetta gildir um trúarbrögð og þjóðerni, en sagan af sterka leiðtoganum fellur líka sérstaklega vel að þróunarsögulegu eðli mannsins.
Missa stjórn á sögunni
Það er þekkt að sigurvegararnir skrifa söguna, en líklega gerist það oftar á hinn veginn: Að sigurvegarinn þarf fyrst að sigra söguna til að fá fólk með sér og minnka viðnám.
Dæmi um að ráðandi aðilar hafa misst stjórn á söguþræðinum vegna tækniþróunar var þegar konur fóru að segja frá kynferðislegri áreitni og árásum á samfélagsmiðlum árið 2017. Í rannsókn fyrir tveimur árum kom í ljós að flestir Bandaríkjamenn studdu metoo, þó með áberandi mun milli hópa. Tvöfalt fleiri Repúblikanar voru á móti metoo-hreyfingunni en studdu hana og þrefalt fleiri karlmenn í þeim flokki. Þetta er sami hópur og hefur verið yfirgnæfandi móttækilegur fyrir því að gera Bandaríkin stórbrotin á ný.
Beiting Donalds Trump á sögum ristir þó enn dýpra en svo að valdefling kvenna hafi dregið úr mikilfengleikanum.
Sögur Trumps: Virkni en ekki galli
Blaðamaður New York Times tók eftir því á kosningafundum Donalds Trump að þegar hann talaði um ákveðin atriði fékk hann óskerta athygli alls áhorfendahópsins. Enginn leit í símann sinn eða frá sviðinu. Þetta var þegar Trump, sem hefur verið margsinnis sakaður um kynferðisbrot, sagði sögur af „blóðþyrstum rándýrum“ og „barnanauðgurum“ eða lýsti því í smáatriðum hvernig ungar konur hefðu verið limlestar og svívirtar af innflytjendum.
Það sem andstæðingar Trumps höfðu talað um sem vísbendingar um vitskerðingu hans og veikleika var í raun virkni en ekki galli.
Fylgi við Trump minnkaði sáralítið eftir kappræður þar sem hann fór með ótrúlegustu ósannindi, til dæmis að það væri verið að fara með nýfædd börn í fóstureyðingar og að innflytjendur væru að éta gæludýrin í tiltekinni borg.
Þegar hann talaði opinberlega um að vindmyllur valdi krabbameini, hákarlar væru að gera árásir vegna rafvæðingar skipaflota, var það hluti af sögumanninum sem skemmtir fólkinu.
Síðan þegar hann talar um andstæðinga sína sem „meindýr“ og „óvininn að innan“ fellur það saumlaust inn í söguþráðinn fram á við.
Ástæðan fyrir því að sögum sem þessum hefur verið markvisst úthýst úr daglegri þjóðfélagsumræðu, að minnsta kosti í helstu lýðræðisríkjum, en ekki til dæmis í Rúanda fyrir þjóðarmorðin þar, er hversu vel slíkar sögur dreifast og hversu áhrifamiklar þær eru í því að afmennska „hina“. Áhrifamiklir sögumenn geta komið áður óhugsandi hlutum í verk og þess meira eftir því sem þeir eru minna bundnir af sannleikanum. Það sem áður var talið ógeðslegt verður eðlilegt.
Það að Trump sé mikill sögumaður dregur ekki úr áhrifum hans á veruleikann, heldur þvert á móti.
Sagan af sterka manninum
Þegar reynt var að skjóta Donald Trump, en hann færði til höfuðið á ögurstund til þess eins að fá kúluna í eyrað, rísa síðan upp með hnefann á lofti og hrópa „berjast!“, var hnýtt inn í söguþráðinn að Trump er hetja sem skuggaöfl vilja fella en örlögin lyfta. Í hvert skipti sem hann er saksóttur er það djúpríkið eða valdaóðir Demókratar sem vilja halda honum niðri. Þegar hann tapar kosningum er það svindl og þegar múgur, hvattur af honum, ræðst á þinghúsið til að stöðva framsal valds eftir kosningar – og hengja varaforsetann Mike Pence fyrir óhlýðni – fellur það inn í sama söguþráð. Athæfi og orðræða Trumps er sjálfskapandi spádómar. Hann varð vél sem nærðist á viðnámi. Hver sá sem stendur gegn honum fellur inn í söguþráðinn sem er spunninn jafnóðum.
Boðskapur Trumps um fyrri dýrð Bandaríkjanna er óljós, en það er styrkur hans. Hver og einn áheyrandi getur valið sína einu útgáfu af betri liðinni tíð til að trúa á, sína eigin sögu.
Sagan um það sem gerist ef ...
En það eru nýjustu sögur Trumps sem skipta mestu máli. Það eru sögurnar af því hvernig hann mun refsa þeim sem standa eða hafa staðið gegn honum með einhverjum hætti.
Þessar sögur þjóna ekki eingöngu þeim tilgangi að grípa athyglina eða fylla fólk eldmóði, heldur búa þær til líkan í huga fólks. Þetta módel er söguþráðurinn yfir það sem gerist ef einhver veitir honum mótspyrnu – hversu réttmæt sem hún kann að vera. Því fleiri sem trúa sögunni, þess sannari verður hún. Í kosningunum í vikunni varð þessi saga sannari en nokkru sinni fyrr, svo sannleikanum sé stigskipt.
Slíkar sögur hafa leikjafræði í för með sér. Fólk veit að ef það gerir X mun Trump, eða hans fylgifólk, gera Y, eða X í öðru veldi. Þetta á að heita helsti styrkleiki Trumps á alþjóðavettvangi. Að enginn muni standa gegn honum því, eins og hann segir, hinir leiðtogarnir „vita að [hann] er brjálaður“.
Þyngdarafl valdsins
Fælingarmáttur einhvers er það sem heldur öðrum frá því að grípa til óæskilegra aðgerða. Sem dæmi má nefna að Jeff Bezos, annar ríkasti maður heims, sá ástæðu til að stöðva ritstjórn Washington Post frá því að lýsa stuðningi við Kamölu Harris. Hann rökstuddi afstöðuna með því að ásýndarlega hefðu fjölmiðlar ekki staðið sig nógu vel. Það er að segja, að þrátt fyrir heiðarlega og faglega blaðamennsku tryði stór hluti landsmanna ekki á hana. Ein leið til túlkunar er að sögurnar sem fjölmiðlarnir segja ná ekki í gegn. Það sem Jeff Bezos nefndi ekki var að hann hafði orðið fyrir því í fyrri valdatíð Trumps að bandaríska varnarmálaráðuneytið hætti við að semja við fyrirtæki hans, Amazon, um ábatasama vefhýsingu vegna þess að Trump vildi refsa eiganda Washington Post, að mati forsvarsmanna Amazon. „Miklar hamingjuóskir til okkar 45. og nú 47. forseta vegna ótrúlegrar pólitískrar endurkomu og afgerandi sigurs. Óska Donald Trump allrar velgengni í að leiða og sameina Bandaríkin sem við unnum öll,“ sagði Bezos á X eftir kosningarnar á miðvikudag.
Trump fær forskot með því að hóta þeim sem standa gegn honum og misbeita valdi sínu í eigin þágu. Þetta forskot hefur meira vægi eftir að Trump fékk umboð bandarísku þjóðarinnar til þess.
Elon Musk, sem er ríkasti maðurinn á jörðinni, hafði áttað sig á þessu, áður en hann ákvað að leggja milljarða í stuðning við Trump og beita samfélagsmiðlinum sínum, X, í þágu hans. Það skiptir hann miklu máli að verða fyrir jákvæðum frekar en neikvæðum áhrifum af ofbeitingu Trumps á valdi. Þannig fær fólk sjálft forskot með því að fallast á að veita Trump þetta forskot. Þetta veldur þyngdaraflsáhrifum í valdasamþjöppun, sem sífellt fleira fellur að eða verður að fylgihnöttum á sporbaug. Í Norður-Kóreu eru áhrifin af valdasamþjöppun til dæmis hámörkuð. Þar þarf fólk að stunda flokksstarf og sýna leiðtoganum Kim Jong Un áþreifanlega hollustu til þess að fá starf eða ásættanlega íbúð. Trump hefur lýst aðdáun á Kim Jong Un, sem „algerum leiðtoga“.
Auðvitað eru stjórnmál Donalds Trump á yfirborðinu andstaða gegn kerfinu og valdi alríkisins, en vald þess verður aldrei sterkara en þegar einn maður hefur sölsað það undir sig með loforð um að beita því í eigin þágu, sem er holdgerving þjóðarinnar, og hefur stuðning beggja þingdeilda og Hæstaréttar til þess, eftir að Hæstiréttur úrskurðaði að hvað það sem forseti gerir í sínu starfi varði friðhelgi.
Leikjafræði og fælingarmáttur er þannig að gerendur haga sér með tilliti til ætlaðs viðbragðs eða endurgjalds. Þegar Pútín hafði lært að Trump komst upp með að ljúga og hóta til að ná sínu fram, án afleiðinga og með ríkum stuðningi, var órökrétt að sleppa því eða að lágmarki rýmka svigrúm til þess. Leikreglunum hefur verið breytt.
Sannir söguþræðir fortíðar
Varað hefur verið við Trump vegna þess að skrefin sem hann tekur eru hluti af þekktum söguþræði sem endurtekur sig í mynstri þar sem lýðræði líður undir lok.
Stóri sögulegi lærdómurinn færist sífellt fjær. Trump var fæddur ári eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, en þau sem voru að kjósa í fyrsta skiptið eru fædd frá 2002 til 2006. Þau eru alin upp við samfélagsmiðla þar sem söguþráðurinn er nokkurra sekúndna langur, sírofinn og úthlutað eftir ógagnsæjum reiknireglum á valdi auðmanna sem óttast eða tengjast Trump.
Langi söguþráðurinn er þessi: Donald Trump hefur nú þegar uppfyllt flest viðmið um stjórnmálamann sem grefur undan lýðræði, til dæmis að efast um lögmæti kosninga, afneita lögmæti pólitískra andstæðinga og umbera eða hvetja til ofbeldis. Þetta eru þrjú af fjórum lykilatriðum til að fylgjast með athæfi valdafólks sem mælikvarði fyrir einræðistilburði, samkvæmt bókinni How Democracies Die, sem tveir þekktir rannsakendur á þróun lýðræðis í einræði gáfu út árið 2017. Fjórða atriðið var að vera reiðubúinn að skerða réttindi andstæðinga, til dæmis fjölmiðla, en hann hefur meðal annars hótað því að svipta sjónvarpsstöðvar leyfi.
Þessi viðmið komu fram áður en Trump hvatti áfram múginn sem gerði árás á þinghúsið í Washington og áður en hann hótaði að nota herinn gegn andstæðingum sínum, ef hann yrði kjörinn í kosningunum sem hann vann á þriðjudag.
Áður en hann framfylgir þessu þarf hann að ná fram tilteknum lagabreytingum. Til þess hefur hann meirihluta fylgisspakra Repúblikana í bæði öldungadeild og væntanlega fulltrúadeild þingsins, fyrir utan Hæstarétt sem hefur í reynd veitt honum friðhelgi á meðan hann er forseti, það er að segja að hann geti verið dæmdur, sama hvað hann gerir af sér í embætti sínu sem forseti.
Tilhlökkun okkar
Þegar Trump var fyrst kjörinn forseti árið 2016, eftir að hafa talað niður til kvenna, hótað múslimum komubanni og ráðist gegn fjölmiðlum, sló þáverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skýran undirtón í heillaóskum sínum: „Við styðjum einhuga frelsi til hugsana og tjáningar, jafnrétti kynjanna og höfum í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú.“
Hamingjuóskirnar frá íslenskum ráðherrum núna eru skilyrðislausar og fylltar eftirvæntingu.
„Ég hlakka til að vinna með Trump-stjórninni“
„Bandaríkin eru sterkasta bandalagsríki Íslands og stærsta einstaka viðskiptaland. Ég hlakka til að vinna með Trump-stjórninni að því að þróa lengra okkar langvarandi samband sem vina og bandamanna,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á X.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sló í sama streng í viðtali við Stöð 2. „Við bara hlökkum til að starfa með nýjum forseta og hans stjórn.“ Hún sagði bandamennina á Vesturlöndum „deila þessum grundvallargildum og þeirri heimsmynd sem er þess virði að standa vörð um, að það verði ofan á í samstarfi Bandaríkjanna við sínar vina- og bandalagsþjóðir“.
Trumpheldni Íslands
Vandinn er sá að Donald Trump hefur sýnt að hann gerir ekki greinarmun á vinum, lýðræðisríkjum og einræðisherrum, nema ef vera skyldi aukin aðdáun hans á þeim sem hrifsa til sín öll völd yfir landsmönnum sínum. Á endanum verður þetta ekki aðeins spurning um hvort Bandaríkin standi með vörnum Íslands, heldur hvort og hversu mikilli sjálfstæð ógn Íslandi stafar af Bandaríkjum trumpismans.
Áhrifin geta orðið ýmiss konar. Til að byrja með gætu aðgerðir Trumps í tollamálum framkallað verðbólgu, sem á Íslandi leiðir af sér beina eignaupptöku hjá almenningi í gegnum verðtryggingu. Önnur áhrif geta verið í gegnum tilfærslu á gildismati og aðlögun íslenskra stjórnmálamanna að Trump, til dæmis endursköpun söguþráðar hans í íslenskri útgáfu. Í þriðja lagi nota nánast allir Íslendingar samfélagsmiðla sem eru stýrðir af óþekktum reiknireglum á valdi vellauðugra manna sem hafa ríkan hag af því að njóta velvildar Trumps, eða mun stafa ógn af því að fylgja honum ekki.
Við stöndum sameiginlega frammi fyrir vali um hversu mikið við ætlum að aðlagast og falla að Donald Trump, og hversu mikið við höldum í eigin gildi og bregðumst forvirkt við til að gera Ísland meira trumphelt og minna trumpháð. Ein leið er aukin áhersla á að nálgast Norðurlöndin, önnur er að gera eins og Píratar hafa lagt til, að nálgast Evrópu. Sjálf hefur Þórdís Kolbrún áður dregið úr því að aðild að Evrópusambandinu hafi með varnarmál að gera, en segir nú: „Evrópulönd hafa ... stóraukið útgjöld til varnarmála og sömuleiðis aukið og þétt mikið samstarfið. Og Evrópa þarf að gera meira í því.“
Undirliggjandi nú er ótti þeirra sem fara með völdin hér um að Trump taki ákvörðun um tolla á íslenskar vörur eða fari að gera sértækari kröfur um að fjármagna eigin varnir. Það er að segja, að það er þekkt að hættulegt er að styggja hann, en mun hættulegra nú þegar honum halda engin bönd. Það þarf hins vegar að víkka hratt út ímyndunaraflið til að ná utan um fleiri möguleika þegar kemur að valdamesta manni heims sem meira að segja ásældist nágrannaland okkar, Grænland, síðast þegar hann sat á forsetastóli. Áður en við vitum af verður hann, eða hans fólk, búinn að kynna okkur hvað gerist ef við gerum ekki það sem hann vill.
Núna erum við öll orðin hluti af söguþræði Donalds Trump, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sú saga er hins vegar rétt að byrja.
Athugasemdir (6)