Í ellefta sinn hefur Áslaug Jónsdóttir sest niður með samverkamönnum sínum, Kalle og Rakel, og búið til nýja sögu í skrímslaröðinni. Þessi þekkilega og vinsæla harðspjaldaröð fyrir yngstu lesendur er í áratug, frá 2004, búin að veita ungum (og eldri lesendum) dæmalausa ánægju.
Ótti og furða eru reyndar fylgdin sem hinar kátlegu og bráðlifandi myndskreyttu sögur af skrímslinu bjóða upp á og kalla eftir. Fjöldi höfunda hefur þrætt þessa braut að hugum ungra lesenda; hin torkennilega vera af öðrum heimi heillar markhópinn og leiðir saman unga og eldri lesendur. Letrið er sérgert og fellur inn í skoplegar en dramatískar myndirnar. Skrímslabókaröðin er orðin klassísk í barnabókagerðinni og líklega útflutningsvara. Verður að hrósa þremenningunum fyrir hugvitssamlega endurnýjun á söguefnum bók eftir bók, án þess að slegið sé af.
Enginn er svikinn af þessari bókaröð.
Í hnotskurn: Framúrskarandi framhald á vönduðu efni.
Athugasemdir (1)