„Ég er hársnyrtir, sveinn, ég útskrifaðist fyrir tveimur árum. Það hefur verið draumurinn síðan ég var barn, mér finnst gaman að láta fólki líða vel með sjálft sig. Það var gott að geta farið í þetta nám ung, ég byrjaði strax eftir grunnskóla. Ég útskrifaðist snemma, bara 19 ára, og það var draumur að rætast að vera komin snemma í atvinnulífið. Framtíðin er í þessum „beauty-bransa“, ég er líka förðunarfræðingur og þetta langar mig að gera; klippa og farða.
„Ég hef verið fyrst til að heyra stórar fréttir“
Það er gaman að klippa og spjalla, mjög gaman. Það er gaman að fá að vita um líf fólks, þetta er spennandi fólk og það er gaman að kynnast því. Maður heyrir eiginlega allt, ég hef verið fyrst til að heyra stórar fréttir, það er eins og fólk treysti mér fyrir öllu, ég er svolítið eins og sálfræðingur þeirra. Hvort sem það er barn á leiðinni, einhver trúlofun eða að einhver hafi dáið, ég hef heyrt þetta allt. Ég er andlegi stuðningurinn.
Núna er ég að hugsa um jólin. Við erum byrjaðar að bóka jólin og þá byrja ég að pæla í jólunum. Það er svolítið mikið að gera en ég er spennt, það er gott að fá smá gleði þegar það er orðið svona dimmt.“
Athugasemdir