„Það eru alltaf stór tíðindi þegar ríkisstjórnarsamstarfi er slitið. Það er stórfrétt í sjálfu sér,“ segir Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í kjölfar blaðamannafundar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann sagði stjórnarsamstarfið á enda og að þingkosningar yrðu í nóvember.
Enn á eftir að koma í ljós hvort skipuð verði starfsstjórn eða hvort núverandi ríkisstjórn muni sitja áfram fram að kosningum. Bjarni sagðist hafa tilkynnt formönnum hinna ríkisstjórnarflokkanna um þetta í morgun.
Svandís segir þau Bjarna og Sigurð Inga Jóhannesson, formann Framsóknarflokksins, hafa fundað í gær og þar hefði Bjarni ekki sagt neitt í þessa veru. „Það kom ekki upp að þetta stæði til í hans huga heldur ræddum við tiltekin mál og kannski meira heildarniðurstöðuna þannig að ég gerði ráð fyrir að sá fundur væri byggður á einhvers konar trausti og heilindum. Þetta kom mér í opna skjöldu,“ segir Svandís.
Hún segist hafa reiknað með að eftir fund formanna stjórnarflokkanna í gær þá myndi Bjarni koma til baka með tiltekin mál sem þyrfti að fara yfir. „Svo gerðist það ekki. Þetta er niðurstaða þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem er búin að vera í augljósum vandræðum með samstarfið. Þau hafa endurspeglað að þau eru mjög þrekuð og formaðurinn auðvitað í þeirri stöðu að hluti þingflokksins hefur verið meira og minna í stjórnarandstöðu,“ segir hún og vísar þar til harðrar gagnrýni innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnarsamstarfið.
Á dagskrá Svandísar eru nú hin ýmsu praktísku sem og pólitísku verkefni; að funda með þingflokknum, funda með skrifstofu flokksins, fara yfir stöðuna með stjórn flokksins og ræða við flokksráð. „Ég er aðallega í aðgerðafasa,“ segir Svandís.
Spurð hvort haldin verði prófkjör hjá Vinstri grænum fyrir kosningarnar segir hún að sá stutti tími sem sé til kosninga þrengi þann stakk sem þeim er búinn. Samkvæmt lögum VG sé það í höndum stjórna kjördæmasvæða að taka ákvarðanir um hvaða fyrirkomulag verður notað við að raða á framboðslista, en listarnir þurfi að vera tilbúnir vel fyrir kosningarnar sjálfar.
Hvað önnur verkefni varðar segir Svandís að Vinstri græn séu mjög stemmd fyrir því að komast í nánari samskipti við kjósendur. „Við vorum með landsfund síðustu helgi þar sem ég fékk sterkt umboð sem nýr formaður. Við erum að horfa til þess að auka félagslegar áherslur, sér í lagi þegar kemur að efnahagsmálum og húsnæðismálum. Það er stórt og mikið verkefni að tryggja að það sé sterk vinstri rödd á þingi. Ég hlakka til að fara áfram með þennan þrótt sem endurspeglaðist á landsfundinum,“ segir hún.
Athugasemdir (1)