„We are back, baby,
we are fucking back!“
Klæddir svörtum jakkafötum og hvítri skyrtu, með svört sólgleraugu, ganga þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason upp stiga. Myndbandið er birt á TikTok-síðu Miðflokksins. Og undir spilast lag:
„We are back.
Classic.
We are baaaack!“
„Þeir eru ofbeldismenn“
„Þetta er óboðlegt, þetta er óafsakanlegt og við viljum ekki að íslensku samfélagi sé stýrt af svona fólki.“ Sex ár eru liðin frá því að Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra steig fram í Kastljósi og lýsti hvernig hún áttaði sig á því að hún hefði „orðið fyrir stórkostlegri árás“ af þeirra hálfu þegar henni varð bilt við þegar mynd af Bergþóri birtist á Facebook. „Ég viðurkenni það líka að ég bognaði en ég ætla ekki að láta þetta brjóta mig,“ sagði hún. „Þeir eru ofbeldismenn. Ég segi bara að þetta er alveg skýrt í mínum huga: Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi.“
Hún hélt áfram og sagði að „sterkur einstaklingur hefði iðrast, hann hefði borið ábyrgð á því sem hann hefði sagt“. Ábyrgð Sigmundar Davíðs var ekki meiri en svo, en að hann brást við viðtalinu við Lilju með yfirlýsingu um að ekkert sem sagt hefði verið um hann í pólitík hefði sært hann meira en orð hennar. Hann reyndi þannig að stilla sér upp sem fórnarlambi hennar, vegna þess að hún talaði opinskátt um afleiðingarnar af gjörðum hans og þeirra.
Sigmundur Davíð er maður sem reis hratt til valda í íslensku samfélagi, en hefur aldrei axlað ábyrgð á mistökum sínum. Tækifæri til hefur þó ekki skort, enda stjórnmálaferill hans skrautlegri en flestra.
Og nú skorar hann hátt.
Miðflokkurinn mælist næststærsti flokkur á Íslandi í skoðanakönnunum.
„Hún veit ekki neitt“
„Kunta.“
„Helvítis tík.“
„Galin kerlingarklessa.“
„Húrrandi klikkuð kunta.“
Þetta eru orð sem Miðflokksmenn og félagar þeirra notuðu um konur á Alþingi. Um fyrrverandi fjármálaráðherra höfðu þeir þetta að segja: „Hún er algjör apaköttur. Hún veit ekki neitt, hún kann ekki neitt, hún getur ekki neitt.“
Svo kom að bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum:
Gunnar Bragi: „Ég held reyndar að hún geti verið helvíti öflug. Hún er helvíti sæt stelpa.“
Sigmundur Davíð: „Þetta er svona móment, ung kona, ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum, lyftum henni.“
Bergþór: „Það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Sigmundur Davíð: „Og á þeim forsendum segi ég að hún hrynji niður listann.“
Bergþór: „Eðlilega.“
„Hjólum í helvítis tíkina“
Lilja fékk síst skárri útreið, enda töldu þeir sig eiga tilkall til hennar. Þátttakendur í samtalinu um Lilju voru Sigmundur, Bergþór og Gunnar Bragi Sveinsson:
Gunnar Bragi: „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera.“
Bergþór: „Fuck that bitch. … Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún sem ég hef ekki fengið að ríða.“
Sigmundur Davíð: „Hún notar kynþokkann.“ Hann snýr sér að Bergþóri: „Beggi, ég ætla að vona að konan mín heyri aldrei af þessu, en ég hefði alveg verið til í þetta dæmi. En það er alveg rétt hjá þér, henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“
Gunnar Bragi öskrar: „Hjólum í helvítis tíkina! Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“
Bergþór við Gunnar Braga: „Þú getur riðið henni skilurðu. … Þarna kom loksins skrokkur sem typpið á mér dugði í.“
Sigmundur Davíð hlær: „Ég er ánægður að heyra að þið séuð komnir að sameiginlegri niðurstöðu með þetta.“
Konur treysta sér ekki í stjórnmál
Ári áður hafði Sigmundur Davíð lýst áhyggjum af því í Silfri Egils að konur treysti sér ekki í stjórnmál vegna „persónulegs níðs“ á stjórnmálamönnum. „Sérstaklega konur, hlutfallslega meira konur, eru ekki hrifnar af því hvernig stjórnmálin líta út. Og þar af leiðandi finnst þetta ekki freistandi starfsvettvangur.“
Taka yrði á umræðunni.
Svona var hans framlag til þess.
Eftir að hafa heyrt hvernig hann talar um konur er auðveldara að skilja til hvers hann var að vísa. Hann sem hafði óhikað tekið á móti þeirri útnefningu að vera einn fremsti karlfemínisti heims.
Krefst breytingar á viðhorfi og hegðun
„Af hverju er íslenskum karlmönnum annt um jafnrétti?“ spurði Gunnar Bragi í grein sem hann skrifaði í The Guardian, þegar hann gerðist talsmaður herferðar UN Women þar sem karlar voru hvattir til að rísa upp gegn kynbundnu ofbeldi: „Það að ýta undir og verja jafnrétti kynjanna snýst um meira en aðgerðir stjórnvalda. Það krefst breytingar á viðhorfum og hegðun. Það krefst þess að skaðlegar staðalímyndir um hvað við höldum að það þýði að vera karl eða kona séu brotnar niður.“
Raunveruleg viðhorf þeirra birtust hins vegar þegar þeir héldu að enginn heyrði til og dæmdu konur út frá útliti sínu og hversu undirgefnar þær væru þeim. Þegar þeir töluðu um að ríða konu í hefndarskyni, hæddust að heimilisofbeldi og MeToo-byltingunni.
Endurkoma þeirra er ein birtingarmynd bakslagsins í baráttunni gegn kynjamisrétti
Rétt er að árétta að það að ríða konu í hefndarskyni gegn vilja hennar er nauðgun. Nauðgun er hegningarlagabrot og lagaramminn er sextán ára fangelsi. Þótt þeir hafi ekki framið slíkt brot var óhugnanlegt að heyra fyrrverandi forsætisráðherra og menn sem höfðu verið í æðstu stöðum samfélagsins og sátu á Alþingi þar sem þeir fara með lagasetningu hafa svo alvarleg brot í flimtingum.
Hvað þá eftir að þeir höfðu sjálfir gefið sig út fyrir að vera kyndilberar jafnréttisbaráttunnar.
Veruleiki íslenskra kvenna
Þetta er veruleiki kvenna.
Þær vita aldrei hvar eða hvenær undirliggjandi viðhorf um að þær séu ekki jafngildar körlum mæta þeim. Eða hversu harkalega.
Í MeToo-frásögnum stjórnmálakvenna var greint frá því að stjórnmálakonu hefði verið hótað nauðgun vegna skoðana sinna. Eins var talað um að þekkt væri hvaða stjórnmálamenn væru mestu perrarnir, því margar hefðu lent í þeim.
Konur af öllum stéttum lýstu sama veruleika. Verstar voru frásagnir erlendra kvenna í lægstu stéttum. Ein konan starfaði við ræstingar og sagði frá því þegar maður af vinnustaðnum nauðgaði henni. „Hann vildi bara prófa útlensk kona.“ Eftir nauðgunina treysti hún sér ekki til þess að mæta aftur til vinnu. Næsta dag fann vinkona hennar hins vegar umslag merkt henni og færði henni. „Inní umslag var 100.000 kr. peningar.“
Árið sem kvenfyrirlitning þingmannanna var afhjúpuð höfðu 707 íslenskar konur, 15 ára og eldri, orðið fyrir líkamlegu, kynferðislegu eða andlegu ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi sambúðarmaka á síðastliðnum tólf mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.
Til viðbótar sögðust 4.124 íslenskar konur hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á síðastliðnum tólf mánuðum, af hálfu annarra en sambúðarmaka.
Og þarna sátu þeir saman og hlógu að heimilisofbeldi, gerðu grín að MeToo og lítilsvirtu konur.
Karlarnir.
We are back, baby
Í svörtu jakkafötunum og hvítu skyrtunni.
Sem mælast nú með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn.
„We are back, baby,
we are fucking back!“
Áfallastreita Sigmundar Davíðs
MeToo-byltingin gerði konum kleift að tjá reynslu sína án hættu á útskúfun. Og þegar konur gátu óhræddar tjáð sig flæddu sögurnar fram. Vandinn var ekki einstaklingsbundinn heldur bundinn við samfélagsgerðina.
Íslensk rannsókn á áfallasögu kvenna sýnir að um 40 prósent þeirra hafi verið beittar ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi er áfall sem er líklegra til að orsaka áfallastreituröskun en önnur áföll. „Áfallastreita í kjölfar kynferðislegs ofbeldis er álíka og eftir stríðsátök,“ benti talskona Stígamóta á í vikunni.
Sem er ekki síst áhugavert vegna þess að í kjölfar afhjúpunar á kvenfyrirlitningu þingmanna á Klaustur bar bentu kynjafræðingar á að orðræða þeirra minnti á orðræðu sem beitt er í stríði. Konur voru smættaðar niður í kynferðisleg viðföng og hótanir hafðar í frammi um að beita þær sem ekki þýðast karlmennina kynferðislegu ofbeldi:
„Þú getur riðið henni, skilurðu.“
„Þetta er valdatæki sem er notað til að sýna vald sitt,“ sagði Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, um hvernig kynferðislegt tungutak væri notað til að klæða valdið í ákveðinn búning. „Það er engin tilviljun hvernig þetta er gert, það er notað karllægt tungutak til að tala hluti upp, sýna vald og styrkleika, en kvenlægt orðfæri er notað til að tala niður og smætta, smætta konur niður í kynferðisleg viðföng og ofbeldi fléttað saman við það.
Sigmundur Davíð lýsti nýlega reynslu sinni af „áfallastreituröskun“. Hún var tilkomin af öðrum ástæðum: „Fylgið hjá okkur fór mikið niður á þessum tíma.“
Þegar menn ræða við vini sína
Er ekki eðlilegt að þið biðjið þjóðina afsökunar? spurði fréttamaður RÚV.
Sigmundur Davíð leit ekki svo á að vandinn væri hans, heldur væri alsiða að tala með þessum hætti.
„Alsorglegast í þessu máli er að það sé verið að draga inn í þetta eitthvert fólk úti í bæ, án þess að í því sé nokkurt fréttagildi. Eitthvert fólk sem menn hafa verið að ræða um á ákveðinn hátt og þann hátt sem því miður tíðkast allt of oft þegar menn ræða við vini sína og enginn heyrir til.“
Hann gerði þó tilraun til að ná sáttum við Freyju Haraldsdóttur sem misfórst, þegar hann líkti henni við vegg og sagði að selahljóðin hefðu verið stóll að færast. Eða reiðhjól sem bremsaði fyrir utan gluggann, var skýring sem hann kom með síðar. „Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur,“ sagði Freyja sem var illa misboðið vegna fötlunarfordómanna. „Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna.“
Eiginkona Sigmundar Davíðs sagðist vera stolt af sínum manni, en samfélagið væri á villigötum. „Hatrið og þörfin fyrir að smána aðra til að upphefja sjálfan sig,“ sagði hún. „Þetta er ekkert annað en öfund.“
„Ég hef ekkert brotið af mér“
Gunnar Bragi bað ranga konu afsökunar á ummælum um að það hefði fallið hratt á hana.
Hann taldi málið ekki ástæðu til afsagnar: „Ég hef ekkert brotið af mér. Ég hagaði mér asnalega og ég er ekki fyrsti þingmaðurinn í sögunni sem gerir það,“ sagði hann.
Fólk ætti að líta í eigin barm áður en það dæmdi hann, fyrir að kalla konu „helvítis tík“ og hreykja sér af því að hafa skipað Geir Haarde sem sendiherra í skiptum fyrir bitlinga síðar á ferlinum. Samhliða hefði hann skipað „fávitann“ Árna Þór Sigurðarson sendiherra, „alveg ókeypis“, til að stýra umræðunni.
Þegar spillingin var afhjúpuð sagðist hann hafa logið, jafnvel þótt Sigmundur Davíð hefði staðfest frásögnina. Í sama samtali tók Gunnar Bragi þó fram að hann stæði vel undir því að verða sendiherra. Endaði þó í vinnu fyrir Sameinuðu þjóðirnar, þegar hann hætti á þingi. Alveg ágætt samt.
Klausturmálið hafði afleiðingar. En þær voru ekki langvarandi
Þeir Bergþór fóru í tímabundið leyfi frá þingstörfum Miðflokksins. Fyrir endurkomuna hafði Bergþór leitað aðstoðar sálfræðings og talað við áfengisráðgjafa. Sem fulltrúi Alþingis á Evrópuráðsþingi nýtti hann hins vegar tækifærið til að lýsa ranglæti sem hann taldi þá félaga hafa verið beitta vegna málsins og kallaði eftir því að farið yrði hægt í aðgerðir gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni á þjóðþingi.
Áður en Gunnar Bragi sneri aftur á þing hafði hann gefið nýjar skýringar á framferði sínu. Hann sem kvaðst í fyrstu muna eftir öllu saman, hafði nú lent í óminnisástandi sem hófst um leið og hann kom inn á Klaustur bar og stóð yfir í einn og hálfan sólarhring.
Geðlæknir benti á að ef rétt reyndist væri það alvarlegt merki um heilabilun.
Drógu öryrkja fyrir dóm
Sigmundur Davíð hefur á sínum stjórnmálaferli orðið þekktur fyrir samsæriskenningarnar sem hann setur fram. Allt er alltaf einhverjum öðrum að kenna.
Áður en yfir lauk hafði hann smíðað enn eina samsæriskenninguna um Klausturmálið, þar sem hann sakaði fjölmiðla að ósekju um hleranir, hótaði ritstjórn Stundarinnar málsókn og krafðist aðgerða á hendur þeim.
Þingmennirnir voru svo forhertir í afstöðu sinni að þegar einstæð tveggja barna móðir á örorku steig fram sem uppljóstrari drógu þeir hana fyrir dóm.
Sagði einhver slaufun?
Þingmenn fordæmdu málflutning félaganna á Klaustur bar. Forseti Alþingis sagði ummælin óafsakanleg og óverjandi. Hópur þingmanna óskaði eftir því að siðanefnd tæki málið fyrir.
Kvenfyrirlitning þingmanna er hér rifjuð upp vegna þess að orð þeirra verða aldrei dregin til baka
Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Bergþór og Gunnar Bragi hefðu brotið siðareglur og að Sigmundur Davíð hefði tekið undir vanvirðandi ummæli: „Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Siðanefnd telur þau einnig til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess, auk þess sem þau sýna Alþingi, stöðu þess og störfum ekki virðingu.“
Klausturmálið hafði afleiðingar. En þær voru ekki langvarandi.
Nú skipa þessir sömu menn þann flokk sem fær næstmesta fylgið í skoðanakönnunum.
Sagði einhver slaufun?
Þegar brotaþolar eru einskis virði
Á miðvikudagskvöld var kertafleyting í minningu kvenna sem hafa látið lífið vegna kynbundins ofbeldis.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, flutti þar ávarp: „Það hefur verið í lagi að segja brotaþolum allra tíma að þær séu einskis virði og slaufa þeirra upplifunum en þegar gerendurnir eru nefndir þá er farið að tala um „slaufunarmenningu“ eins og hún hafi ekki alltaf verið til gagnvart brotaþolum.
Það að tala um slaufunarmenningu eins og eitthvert nýtt fyrirbæri er vanvirðing og niðurlæging gagnvart brotaþolum allra tíma. Fólkinu – konunum – sem hafa borið afleiðingarnar, skömmina, einmanaleikann, kvíðann og sjálfskaðann sem fylgdi: Átraskanir, neysla áfengis, neysla eiturlyfja og annan sjálfskaða.
Fjórðungur þeirra sem leituðu til Stígamóta árið 2023 höfðu gert sjálfsvígstilraunir. Þau sem lifðu það ekki af eru ekki til frásagnar og þau sem létust af völdum ofneyslu til að deyfa afleiðingar kynferðisbrota munu heldur aldrei njóta sannmælis.“
Kvenfyrirlitning við völd
Kvenfyrirlitning þingmanna er hér rifjuð upp vegna þess að orð þeirra verða aldrei dregin til baka. Og þeir tóku aldrei raunverulega ábyrgð á gjörðum sínum.
Þvert á móti hafa þeir haldið áfram að ala á andúð gagnvart minnihlutahópum.
Endurkoma þeirra er ein birtingarmynd bakslagsins í baráttunni gegn kynjamisrétti. Á undanförnum mánuðum hafa karlarnir sem sættu afleiðingum af gjörðum sínum flestir snúið aftur. Oftar en ekki hlotið til þess víðtækan stuðning samfélagsins. Þeir hafa jafnvel verið hylltir fyrir endurkomuna.
Þeir tóku aldrei raunverulega ábyrgð á gjörðum sínum
Raddir kvenna eru að mestu þagnaðar. Þær sem deila reynslu sinni fá ekki sama stuðning og áður. Hér er enginn sem hefur hátt – eða fáir.
En þegar brot hafa ekki afleiðingar er það eins og að segja ofbeldismönnum að þeir geti gert það sem þeim sýnist. „Þetta brýtur niður brotaþola og þetta valdeflir ofbeldismenn,“ sagði Drífa.
Um leið varpaði hún fram þeirri spurningu hvor hópurinn væri líklegri til að taka sér pláss og gera tilkall til valda. Á móti má spyrja hvort þetta séu mennirnir sem við viljum að stýri samfélaginu.
Hvort við viljum kvenfyrirlitningu við völd.
Ég staðhæfi að menn sem skemmta sér með þeim hætti sem fyrirliðar Miðflokksins gerðu á Klausturbarnum, eru illa innrættir. Það er örugglega engin tilviljun að skv skoðanakönnun vona 30% kjósenda þess flokks að Trump verði forseti Bandaríkjanna👿
Fjölmiðlar byrjuðu vel, birtu fyrst það sem varðaði þjóðina eins og stöðuveitingar og bitlingaskipti Gunnars Braga. En tóku svo að smjatta á öðru fyllirísrausi, sem virtist að auki fjalla um pólitík og kjörþokka speglað i kynþokkatali. Einkasamtal. Eins raus eða eiginlega vægara en maður hefur heyrt hjá og af ýmsum konum eins og flestir á börum, í samkvæmum, og útundan sér í saumaklúbbum.
Og konur stukku margar á vagninn, nú skyldi nota tækifærið til að ná sér niður á pólitískum andstæðingum, og aðrar sem ýmist eru fórnarlömb eða þolendur eða vilja stöðugt mála sig sem slík til meðaumkunar eða til að ná valdastöðu bættust við.
Fórnarlömb eineltis, sem lýst hafa slíku opinberlega, stukku sum sjálf á hneykslunar- og hegningarvagninn. Slíkt kom mér fyrst á óvart. En svo fræddist ég að slík hegðun væri alþekkt. Ingibjörg Dögg, yfirlýstur þolandi og fórnarlamb svo ég muni, birtir slíkt einmitt hér. Ég fræddist að þetta væri ástæða þess að engin þjóð, ekkert þing eftirlætur fórnarlömbum og þolendum einum að smíða refsingar til handa dæmdum.
Pistillinn er endurtekning á fyrri hneykslun Ingibjargar yfir þessu máli. Sennilegast er henni i nöp við pólitík Miðflokksins sem ég er lítt kunnugur og beitir þessarri ómerkilegu leið.
Það er greinilega eitthvað mikið að.
Kostulegt samtal og frétt Heimis Más Péturssonar á Stöð 2 við einn hlutaðeigandi vekur undrun, jafnvel hroll, svo ekki sé meira sagt...
https://www.visir.is/g/20242633072d/islendingar-eiga-ekki-ad-adlaga-sig-innflytjendum-heldur-ofugt