Kanadíska þingið hefur ályktað að geðsjúkdómar séu ekki sjúkdómur, ástand eða fötlun, sem hefur þær afleiðingar að einstaklingar sem þjást eingöngu af geðsjúkdómi uppfylla ekki skilyrðin um dánaraðstoð. Samkvæmt núgildandi lögum í Kanada er dánaraðstoð, eða MAID eins og hún er kölluð, löglegur valkostur fyrir þá sem uppfylla ströng skilyrði, svo sem að vera með alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm, sjúkdómsástand eða fötlun, vera í óafturkræfu ástandi hrörnunar og upplifa óbærilegar líkamlegar eða andlegar þjáningar sem ekki er hægt að lina á þann hátt sem einstaklingurinn telur ásættanlegan. Þeir sem þjást eingöngu af geðsjúkdómi eru því útilokaðir frá þessum rétti.
Mismunun og stjórnarskrárbrot
Samtökin Dying With Dignity Canada (DWDC) hafa því, ásamt fleirum, höfðað dómsmál til að krefjast þess að þeir sem þjást af langvarandi geðsjúkdómum, sem ekki er hægt að meðhöndla, fái möguleika á dánaraðstoð. Þau telja að útilokun þessa hóps mismuni fólki með geðsjúkdóma og viðhaldi fordómum. Útilokunin brjóti í bága við 15. grein kanadísku stjórnarskrárinnar sem tryggir rétt á jafnri vernd og jafnri meðferð án mismununar. Hún brjóti einnig í bága við 7. grein stjórnarskrárinnar sem verndar gegn skerðingu á lífi, frelsi og öryggi einstaklinga.
Könnun sem alþjóðlega markaðsrannsóknarfyrirtæki Ipsos framkvæmdi fyrir DWDC árið 2023 sýnir að 82% Kanadamanna eru fylgjandi því að einstaklingar með ólæknandi geðsjúkdóma sem hafa getu til að taka upplýsta ákvörðun eigi að geta óskað eftir mati á dánaraðstoð, að uppfylltum viðeigandi skilyrðum.
„Þeir sem búa við geðsjúkdóma þola mikla fordóma og útskúfun“
Helen Long, forstjóri DWDC, segir að einstaklingar með geðsjúkdóma þurfi að þola mikla fordóma og útskúfun í samfélaginu vegna þess að geðsjúkdómar séu oft misskildir.
„Við vitum, eftir samtöl við fólk með þessa reynslu, að það hefur reynt ýmsar meðferðir og lyf án árangurs. Þjáning þessara einstaklinga er raunveruleg, þeir eru orðnir þreyttir á þessari mismunun og vilja fá tækifæri til að fá beiðni um dánaraðstoð metna. Frá sérfræðingum á sviði geðlæknisfræði vitum við að varúðarráðstafanir munu vernda hugsanlega viðkvæma umsækjendur um dánaraðstoð. Heilbrigðiskerfið er tilbúið og sérfræðingar búast við að aðeins örfáir myndu uppfylla skilyrðin. Af þeim 9.068 einstaklingum sem fengu dánaraðstoð í Hollandi árið 2023 voru 138 (1,7%) með geðsjúkdóm sem aðalsjúkdómsástand. Yfirstandandi tafir á möguleika á dánaraðstoð fyrir fólk með geðsjúkdóma eru óréttlætanlegar, viðhalda mismunun og neita fólki um réttindi samkvæmt stjórnarskránni.“
Virðing fyrir vali einstaklingsins
Prófessor Daphne Gilbert, sem kennir við lagadeild Háskólans í Ottawa og er varaformaður stjórnar DWDC, segir að málsóknin sé mikilvægur áfangi í að tryggja að fólk með geðsjúkdóma njóti sömu virðingar og réttinda til heilbrigðisþjónustu og valkosta og aðrir í Kanada. „Sumir einstaklingar með geðsjúkdóma upplifa varanlega og óbærilega þjáningu, og það þarf að viðurkenna að andleg þjáning geti verið jafn eyðileggjandi og líkamleg þjáning. Við höfum ferla til að meta hæfni einstaklinga til að taka ákvarðanir um eigið líf; allir hæfir fullorðnir einstaklingar eiga rétt á því að ákvarðanir þeirra og val sé virt.“
„Geðsjúkdómur er raunverulegur sjúkdómur“
DWDC hefur birt reynslusögur einstaklinga sem þjást af geðsjúkdómum:
„Dánaraðstoð fyrir þá sem þjást eingöngu af geðsjúkdómum er flókið mál. Stundum virka meðferðir og lyf ekki. Læknar sýna oft mikla samúð og umhyggju fyrir sjúklingum sínum, en það getur verið erfitt að skilja huglæga þjáningu án þess að hafa upplifað hana sjálfur. Sumir einstaklingar sjá enga aðra leið en að taka eigið líf vegna þessarar miklu þjáningar. Samfélagið þarf að taka þetta alvarlega. Dánaraðstoð ætti að vera valkostur fyrir þá sem þjást af geðsjúkdómum. Ég held að við þurfum að viðurkenna að geðsjúkdómar eru raunverulegir sjúkdómar.”
„Ég vil hafa val“
Einstaklingur deilir sinni sögu:
„Ég greindist með geðhvarfasýki snemma á þrítugsaldri en þjáning mín hófst löngu áður. Í 35 ár hef ég leitað hjálpar hjá læknum, geðlæknum og trúarleiðtogum, auk þess að prófa ótal meðferðir. Það er engin lækning við mínum sjúkdómi og líf mitt, eins og það er núna, er ekki ásættanlegt. Mig langar að óska eftir dánaraðstoð, en stjórnvöld telja mig of „viðkvæma“ til að taka slíka ákvörðun. Allir sem taka ákvörðun um dánaraðstoð eru á einhvern hátt viðkvæmir. Ég vil hafa sama val og aðrir sem þjást af ólæknandi sjúkdómum.“
Af hverju er þjáning mín frábrugðin þjáningu annarra?
Annar einstaklingur deilir sinni reynslu:
„Ég þjáist af mörgum geðsjúkdómum og vil fá möguleika á dánaraðstoð. Það er forræðishyggja þegar aðrir segja mér hvað ég megi og megi ekki gera, án þess að þekkja mig eða mína reynslu. Ég hef upplifað fjölda áfalla á 63 ára ævi minni og reynt að taka eigið líf nokkrum sinnum. Ég er með langvinnt þunglyndi, almenna kvíðaröskun, áfallastreituröskun og forðunarpersónuleikaröskun. Ég er orðin heimakær, gæti hafa þróað með mér víðáttufælni, og ég reyni að sofa eins mikið og ég get því þegar ég er vakandi, upplifa ég stöðuga þjáningu. Ég skil ekki af hverju þjáning mín, sem stafar af langvarandi geðsjúkdómum, skuli vera talin frábrugðin líkamlegri þjáningu og útiloka mig frá dánaraðstoð.“
Strangar kröfur og þjálfun lækna lykilatriði í mati á dánaraðstoð fyrir fólk með geðsjúkdóma
Samtökin DWDC segja að strangar kröfur og varúðarráðstafanir séu nauðsynlegar til að tryggja að aðeins þeir einstaklingar sem þjáist af alvarlegu og ólæknandi geðsjúkdómum geti haft möguleika á dánaraðstoð. Lykilatriði sé að læknar fái viðeigandi þjálfun til að meta beiðnir um dánaraðstoð þegar um geðsjúkdóma sé að ræða, til að tryggja að umsóknir séu metnar á réttlátan, faglegan og siðferðislega ábyrgan hátt.
Þann 18. október n.k. stendur Lífsvirðing fyrir málþingi um reynslu annarra landa af dánaraðstoð, í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands. Einn af frummælendum er Kelsey Goforth frá Dying with Dignity Canada (DWDC). Dagskráin er aðgengileg hér.
Höfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.
Athugasemdir