Ég er píanóleikari og þegar ég var yngri þá langaði mig rosalega mikið að spila á píanó, en það voru allir svona: „Æ, ekki vera með læti.“ Svo var ég einu sinni á námskeiði. Og það var einn gæi, við urðum síðar vinir, hann sagði: „Af hverju er þessi ekki á píanóinu?“ Ég var að æfa á saxófón á þeim tíma. Svo fór ég á píanó. Þetta voru svo hvetjandi orð, sem höfðu svo góð áhrif. Ég var fjórtán, langar mig að segja.
Ég var í lúðrasveit. Ég fór alltaf á píanóið beint eftir æfingar og fólk þoldi það ekki. Ég var óþolandi krakkinn. Ég bara byrjaði að læra sjálfur. Þrjóska í mér að læra á píanó. Mér fannst þetta eitthvað svo heillandi, og gaman að skapa líka. Amma mín var píanóleikari í fimmtíu ár – það var geðveikt píanó hjá henni. Ég held þetta hafi komið af því að vera heima hjá henni og vera með aðgengi að svona flottu hljóðfæri. Hún kenndi mér rosalega margt inni á milli. Ég kem úr mikilli tónlistarfjölskyldu. Þetta var líka smá óumflýjanlegt.
Af hverju skiptir tónlistin mig svona miklu máli? Tónlist hefur gefið mér mjög mikið. Ég átti alveg erfitt með að eignast vini og svona þegar ég var krakki. Lúðrasveit var svo gott umhverfi fyrir mig til að þrífast í. Einhver sagði einhvern tíma við mig, „music connects people“ og mér finnst það málið. Tónlist býr til samfélög.
Athugasemdir