„Merkilegast var ábyggilega þegar ég varð ástfanginn. Að verða ástfanginn hefur haft risa áhrif á líf mitt. Ég er mjög heppinn. Ég var að leika í bíómynd og hún var aukaleikari og í rauninni varð ég ástfanginn þegar ég sá hana fyrst. Myndin heitir Berdreymi og ég var um það bil fjórtán ára. Þetta hefur verið flókin ást en þess virði. Ég þroskaðist mikið, mjög mikið.
Í rauninni er þetta í fyrsta sinn sem maður setur einhvern annan í forgang en sjálfan sig og þarf svolítið að læra inn á hitt kynið. Maður er að upplifa svo margar tilfinningar sem maður hefur aldrei fundið áður – og vissi ekki að væru til.
„Vandar sig, treystir og þroskast ofboðslega mikið.“
Maður upplifir afbrýðisemi en líka ótrúlega mikla gleði og grát; hamingju og grát og sorg. En gleði! Alls konar tilfinningar sem maður bjóst ekki við að væru þarna inni. Og þó að þess þurfi ekki með líður manni svolítið eins og verndara. Maður passar upp á hana og tilfinningar hennar. Er meðvitaður um hvað maður gerir og hvað maður segir. Vandar sig, treystir og þroskast ofboðslega mikið. Og líka fyrirgefur. Fyrirgefur til dæmis sjálfum sér. Bara viðurkennir mistökin sín, það þarf þroska og kjark. Maður lærir svo mikið. Það eru ekki allir sem verða svona ástfangnir og hafa einhvern sem elskar mann jafnmikið. Það er sjaldgæft. Ég sé það með vini mína í kringum mig, að þetta er ekki að gerast hjá öllum.“
Athugasemdir