Áður en ég eignaðist son minn var ég með plan. Ég ætlaði að klára skólann, flytja til Íslands, eignast íbúð, vera á vinnumarkaði í tólf mánuði og fara þá að huga að því að verða ólétt, þannig gæti allt gengið upp. Því ef eitthvað út af bregður er maður kominn í klípu, það tekur t.d. 18 mánuði að tryggja sér fullan rétt til fæðingarorlofs á Íslandi því þarf að skipuleggja barneignirnar mjög vel.
En svo fór að sumarið fyrir síðasta árið mitt í mastersnámi komst ég að því að ég væri ólétt. Ég gladdist við að sjá tvær bleikar línur á þungunarprófinu en tautaði líka „fokk“. Ég vann við að aðstoða námsmenn erlendis í hinu og þessu og vissi því að það væri ekki auðvelt að koma sér til Íslands með barn á leiðinni.
Að eiga von á barni sneri lífi mínu á hvolf á yndislegan hátt. Settur dagur var 1. apríl 2024. Ég átti fram undan haustönn í starfs- og vettvangsnámi og skilafrest mastersritgerðar 2. júní 2024. Ég gat ekki hugsað mér að eiga bara mastersritgerðina eftir þegar barnið kæmi. Ég mætti fljótlega á skrifstofuna hjá leiðbeinandanum og útskýrði fyrir honum af hverju ég þyrfti að skipta um stefnu og skila ritgerðinni fyrr, samtvinna hana með vettvangs-önninni og gera allt eins hratt og ég gæti. Skilum mastersritgerðar var því flýtt til mánaðarmóta janúar – febrúar 2024 sem er prófatíð haustannar.
Og það gekk upp. Það mætti kalla það kraftaverk að okkur tókst líka að flytja heim til Íslands, útvega íbúð, fá nýja vinnu og koma okkur fyrir áður en barnið mætti á svæðið. Það er sætur sigur að koma undir sig fótunum sem ung barnafjölskylda á Íslandi en það er langt frá því að vera auðvelt. Hins vegar kom það okkur mikið á óvart að umsókn mín um fæðingarstyrk námsmanna stæði á sér.
Þegar sonur minn var níu daga gamall sat ég við tölvuna og tók saman skjöl sem vantaði upp á umsóknina mína. Ég skilaði inn prófskírteini frá Háskólanum í Árósum sem ég hafði fengið í hendurnar þremur dögum áður og yfirliti yfir loknar einingar ásamt dagsetningum. Á seinna skjalinu sást að á bilinu 1. apríl 2023 og 1. apríl 2024 hafi ég lokið 60 einingum, sem nemur fullu námi.
Ég útskrifaðist með viku gamalt barn í fanginu og prófgráðan staðfesti að ég hefði lokið 120 eininga mastersnámi tveimur mánuðum á undan áætlun. Ég hélt því að ég væri gulltryggð og fengi fæðingarstyrk námsmanna um leið og starfsmenn sjóðsins myndu sjá pappírana.
En svo fór ekki.
Drengurinn kom í heiminn á settum degi. Fæðingin gekk vel og barnið sefur allar nætur, ég var við hestaheilsu og sængurkonugráturinn sem ljósmæðurnar vöruðu við hefði verið enginn ef ekki hefði verið fyrir samskipti við fæðingarorlofssjóð.
Eitt þeirra skjala sem ég skila inn til sjóðsins var yfirlit yfir loknar einingar með dagsetningum, það var ekki tekið gilt því á því eru dagsetningar en ekki „haust 2023“ eða „vor 2024.“
Á prófskírteini frá skólanum kemur ekki nógu skírt fram hvenær ég var í hverjum áfanga og ekki tekið gilt að ég hafi verið í fullu námi haust 2023 heldur ákveður sjóðurinn að ég hafi verið í fullu námi vorið 2024.
Ef barn fæðist í apríl þarf foreldri að hafa lokið 30 einingum á haustönn og 0 einingum á vorönn, en sjóðurinn túlkaði pappírana þannig að ég hefði lokið 30 einingum á vorönn en 0 á haustönn og uppfyllti því ekki skilyrði sjóðsins um fæðingarstyrk námsmanna. Þrátt fyrir að hafa skilað bréfi frá skólanum til staðfestingar um að ég hafi stundað fullt nám á haustönn en skilað ritgerðinni í sjúkraprófatíð haustannar, í mars 2024. Sjóðurinn krafðist þess að þrátt fyrir ástundun á haustönn og að ég hafi skilað af mér einingum haustannar ætti ég samt að framvísa læknisvottorði til að afsaka að ég hafi skilað einingunum á vorönn en ekki haustönn. Þá var aðeins eitt eftir í stöðunni, að fá læknisvottorð sem sannaði að ég hafi verið of veik til að stunda nám á haustönn 2023. Það reyndist erfitt, eins og fram hefur komið í greininni stundaði ég í rauninni meira en fullt nám haustið 2023. En það bjargaði mér fyrir horn að upprunalegi skilafrestur mastersritgerðarinnar var í lok janúar. Ég varð veik undir lok haustannar og fékk þá skóla-læknisvottorð til að færa skilafrest ritgerðarinnar um 6 vikur.
Vottorðið sem ég skilaði til skólans ásamt svari skólans dugði ekki til að ljúka umsókninni. Ég þurfti að fara aftur til læknis og fá ítarlegra vottorð á eyðublaði frá Vinnumálastofnun. Læknirinn, sem hafði þegar hitt mig til að gera skólavottorðið sat með mér í hálftíma að vinna vottorðið. Samkvæmt reglum fæðingarorlofssjóðs skal vottorðið vera undirritað með bláum penna, stimplað og sent með bréfpósti á Hvammstanga. Fyrsta vottorðið var sent til baka. Því var hafnað því það hafði ekki verið unnið nógu ítarlega, það kom t.d. fram að hvaða mánuði ég hafi verið veik þar sem átti að standa „haustönn 2023“. Ég fór þá aftur á heilsugæsluna með skottið á milli lappanna og svíðandi samviskubit yfir því að vera að sóa dýrmætum tíma heimilislæknisins. Hún tók hins vegar vel á móti mér og bætti fyrra vottorðið. Umsóknarferlið var því ekki eingöngu mikið álag fyrir mig og fjölskyldu mína heldur líka fyrir heimilislækninn og heilsugæsluna sem ég var hjá á meðgöngu.
Byrjaði í nýrri vinnu þegar sonurinn var 8 daga gamall
Maðurinn minn, Benedikt, byrjaði í nýrri vinnu þegar sonur okkar var 8 daga gamall. Það var ekkert annað í stöðunni fyrir okkur því þá hafði umsóknin mín um fæðingarorlof ekki verið samþykkt og hans réttur til fæðingarorlofs sami og enginn þar sem hann var á dönskum vinnumarkaði þar til í mars en með lögheimili á Íslandi. Hann fær því hvorki greiðslur frá Danmörku né Íslandi og dró svo sannarlega stutta stráið af okkur tveimur þar sem ég fæ að vera heima með barnið en við höfum ekki enn fundið leið til að hleypa honum í fæðingarorlof.
Afmælisdagur sonar okkar er frekar merkilegur en viðbrögðin sem við fáum eru á þann veg að fólk óskar okkur til hamingju með að hafa „náð“ nýju hámarki í fæðingarorlofi. Sem við svörum alltaf á þann veg að vegna þess að við erum að koma frá Danmörku fáum við í rauninni ekkert – en kannski einn daginn.
Þegar umsóknin mín var loksins samþykkt var sonur minn 10vikna gamall. Ég hafði þá staðið af mér tvö tekjulaus mánaðarmót og eru mínar fyrstu vikur sem móðir litaðar af stöðugum samskiptum við sjóðinn, miklum áhyggjum og pappírsvinnu. Það er mikil lukka að láta heppni og tilviljanir stjórna ferðinni í lífinu frekar en skynsemi og skipulag og ég myndi ekki skipta á því hvernig fór og því sem ég hafði ákveðið að ætti að gerast. En hvernig lögum um fæðingarorlof er framfylgt kemur mér þannig fyrir sjónir að það sé hreinlega ekki í anda laganna og sjóðurinn þjóni ekki tilgangi sínum.
„Hvert einasta skref virtist til þess gert að umsækjandi myndi missa móðinn á þessu krefjandi tímabili og gefast upp á rétti sínum til fæðingarorlofsgreiðslna“
Fæðingastyrkur námsmanna er ætlaður þeim sem hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins og nemur u.þ.b. 200.000 krónum á mánuði. Ef þeirri umsókn hefði verið hafnað hefði ég samt fengið fæðingastyrk fyrir þau sem eru utan vinnumarkaðar eða u.þ.b. 100.000 krónur á mánuði. Það munar ekki miklu í heildina. En mín umsókn veltist um í kerfinu í 15 vikur. Fjórir (eða fleiri) sérfræðingar á sérfræðingalaunum fóru yfir umsóknina og virðist sem að þeirra starf sé að reyna að klekkja á minni umsókn og koma í veg fyrir að ég fái 200.000 krónur á mánuði í sjö og hálfan mánuð heldur aðeins 100.000 krónur. Hvert einasta skref virtist til þess gert að umsækjandi myndi missa móðinn á þessu krefjandi tímabili og gefast upp á rétti sínum til fæðingarorlofsgreiðslna.
Það hlýtur að vera að fé leki úr sjóðnum - ekki til nýbakaðra foreldra heldur einfaldlega í kerfið sjálft; seinagang, sérfræðingakostnað, fundi trúnaðarlækna, umsýsla læknisvottorða hjá heilsugæslu og tímar hjá heimilislækni. Samanlagt hlýtur þetta að nema meira en þeirri fjárhæð sem ég fæ í fæðingarorlofsgreiðslur.
Of algengt að foreldrum sem hafa lært erlendis sé refsað
Þegar lögin voru sett sá kannski enginn fyrir að fólk flytti á milli landa á miðri meðgöngu, skipti um vinnu á meðgöngu, fækkun í dagforeldrastéttinni og að börn kæmust ekki á leikskóla fyrr en á öðru ári. Það hefði verið „skynsamlegra“ að koma ekki til baka til Íslands. Sagan okkar er ekki einsdæmi. Hjá SÍNE fáum við að minnsta kosti tvær sambærilegar sögur inn á borð til okkar árlega og þó að athygli yfirvalda á þessu hafi verið vakin þá breytist ekkert. Enn er of algengt að nýbökuðum foreldrum sem hafa lagt á sig nám erlendis sé refsað fyrir það með fjárhagskröggum þegar að fæðingarorlofi kemur. Málin flækjast síðan enn meira ef unnið er erlendis í stuttan tíma eftir nám og það er engin leið að flytja til Íslands á meðgöngu og eiga fullan rétt á fæðingarorlofi enda er réttur til fæðingarorlofstekna skrifaður í stein löngu áður en barn fæðist.
Það kemur fyrir að Íslendingar sem fara í nám erlendis sjái sér ekki fært að koma aftur til baka á meðan þau standa í barneignum og eru að koma undir sig fótunum. Dóra Sóldís skrifaði nýlega góða grein um þá stöðu sem blasir við henni og hennar fjölskyldu sem varð til þess að þau héldu sig frekar í Noregi en að snúa heim. Árið 2020 stefndi íslenskur læknir íslenska ríkinu því hún fékk eingöngu lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi sínu þar sem hún hafði starfað í Danmörku í aðdraganda fæðingarinnar, en síðan á Íslandi í stuttan tíma fyrir fæðingu barnsins. Læknirinn og Benedikt eiga það sameiginlegt að þau unnu sér hvorki inn fæðingarorlof í Danmörku sem eru 3 af síðustu 4 mánuðum fyrir upphaf fæðingarorlofs. Né á Íslandi, sem eru 6 af 12 mánuðum fyrir fæðingu og tímabilið sem notað er við útreikning tekna er 12 mánaða tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Í málinu var fengið ráðgefandi álit EFTA dómstólsins.
„Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sagði að skylda til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar yrðu verr settir við það að nýta sér rétt til frjálsrar farar fæli í sér að bætur til þeirra skyldu vera hinar sömu og þær hefðu verið ef launþegi hefði ekki neytt þess réttar. Þar af leiðandi bæri að reikna viðmiðunartekjur launþega, vegna starfstímabils í öðru EES-ríki, út frá áætluðum tekjum launþega í sambærilegri stöðu og með sambærilega starfsreynslu og hæfi og launþegi í því ríki þar sem sótt væri um bæturnar,“ segir í dómnum sem sýknar íslenska ríkið.
Eins og enginn þyrði að taka af skarið
Ég upplifði aldrei að starfsfólk Fæðingarorlofsjóðs vildi mér ekki vel en mér fannst eins og enginn þyrði að taka af skarið og ákveða að umsóknin mín væri gild. Í staðin veltist hún um í kerfinu í fimmtán vikur á meðan kallað var eftir fleiri og fleiri vottorðum, pappírum og öðru til að sanna að ég ætti rétt á orlofsgreiðslum. Þetta er ekki óalgeng upplifun námsmanna sem snúa aftur til Íslands og þurfa af einhverjum ástæðum á leita til hins opinbera eða taka lán hjá menntasjóði námsmanna. Hér er strangt annakerfi í öllum skólum en það er ekki þannig um allan heim. Ég lauk 60 einingum á árinu áður en ég fór í fæðingarorlof, en ekki þannig að því væri raðað á haustönn – vorönn, enda er skipulagið aðeins frjálsara og hægt að ljúka áföngum á miðri önn ef svo ber undir. Þetta var einfaldlega ekki tekið gilt hjá Fæðingarorlofssjóði því þau vildi sjá svart á hvítu: Haust 30 einingum lokið. En ekki, september: 20 einingum lokið, desember: 10 einingum lokið, mars: 30 einingum lokið.
Við hjónin höfum bæði verið ýmist í fullu námi og hlutastarfi eða fullu starfi síðan við vorum 16 ára, okkur hefur ekki fallist verk úr hendi á fullorðinsárum en við rétt bregðum okkur af bæ til að mennta okkur og komum réttindalaus til baka.
Höfundur er formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE)
Fæðingarorlofið er kostað af vinnandi fólki á Íslandi sem greiðir nú af launum sínum rúm 6% af brúttólaunum sínum í Tryggingasjóð. Gjaldið er Tryggingagjald. Enginn sem ekki hefur áunnið sér rétt til greiðslna úr Tryggingasjóði getur fengið greiðslur úr þessum sjóði. Sá réttur fer eftir sérstökum reglum þar um.
Það sama á við um atvinnuleysisbætur. Upphafið um tilveru þessa sjóðs á rætur til kjarasamninga frá árinu 1955, baráttuaðilinn var Dagsbrún. Um tíma kostaði þessi sjóður niðurgreiðslur á vöxtum vegna félagslegra lána til íbúðakaupa.
Nú hin síðari árin niðurgreiðir ríkissjóður vexti í aðeins einum lánaflokki sem eru námslán auk annars stuðnings sem félagar í Eflingu (áður Dagsbrún ofl. félög) njóta ekki.
Hér er svo þessi þriðja grein:
3. gr.
[Tekjur af atvinnutryggingagjaldi skulu renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs. [Þó skulu tekjur af atvinnutryggingagjaldi vegna reiknaðs endurgjalds þeirra sem falla undir gildissvið laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga renna í hlutaðeigandi deild þess sjóðs.] 1)
[Tekjum af almennu tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
1. … 2)
2. … 3)
3. … 4)
[4. [0,325%] 5) af gjaldstofni skv. III. kafla renni til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, sbr. VI. kafla.] 6)
[5.] 6) Fæðingarorlofssjóður fái í sinn hlut sem nemi allt að [1,1%] 7) af gjaldstofni skv. III. kafla.
[6.] 6) Tekjur af almennu tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í [1.–5. tölul.] 8) renni til Tryggingastofnunar ríkisins [og sjúkratryggingastofnunarinnar eftir því sem við á] 9) til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eftir reglum sem [ráðherra] 10) setur með reglugerð.] 11)
Um hlutdeild opinberra byggingarsjóða í almennu tryggingagjaldi fer eftir ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo og ákvæðum lánsfjárlaga og fjárlaga hverju sinni.] 12
Það væri auðvitað ofur eðlilegt að fæðingarorlof og t.d. atvinnuleysisbætur væru kostaðar með almennum tekjuskatti ásamt fjármagnstekjuskatti. En svo er ekki og í þennan sjóð hefur launafólk eitt greitt.