Mohammed Abu Al-Qumsan var nýbakaður tvíburafaðir. Hann var nýbúinn að ná í fæðingarvottorð fyrir tvíburana sína. Þetta átti að vera gleðistund. En samt sat hann og grét í líkhúsi í byrjun viku, veifandi fæðingarvottorðunum. Annar maður sat við hlið hans og reyndi að hugga hinn nýbakaða föður sem hafði á einu augnabliki orðið ekkill.
Reuters greinir frá.
Á meðan Mohammed var að ná í fæðingarvottorðin fyrir tvíburana sem voru fjögurra daga gamlir gerði Ísraelsher árás á hús fjölskyldunnar á Gazasvæðinu. Inni í líkhúsinu sem Mohammed grét í voru því einungis kaldir líkamar eiginkonu hans, barnanna hans og tengdamóður. Andar þeirra voru horfnir.
„Ég hafði ekki einu sinni tíma til þess að fagna fæðingu tvíburanna okkar,“ sagði Mohammed við BBC.
Mohammed hafði þurft að bera börnin sín, drenginn Asser og stúlkuna Ayssel, af yfirfullri bráðamóttökunni í miðbæ Gaza og út í bíl til þess að koma þeim í líkhúsið. Slík sjón er algeng á Gaza þar sem um 15.000 börn hafa verið drepin eða týnt lífi vegna hörmulegra aðstæðna á Gaza síðan árásir Ísraelshers hófust. Grafreitur barna, hefur svæðið verið kallað, og segir heilbrigðisráðuneyti Gaza að 115 ungbörn hafi bæði fæðst og verið drepin í stríðinu.
„Í dag var það skráð í sögubækurnar að hernámið hefur beinst að nýfæddum börnum“
Tíu mánuðum eftir að stríðið braust út hafa árásir Ísraelshers og mikill skortur á lyfjum, mat og hreinu vatni knésett einn þéttbýlasta stað heims.
Greinir á um virðingu við almenna borgara
Karlmaður baðst fyrir á meðan börnin voru borin út í bíl og mannfjöldi safnaðist saman og fylgdist með syrgjandi ekklinum af svölum bráðamóttökunnar.
„Í dag var það skráð í sögubækurnar að hernámið hefur beinst að nýfæddum börnum sem voru varla orðin fjögurra daga gömul,“ sagði sjúkrahúslæknirinn Khalil al-Daqran við Reuters.
Ísraelsk stjórnvöld hafa sagst ganga langt til þess að forðast mannfall óbreyttra borgara og saka erkifjendur sína í Hamas um að hafa beitt almennum borgurum sem skjöldum. Því hafa Hamas samtökin neitað.
Árásir Ísraelshers á Gazasvæðið hófust af miklum þunga eftir að Hamas-liðar fóru yfir landamærin sjöunda október síðastliðinn, drápu um 1.200 manns og tóku yfir 250 í gíslingu, samkvæmt tölum frá ísraelskum stjórnvöldum.
Viðbrögð Ísraelshers voru árásir á Gazasvæðið sem hafa drepið næstum 40.000 manns og sært fleiri en 92.000, samkvæmt ísraelskum tölum. Þá hafa þessar árásir lagt stóran hluta Gaza í rúst og sent stærstan hluta íbúa á flótta.
Þeir eiga ekkert land þarna , það eiga Palestínumenn
af því að þeir nentu ekki meir?