Evrópa er á nálum.
Í annað sinn frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 er grimmilegu vopnavaldi beitt í austurhluta álfunnar, nú Í Úkraínu sem Rússar réðust inn í 2014 og aftur 2022 til að gleypa landið í heilu lagi. Það mistókst hvað sem síðar verður. Hin styrjöldin var háð í Júgóslavíu 1991-2001 eftir að landið gliðnaði í sundur við fall kommúnismans. Þá sprakk hún aftur gamla púðurtunnan á Balkanskaga þar sem fyrri heimsstyrjöldin hófst 1914.
Og þá eru ótalin ýmis veigaminni átök eins og til dæmis eftirdrunustríðið í Eystrasaltsríkjunum 1944-1956, þar sem heimamenn, svo kallaðir skógarbræður, börðust áfram gegn ágangi Rússa. Einnig má nefna borgarastríðin í Grikklandi 1945-49 og Georgíu 1991-93 og stríðin tvö í Tsjetsjeníu 1994-96 og 1999-2009. Við þetta má bæta innrásum Rússa í Austur-Þýzkaland 1953, Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968.
Rússland, Rússland
Af þessari upptalningu má sjá að oftast hefur vandinn verið bundinn við yfirgang Rússa gagnvart grannríkjum sínum og leppríkjum í Austur-Evrópu. Vandinn er öðrum þræði sá að Rússland hefur engin landamæri frá náttúrunnar hendi til austurs eða vesturs önnur en Kyrrahafsströndina að austanverðu og Eystrasaltið í vestri því landið er marflatt til beggja átta báðum megin Úralfjalla. Þess vegna fannst Rússum það liggja vel við að leggja Síberíu undir sig í áföngum á keisaratímanum alla leið austur að Kyrrahafi og einnig Eystrasaltsríkin og Finnland sem liggja að Eystrasalti.
Rússland er enn sem fyrr yfirgangssamt heimsveldi og ræður fyrir fjölmörgum ólíkum þjóðum á risavöxnu landsvæði sem teygir sig yfir ellefu tímabelti. Þessar þjóðir kysu sumar helzt að fá að standa á eigin fótum fengju þær einhverju um það ráðið. Þar á meðal er Jakúsía þar sem búa milljón manns á svæði í Síberíu sem er 30 sinnum stærra en Ísland. Og einnig Basskortistan með rösklega fjórar milljónir íbúa á svæði sem er helmingi stærra en Ísland og liggur milli Volgu og Úralfjalla í suðvesturhluta Rússlands. Þá má nefna Dagestan í Norður-Kákasusfjöllum við Kaspíahaf syðst í Rússlandi með sínar rösklega þrjár milljónir íbúa, þar af aðeins um 100.000 Rússa.
„Innrás Rússa í Úkraínu hefur gefið Kínverjum tilefni til að færa sig upp á skaftið“
Enn eru þeir Rússar til á æðstu stöðum sem telja jafnvel Eystrasaltsríkin og Finnland tilheyra Rússlandi og segja það fullum fetum í rússneska ríkissjónvarpinu. Vitað er að Kínverjar hafa í hyggju að hremma aftur undir sín yfirráð landsvæði sem þeir misstu í hendur Rússa á 19. öld. Um þetta vitna meðal annars ný kort sem kínversk yfirvöld hafa nýlega birt með uppfærðum landmærum milli Rússlands og Kína. Innrás Rússa í Úkraínu hefur gefið Kínverjum tilefni til að færa sig upp á skaftið.
ESB
Það var samt ekki óttinn við yfirgang Rússa sem bjó að baki tilurð Evrópusambandsins eftir stríðslokin 1945. Nei, það var óttinn við nærtækari stríðsátök milli Vestur-Evrópulanda sem höfðu borizt á banaspjótum öldum saman, einkum Frakkar og Þjóðverjar á 19. og 20. öld. Þannig kviknaði hugmyndin um sameiginlega yfirstjórn náttúruauðlinda, einkum kola og stáls, til að girða fyrir að gömul átök um yfirráð yfir þessum auðlindum á mörkum Frakklands og Þýzkalands brytust út að nýju. Og þannig varð Kola- og stálbandalagið til 1951 með aðild ekki bara gömlu fjendanna Frakklands og Þýzkalands og fyrir sameiginlegt tilstilli þeirra, heldur einnig Ítalíu, Hollands, Belgíu og Lúxemborgar. Sex lönd: Snilld. Tilgangurinn var að tryggja samvinnu og sameiginleg yfirráð eftir settum reglum. Löndin sex ákváðu að deila þannig fullveldi sínu hvert með öðru líkt og brúðhjón gera á hverjum degi við altarið eða frammi fyrir dómara. Höfundur hugmyndarinnar var Jean Monnet, franskur koníaksbóndi og bankamaður, eldheitur hugsjónamaður sem skipti sér aldrei af stjórnmálum, en eignaðist smám saman marga nána vini og samherja meðal helztu valdamanna í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Hann lagði hugmyndina um sameiginleg yfirráð og sameiginlegt fullveldi upp í hendur Roberts Schuman, fyrst forsætis- og síðan utanríkisráðherra Frakklands fyrstu árin eftir stríð. Schuman kom málinu fram á vettvangi stjórnmálanna. Fremstu leiðtogar Frakklands og Þýzkalands, de Gaulle forseti og Adenhauer kanslari, létu sannfærast.
„Hallar þá að þessu leyti meira á lýðræði í Bandaríkjunum en í ESB?“
Svo vel tókst til að ákveðið var að stofna til hliðstæðrar samvinnu á æ fleiri sviðum. Þannig varð ESB smám saman að því víðfeðma friðar- og efnahagsbandalagi sem það er nú orðið með sínum 27 aðildarlöndum.
Bandalagsríki eða ríkjabandalag?
Þetta gerðist ekki átakalaust. Aðildarlöndin voru og eru ólík, hvert og eitt með sína eigin tungu, sögu og menningu. Monnet stefndi alla tíð að stofnun evrópsks bandalagsríkis að bandarískri fyrirmynd, að segja má, en honum varð ekki að þeirri ósk sinni. Heldur varð ESB ríkjabandalag þar sem hvert ríki hefur mun meiri sjálfstjórn en tíðkast í bandalagsríkjum eins og til dæmis í Bandaríkjunum. Fylki Bandaríkjanna þurfa með öðrum orðum að deila fullveldi sínu hvert með öðru í mun ríkari mæli en aðildarríki ESB þurfa að gera. Texas, sem var sjálfstætt ríki 1836-45, eru nú mun þrengri skorður settar innan Bandaríkjanna en til dæmis Hollandi innan ESB. Hallar þá að þessu leyti meira á lýðræði í Bandaríkjunum en í ESB? Færa má gild rök að þeirri ályktun. Það var einmitt óttinn við veikara lýðræði sem réð baggamuninn þegar niðurstaðan meðal aðildarríkja ESB varð ríkjabandalag frekar en bandalagsríki.
Aðildarríkjum ESB heldur enn áfram að fjölga, ekki bara af efnahagsástæðum heldur einnig í þeirri von og trú að sambandinu megi lánast að treysta friðinn í álfunni austanverðri. Þess vegna hafa Austur-Evrópuríkin sótzt svo fast eftir aðild að ESB, nú einnig Úkraína. Þau líta á ESB sem vænlega vörn gegn yfirgangi Rússa. Fari svo að Nató veikist, eins og sumir telja að geti gerzt, jafnvel strax á næsta ári, þá mun ESB þurfa að huga enn frekar að sameiginlegum vörnum Evrópuríkjanna á eigin spýtur. Friðarþátturinn í hugsuninni að baki ESB verður þá enn veigameiri en áður. Íslendingar og Norðmenn munu þá fá nýtt tilefni – eitt tilefnið enn! – til að endurskoða afstöðu sína til aðildar að ESB. Finnar og Svíar höfðu snör handtök þegar þeir ventu kvæði sínu í kross og gengu í Nató svo fljótt sem þeim var unnt eftir aðra innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.
Þó eru til þeir sem telja Ísland vera langt frá átakasvæðum og spyrja hvað kemur þetta okkur við, við ættum helst að láta lítið á okkur bera en gleyma jafnóðum að lega Íslands í Atlantshafi gerir okkur að hernaðarlegu skotmarki. Sá sem ræður yfir Íslandi ræður yfir Norður-Atlantshafi.
Þó hann Dolli litli virðist á sínum tíma ekki hafa hugsað út í það (nasistar virðist ekki hafa haft nein áform um að hertaka Ísland) er ekki visst að framtíðarárásarseggjum mun yfirsjást sú staðreynd, hver svo sem það kann að vera.