A
rion banki mun greiða sekt upp á 585 milljónir króna vegna annmarka í framkvæmd á áhættumati bankans vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Sátt hefur náðst við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands um greiðsluna.
Íslandsbanki gerði í júní sátt vegna sambærilegra annmarka og greiddi 570 milljónir króna. Bankinn hafði áður verið sektaður fyrir að hafa á svig við innri reglur bankans og heilbrigða viðskiptahætti við sölu á hlut í bankanum sjálfum. Greiddi hann 1,2 milljarða í þá sekt.
Fyrirtækið SaltPay, sem stundar greiðslumiðlun, fékk í árslok 2022 44 milljóna króna sekt, eftir harðar ákúrur frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans um „víðtæka veikleika“.
Fjármálaeftirlitið gerði könnun sumarið 2022 á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráningu og rekjanleika í upplýsingakerfum bankans í tengslum við þær aðgerðir. Komu fram annmarkar þegar kom að almennu áhættumati vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka og áhættumati samningssambanda og einstakra viðskipta. Einnig á framkvæmd áreiðanleikakannanna, reglubundins eftirlits og tilkynninga.
Arion lofar bótum
„Með sáttinni viðurkennir bankinn annmarka á framangreindri framkvæmd og þykir okkur miður að ekki hafi verið rétt staðið að málum á þessum tíma,“ segir í tilkynningu frá Arion banka.
Segist bankinn hafa unnið markvisst að því að efla fyrirkomulag varna gegn peningaþvætta. „Athugasemdum fjármálaeftirlitsins var strax tekið alvarlega og ráðist í allsherjar endurskoðun á framkvæmd þessara mála og er úrbótavinna langt á veg komin,“ segir í tilkynningunni.
Brotin mörg og alvarleg
Í tilkynningu frá fjármálaeftirlitinu segir hins vegar að brotin hafi verið mrög og varðað marga grundvallarþætti. „Brot málsaðila varða áhættumat bankans á starfsemi vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum, nafnlaus viðskipti, framkvæmd áreiðanleikakannana á erlendum fjármálafyrirtækjum, framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana, aðgerðir málsaðila í tengslum við viðskipti við áhættusamt ríki og reglubundið eftirlit með viðskiptum og viðskiptamönnum, þ.m.t. skráningu og rekjanleika reiðufjárviðskipta,“ segir í tilkynningunni frá fjármálaeftirlitinu.
„Þá teljast brotin alvarleg og nokkur brot eru ítrekuð frá fyrri athugun fjármálaeftirlitsins á fylgni bankans við lögin sem fór fram árið 2020,“ segir ennfremur. „Loks varða mörg brot viðskiptamenn og vörur sem teljast til mikillar áhættu með tilliti til peningaþvættis, s.s. reiðufjárviðskipti.“
Athugasemdir (3)