Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, hefur leitt skipulag fyrir framboð flokksins til Alþingis og hyggst bjóða sig fram til þings ef hún hlýtur stuðning flokksfélaga sinna til þess. Þingkosningar eru á dagskrá á næsta ári.
„Ég er að hlusta á félaga mína og mér heyrist þetta vera viljinn,“ sagði Sanna í þættinum Rauða borðið á Samstöðinni í gær.
„Þau sem eru til vinstri og eru það í alvörunni“
Aðspurð hvaða flokka hún sæi fyrir sér að Sósíalistar störfuðu með á þingi nefndi hún enga ákveðna flokka. „Þau sem eru til vinstri og eru það í alvörunni,“ sagði hún. „Þú ert með stefnu flokkanna og svo praxís, hvernig flokkarnir starfa, þannig að það er ekkert hægt að segja hvaða flokkur er hvernig.“
Fagna fleiri flokkum á þing
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sem einnig var gestur þáttarins, sagði að henni litist vel á að fá Sósíalista á þing. „Ég mundi náttúrulega alveg gleðjast mjög mikið að sjá hana Sönnu með okkur þarna inni og hún hefur fullt erindi þangað eins og Sósíalistar, það er ekki flóknara en það,“ sagði hún.
„Ég fagna því að fá fleiri flokka, ólíkt sumum valdaflokkum sem vilja takmarka lýðræði hvað þetta varðar,“ bætti Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, við. „Okkur vantar meiri fjölbreytni og stærri lýðræðislega rödd. Þau vilja breyta kosningakerfinu þannig að þau í rauninni gefa minni flokkum minni líkur á að komast á þing af því að þeim finnst svo rosalega erfitt að starfa á þingi með marga flokka. Það fer fyrir hagsmunarekstrinum þeirra.“
„Við þvælumst fyrir,“ bætti Inga við.
Varð yngsti borgarfulltrúinn
Sanna varð yngsti borgarfulltrúi í sögu Reykjavíkur þegar hún náði 26 ára gömul kjöri í borgarstjórn árið 2018. Hún situr í velferðarráði og borgarráði. Þá er hún með MA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands.
Sósíalistaflokkurinn fékk ekki nægilegt fylgi í Alþingiskosningum 2021 til þess að fá þingmann kjörinn. Flokkurinn mældist með 6 prósenta fylgi í nýjustu könnun Maskínu sem birt var í dag.
Athugasemdir (4)