Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands og Þroskaþjálfafélag Íslands biðla til íslenskra stjórnvalda að stöðva fyrirhugaða brottvísun hins ellefu ára gamla Yazans Aburajab Tamimis og fjölskyldu hans.
Kærunefnd útlendingamála hafnaði beiðni fjölskyldunnar um endurupptöku hælisumsóknar þeirra síðastliðinn föstudag og því vofir brottvísun til Spánar, hvar fjölskyldan er ekki með hæli, yfir í byrjun júlí. Þau komu hingað í leit að hæli í fyrra. Yazan, sem er frá Palestínu, er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne og hafa læknar vottað fyrir það að hann muni hljóta skaða af ef hann fær ekki viðeigandi læknismeðferð.
„Að senda fatlað barn með Duchenne vöðvarýrnunarsjúkdóm úr landi þar sem ekki er tryggð viðeigandi meðferð og heilbrigðisþjónusta er alvarlegt brot á mannréttindum þess,“ segir í yfirlýsingu fagfélaganna þriggja sem sem taka undir yfirlýsingu Landssamtakanna Þroskahjálpar þar sem skorað er á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína um að senda Yazan og fjölskyldu hans úr landi.
Fagfélögin segja það nauðsynlegt að skoða ítarlega stöðu Yazans og fjölskyldu hans og taka tillit til fötlunar drengsins og þeirrar staðreyndar að vegna sjúkdómsins þarf hann tryggar aðstæður og stöðuga og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. „Að senda Yazan úr landi og í algjöra óvissu er afar ómannúðlegt og brýtur í bága við þau réttindi og vernd sem fötluð börn eiga að njóta,“ segir í yfirlýsingunni þar sem er vísað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk og því beint til stjórnvalda að virða hvoru tveggja. „Ljóst er að það var ekki gert við þessa ákvörðun.“
Hópur fólks hefur mótmælt ákvörðun stjórnvalda að vísa Yazans og fjölskyldu hans úr landi, nú síðast á sunnudag þegar hópur fólks safnaðist saman á Austurvelli. Kristbjörg Arna Elínudóttir Þorvaldsdóttir, vinkona fjölskyldunnar, er ein af þeim sem stóð að mótmælunum. Hún segir mótmælin tækifæri til þess að sýna Yazan „að það er fólk sem vill hafa hann hérna, hann er ekki einn.“
Íris Björk Indriðadóttir er ein þeirra sem hefur vakið athygli á máli Yazans. Hún hefur starfað með fötluðu fólki undanfarinn áratug og fann sig knúna til að benda á ýmsar rangfærslur í athugasemdum á samfélagsmiðlum. „Viljum við sem samfélag vera ábyrg fyrir því að stytta líf barns sem er nú þegar verulega stytt?“ spyr Íris Björk.
Athugasemdir