Rúmlega hundrað tilfelli kíghósta hafa greinst á Íslandi það sem af er ári, sjö tilfelli hettusóttar og tvö tilfelli mislinga. Sjúkdómarnir hurfu hérlendis á meðan COVID-19 faraldurinn reið yfir en hafa nú snúið aftur.
Í Farsóttafréttum, fréttabréfi sóttvarnalæknis sem kom út í dag, er varað við því að dregið hafi úr þátttöku í bólusetningum gegn þessum sjúkdómum á undanförnum árum. „Þessir sjúkdómar voru skæðir vágestir á Íslandi áður en almennar bólusetningar gegn þeim hófust en ekki hefur tekist að útrýma þeim úr heiminum,“ segir í fréttabréfinu. „Þeir greinast því reglulega erlendis og hérlendis hafa komið hópsýkingar eða hrinur á nokkurra ára fresti. Þátttaka í bólusetningum gegn þessum sjúkdómum hefur dalað víða í heiminum, ástand sem versnaði á meðan faraldurinn geisaði, og þá eykst hættan á dreifingu sjúkdómanna.“
Ónóg þátttaka í MMR bólusetningu
Tveir fullorðnir einstaklingar hafa greinst með mislinga það sem af er ári, annar í febrúar og hinn í apríl. Báðir höfðu smitast erlendis, en þetta var fyrsta smitið hér á landi síðan níu greindust í hópsmiti árið 2019.
Mislingar er bráðsmitandi og skæður veirusjúkdómur sem smitast með úðasmiti frá öndunarvegi. Sjúkdómurinn var skæður á 19. öld og fram eftir 20. öld en mjög dró úr nýgengi hans eftir að skipulagðar bólusetningar tveggja ára barna hófust 1976.
„Á árinu 2023 náðu mislingar mikilli útbreiðslu í Evrópu eftir hlé á tímum COVID-19 faraldursins“
Þátttaka Íslendinga í seinni skammti MMR bólusetningar dalaði á árunum 2021 til 2023 og fór undir 90 prósent. MMR bóluefni beinist gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. „Ljóst er að með ónógri þátttöku í bólusetningum er hætta á að mislingar breiðist hér út berist smit til landsins,“ segir í fréttabréfinu. „Á árinu 2023 náðu mislingar mikilli útbreiðslu í Evrópu eftir hlé á tímum COVID-19 faraldursins. Stórir faraldrar brutust út, m.a. í Rússlandi, Tyrklandi, Rúmeníu og nágrannaríkjum og var tíðni hæst meðal ungra barna.“
Ný hrina kíghósta
Sömuleiðis greindist enginn með kíghósta á tímum COVID-19 heimsfaraldursins en hrinur koma gjarnan á þriggja til fimm ára fresti. Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking, sérstaklega hjá börnum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hins vegar greindust tveir fullorðnir einstaklingar með kíghósta í byrjun apríl og voru það fyrstu tilfellin síðan 2019. Síðan þá hafa rúmlega 100 manns á aldrinum 1 til 68 ára greinst hér á landi, 75 þeirra með PCR-prófi og 30 til viðbótar með klínískri greiningu.
Bólusetningar barnshafandi kvenna við kíghósta hófust hér á landi á árið 2019 til þess að vernda nýbura fyrir sjúkdómnum að erlendu fordæmi. „Bólusetning gegn kíghósta hófst á Íslandi árið 1927 og skiplagðar almennar bólusetningar árið 1959,“ segir í fréttabréfinu. „Eftir það dró umtalsvert úr fjölda tilfella og sjúkdómurinn nánast hvarf til ársins 2012 þegar kíghósti tók að greinast aftur í meira mæli hér á landi. Kíghósti er landlægur víða í heiminum og eftir litla dreifingu á meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð yfir hefur tilfellum í Evrópu fjölgað á ný.
Hettsótt með alvarlega fylgikvilla
Sjö einstaklingar á aldrinum 14 til 42 ára greindust hér á landi með hettusótt í febrúar og mars á þessu ári. Síðast greindist eitt stakt tilfelli árið 2020
„Hettusótt er smitandi veirusýking sem er yfirleitt hættulaus en getur valdið alvarlegum fylgikvillum“
Hettusótt var nánast horfin í lok 20. aldar eftir að MMR bólusetning hafði náð útbreiðslu. Nokkrar hópsýkingar komu upp á þessari öld en engin tilfelli greindust árin 2021 til 2023. „Hettusótt er smitandi veirusýking sem er yfirleitt hættulaus en getur valdið alvarlegum fylgikvillum, sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum, á borð við heilabólgu, heyrnarskerðingu, bólgu í brjóstum, briskirtli, eggjastokkum eða eistum. Bólgur í síðastnefndu líffærunum geta valdið ófrjósemi.“
Athugasemdir (4)