Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, er talin hafa undirbyggt óvæntan sigur sinn í forsetakosningunum um helgina með vel heppnaðri TikTok-herferð. Eitt myndbandanna, sem birt var um helgina, hefur verið gagnrýnt harðlega á grundvelli þess gildismats sem það birtir, en Halla kvaðst með forsetaframboði sínu vilja hafa jákvæð áhrif á gildismat þjóðarinnar.
Í einu myndbandanna, sem uppskar 50 þúsund áhorf, sjást tveir ungir jakkafataklæddir menn koma á kjörstað á bifreið að gerðinni Landrover Discovery sport, kasta lyklunum til ungrar konu og hrinda síðan annarri. Myndbandið er hvatning til ungs fólks um að kjósa undir yfirtextanum: „Framtíðin er okkar“.
Einn þeirra sem gagnrýnir myndbandið er Egill Helgason fjölmiðlamaður, sem um árabil stýrði umræðuþættinum Silfrinu. „Tik Tok myndbandið er óhugnanlegt og ótrúlegt að það hafi komið úr ranni frambjóðanda,“ segir hann í sérstakri Facebook-færslu um myndbandið.
Sagt ótrúlegt og verulega óþægilegt
Fyrr í dag fjallaði rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl um myndbandið og sigur Höllu. Undir færslu hans um efnið lýsa fleiri óhug yfir myndbandinu. Þeirra á meðal er Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sem hafði lýst stuðningi við Katrínu Jakobsdóttur fyrir forsetakosningarnar. „Tik-tokið er ótrúlegt!“ segir Össur og bætir við: „Verulega óþægilegt.“
Samflokksmaður Össurar, sem var þingmaður Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili, rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson, lýsir sömuleiðis undrun. „Ég get ekki hætt að hugsa um það hvernig hann hrindir konunni sem þeim mæta, bara si svona.“
„Ég get ekki hætt að hugsa um það hvernig hann hrindir konunni sem þeim mæta, bara si svona“
Aðrir hafa bent á að myndbandið sé í raun í þeim stíl sem tíðkast á TikTok. Almennt birtist ákveðinn léttleiki í þeim myndböndum sem Halla birti í aðdraganda kosninga. Sjálf hefur hún talað um að gleði og hugrekki hafi einkennt framboðið og það hafi skilað sér.
Náði unga fólkinu með sér
Samkvæmt könnun Maskínu sem birt var daginn eftir kjördag skar Halla sig úr í stuðningi ungs fólks. Halla mældist með 36,7% stuðning hjá fólki á aldrinum 18 til 29 ára, en Katrín Jakobsdóttir komst næst með aðeins 15,3% stuðning hjá sama aldurshópi.
Út frá tekjuhópum mældist Halla hins vegar með mestan stuðning meðal þeirra sem höfðu hæstar tekjur, en þar komst Katrín nærri.
Þegar horft var til stuðnings til stjórnmálaflokka naut Halla mests stuðnings þeirra sem eru hægra megin í stjórnmálum, stuðningsfólks Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og svo Framsóknarflokks.
Lýsti áhyggjum af neikvæðri orðræðu
Í kosningabaráttunni lýsti Halla áhyggjum af því að orðræðan í samfélaginu bendi til þess að fólki líði illa. „Ég hef sérstaklega áhyggjur að ef unga fólkinu okkar líður ekki vel þá held ég að engu okkar geti liðið vel,“ sagði hún meðal annars í viðtali við Heimildina.
Sem forseti geti hún haft jákvæð áhrif þar á. „Ég vil að andleg og samfélagsleg heilsa þjóðarinnar sé góð og ég vona að ég eigi eftir að geta lagt mitt af mörkum, með mörgum öðrum, á hönd á plóg svo að svo verði,“ sagði hún til að mynda í viðtali við Vísi í gær. Ungt fólk væri sérstaklega orðið þreytt á skautun í samfélaginu.
Sigraði með yfirburðum
Halla Tómasdóttir var kjörin forseti með yfirburðum um helgina, þrátt fyrir að Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði verið spáð sigri fram á síðustu stundu. Hún tekur formlega við embættinu af Guðna Th. Jóhannessyni í ágúst.
https://www.rikisend.is/skyrslur/nanar?id=287
Fróðlegt verður að sjá uppgjör Katrínar Jakobsdóttur 2024