Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi 2. maí íslenskum stjórnvöldum fyrirspurn vegna hinna umdeildu samkeppnisundanþága sem meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði fram og þingið samþykkti þann 21. mars síðastliðinn. Í byrjun maí og gaf ESA matvælaráðuneytinu mánuð til að svara fyrir hönd stjórnvalda.
Um var að ræða grundvallarbreytingu á frumvarpi, sem upphaflega var ætlað að bregðast við bágri stöðu íslenskra bænda, einkum þeirra sem stunda sauðfjárrækt.
Með því að heimila afurðarstöðvum bænda ákveðið samráð mætti ná fram hagræðingu sem skilað gæti bændum hærra verði fyrir framleiðslu sína auk þess að lækka verð til neytenda.
Það markmið var þó látið lönd og leið í endanlegri útgáfu frumvarpsins, sem Alþingi svo samþykkti. Það var altént mat samkeppnisyfirvalda, fulltrúa verslunarinnar, neytenda og launþegasamtaka, sem töldu frumvarpið þvert á móti aðför að neytendum ekki síður en að bændum.
Undir þessa gagnrýni tóku bæði fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands og yfirlögfræðingur samtakanna, sem lýstu því hvernig meirihluti þingnefndarinnar hefði á síðustu stundu ákveðið að þjóna fyrst og síðast hagsmunum stórfyrirtækja í landbúnaði. Þar helst Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) og Sláturfélagi Suðurlands (SS) sem ásamt fleiri svokölluðum afurðarstöðvum mynduðu Samtök Fyrirtækja í Landbúnaði (SAFL).
Það að umrædd samtök hafi á endanum fengið sínu fram, þegar formaður atvinnuveganefndar Alþingis lagði til umfangsmiklar breytingar á því, var ekki úr lausu lofti gripið. Sjálfur viðurkenndi Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður og formaður nefndarinnar, að við breytingu frumvarpsins hafi hann fyrst og síðast sótt ráðgjöf og aðstoð, lögfræðings SAFL, sem einnig hefur verið lögmaður KS.
Nýr formaður hafði tekið við BÍ innan við mánuði áður en frumvarpið varð að lögum. Ólíkt forvera sínum taldi hann frumvarpið mikla framför og hafði ekki áhyggjur af því sem starfsmenn BÍ höfðu varað við að gæti gerst ef ekki yrði betur gætt að hag bænda í lagasetningunni. Nýi formaðurinn kvaðst treysta fyrirtækjunum til að nýta heimildir sínar þannig að ávinningurinn skilaði sér beint til bænda, en viðurkenndi þó að fyrir því væri lítil sem engin trygging.
Sú einkennilega staða kom upp hálfum mánuði eftir samþykkt frumvarpsins, að matvælaráðuneytið sendi erindi til atvinnuveganefndar þar sem vinnubrögð nefndarinnar voru harðlega gagnrýnd. Verið væri að færa fyrirtækjum opnar heimildir til samráðs og samvinnu, sem ekki einungis væru lögbrot í öðrum greinum, heldur væri allt útlit fyrir að undanþágurnar væru hvort tveggja, langt umfram starfsemi fyrirtækja í landbúnaði og þvert á EES-samninginn.
Bréf matvælaráðuneytisins kom degi áður en skipt var um ráðherra í því ráðuneyti. Við tók Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem hafði fram til þess tíma setið á þingi og verið nefndarmaður í þeirri nefnd sem ráðuneyti hennar hafði með fordæmalausum hætti gagnrýnt degi fyrr.
Það næsta sem fréttist af bréfi sérfræðinga ráðuneytisins var að nýr ráðherra lýsti því yfir að ekki yrði brugðist við þeirri gagnrýni sem þar var færð fram. Það gerði ráðherrann í þingræðu þann 17. apríl síðastliðinn.
Bréf ráðuneytisins hafði þó vakið athygli annars staðar, eða hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem sér til þess að aðilarlönd að evrópska efnahagssamningnum standi við skuldbindingar sínar, sem fylgja réttindum þeim að fá aðgengi að markaði annarra aðildarríkja.
Í bréfi ESA til íslenskra stjórnvalda sem sent var 2. maí síðastliðinn er forsaga málsins rakin og síðan vikið að áhyggjum af því að hinar víðtæku undanþáguheimildir sem stórfyrirtæki í landbúnaði hefðu fengið af hendi Alþingis. ESA bendir á að vissulega séu hefðibundnar landbúnaðarafurðir, kjöt og mjólk til að mynda, undanþegnar skuldbindingum Íslands um bann við samráði og samkeppnislögum sem annars gilda. Þetta sé gert vegna sérstöðu þessara matvælavara.
Á hinn bóginn bendir ESA á að ein megin gagnrýnin á nýju lögin hér á landi sé að þau nái mögulega yfir miklu meira en bara landbúnaðarafurðir.
Heimildin sem hafi verið sett inn í lögin á lokametrunum af þingnefndinni, með aðstoð hagsmunaaðilans SAFL, hafi verið svo opin að þau eigi við um alls ótengd viðskipti en bara með kjötslátrun og -vinnslu. Innflutningur heildsala og smásala á aðföngum til landbúnaðarframleiðslu, áburði, fóðri og fleiru geti líka fallið undir lögin, sem sé ekki í samræmi við það sem Ísland hafi skuldbundið sig til.
Þessu til viðbótar bendir ESA á í bréfi sínu að nú geti jafnvel fyrirtæki í allt öðrum greinum en landbúnaði komið sér undan því að hlíta samkeppnislögum, sem varða háum fjársektum og jafnvel fangelsisrefsingum í öðrum atvinnugreinum. Þetta segir ESA að komi glögglega fram í athugasemdum matvælaráðuneytisins til Alþingis, rétt eins og áhyggjur af því að alls óvíst sé hvort og þá hver eigi að hafa eftirlit með því að fyrirtækin sem njóti undanþáganna, fari með það víðtæka vald sem þeim sé fært með lögunum.
ESA óskaði skýringa við þessu í bréfi sínu þann 2. maí síðastliðnum og gaf matvælaráðuneytinu íslenska til 30. júní að svara. Því hyggst ráðuneytið hins vegar ekki ætla að hlýða, þar sem það hefur farið fram á mánaðarfrest til viðbótar til að svara erindinu.
Matvælaráðuneytið hefur því það hlutverk að svara ESA og gefa fullnægjandi skýringar á lögmæti lagasetningar og ákvarðana Alþingis og íslenskra stjórnvalda í máli sem ráðuneytið sjálft hefur gert alvarlegar athugasemdir við, bæði hvað varðar form og efni.
Athugasemdir (1)