Síaukinn áhugi stórfyrirtækja og stjórnvalda víða um heim á námurekstri á hafsbotni er tekinn að hafa veruleg áhrif á efnistöku við strendur. Algengt er að afla þannig sands og malar (sbr. malarnám í Faxaflóa). Nú eykst sú ásókn býsna hratt, en einnig leit og vinnsla annarra jarðefna, aðallega málmsambanda. Kalþörungarnám á Vestfjörðum er annað innlent dæmi. Rannsóknir á áhrifunum námuvinnslu á botndýr, fiska, svif, fugla og spendýr fara fram en hvergi nærri í innra samhengi við umfangið, fjölþætt markmið fyrirtækja og óvissu um umhverfisáhrif á vistkerfi til lengri tíma litið. Greint er frá dæmi í nýrri skýrslu Hafró (Fisksamfélög við Landeyjar – skýrsla vegna fyrirhugaðrar efnistöku af sjávarbotni. HV 2024-02). Niðurstaða hollenskar rannsóknar þar er m.a. á þá lund að það taki botnvistkerfi 4-6 ár að komast í fyrra horf eftir efnistöku.
Norsk stjórnvöld og fyrirtæki ganga fast fram að venju, og fyrirhyggjulítið, þegar auðlindir á sjávarbotni eru annars vegar sbr. gas- og olíuvinnslu þeirra. Nú hafa stjórnvöldin tekið frá þrjú svæði við landið, samtals þrisvar sinnum flatarmál Bretlands til að vinna verðmæt jarðefni. Hér við land jókst árleg sand- og malartaka úr 125.000 (2007) í 1.150.000 rúmmetra (2018), og bæst hefur við eftir það. Nú er það Heidelberg Minerals (sama fyrirtæki og hyggst vinna móberg úr Litla-Sandfelli við Þrengslaveg) sem hefur áhuga á að vinna botnefni úr 119 ferkm svæði austan og vestan Landeyjahafnar. Um ræðir botnlög frá 115 metrum utan við stórstraumsfjörumörk, alllangt út á grunnsævið, niður á allt að 40 m dýpi. Fyrirtækið hyggst nema 70-75 milljón rúmmetra af lausefni á 30 árum. Aðferðin er dæling sem skilur eftir sig djúpar dældir og má gera ráð fyrir að jafnt gróður sem dýr sogist upp með lausa hráefninu (til byggingariðnaðar ) og þarf þá að hreinsa lífræna efnið frá.
Skýrsla Hafró byggir á sýnatöku á umræddu svæði í ágúst 2023, á gögnum úr grunnslóðaralli 2017-2022, vorralli 1985-2023, netaröllum frá 1996 og afladagbókum.
Markmiðið var að afla gagna um útbreiðslu fisktegunda og greina botnlæg dýr. Svæðið nemur 5% af þekktu hrygningarsvæði þorsks er nefnist Fjaran og nær frá Grindavík til Dyrhólaeyjar. Svæðið er líka mikilvægt fyrir hrygningu eða uppeldi annarra tegunda, t.d. loðnu og ýsu, tindaskötu, flatfisktegunda og t.d. skötusels. Skýrslan ítrekar mikilvæg þessa hluta Fjörunnar og niðurlag samantektar er svona: “Fyrirhugað efnistökusvæði einkennist af sendnum botni fyrir opnu hafi sem er á stöðugri hreyfingu. Sterkir straumar, öldurót og íslenskt veðurfar veldur því að holur eftir dælingu eru líklega fljótar að fyllast. Því er erfitt að segja til um hvort eða hversu miklar afleiðingar efnistaka hafi á fisksamfélög”
Langvinnt rask af þessu tagi í lífríkinu er ekki tilraun heldur alvarleg auðlindanýting sem kann að vera ósjálfbær. Skilyrði á landi eru um margt gjörólík lífsskilyrðum í sjó. Vistkerfi hafanna, einkum villtra, ætra tegunda, eru fyrir löngu komin að þolmörkum enda geta fiskveiðar á heimsvísu ekki gefið meira af sér að óbreyttu. Námuvinnsla á hafsbotni á að vera undantekning frá reglu og stunduð í sem minnstum mæli. Hringrásarhagkerfi og minni og breytt neysla mannkyns eru verkefni framtíðar. Botngrams er mannkyni ekki í hag, fari það úr böndum eins og horfur eru á.
Athugasemdir