Matvælaráðuneyti Bjarkeyjar Gunnarsdóttur hélt upplýsingafund um umdeilt frumvarp um lagareldi á Hilton-hótelinu á Suðurlandsbraut í morgun þar sem farið var yfir efni frumvarpsins. Sjaldgæft er að slíkir upplýsingafundir séu haldnir um lagafrumvörp sem búið er að leggja fram og mæla fyrir á Alþingi.
„Þær fyrirætlanir að hafa leyfin ótímabundin hafa mætt andstöðu fjölmargra aðila og ég hef skilning á því og hef talið nauðsynlegt að bregðast við.
Umræður um frumvarpið í samfélaginu leiddu til þess að ráðuneytið tók U-beygju um það atriði þess sem hefur verið umdeildast: Að gera rekstrarleyfin í laxeldinu ótímabundin. Í stað þess að hafa rekstrarleyfin í laxeldinu ótímabundin hefur matvælaráðuneytið sent breytingartillögur til atvinnuveganefndar um að rekstrarleyfin eigi að vera tímabundin.
Telur innihald frumvarpsins hafa fallið í skuggann
Í ávarpi sínu á upplýsingafundinum kom Bjarkey Gunnarsdóttir inn á þetta atriði sérstaklega og er ljóst af því sem ráðherrann segir að stór hluti ástæðunnar fyrir því að fundurinn var haldinn er umræðan um þetta atriði frumvarpsins um ótímabundnu leyfin.
Hún sagði: „Að lokum vil ég segja að þetta er metnaðarfullt frumvarp sem að snýst fyrst og fremst um að gera umhverfis- og náttúruvernd hærra undir höfði þegar kemur að hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og þeim ytri áhrifum sem af því hljótast. Málið hefur sannarlega fengið mikla umfjöllun og féllu þau atriði sem ég hef rakið [...] í skuggann af því. Við gerð frumvarpsins var talið að best mætti ná þessum markmiðum með því að gera rekstrarleyfin ótímabundin og hafa afturköllunar- og skerðingarheimildir frumvarpsins mun ríkari enda kom fram í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar að leyfin í núgildandi kerfi væru í raun ótímabundin þar sem Matvælastofnun skorti heimildir til að synja endurnýjun. Þær fyrirætlanir að hafa leyfin ótímabundin hafa mætt andstöðu fjölmargra aðila og ég hef skilning á því og hef talið nauðsynlegt að bregðast við. Atvinnuveganefnd er nú með málið til umfjöllunar og tillögur þar að lútandi.“
Greinin fór óbreytt í gegnum þrjá ráðherra VG
Út frá þessum orðum Bjarkeyjar er líklegt að fundurinn sé viðbragð við umræðunni um um greinina um ótímabundnu leyfin sem leiddi meðal annars til harkalegra orðaskipta á Alþingi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði meðal annars um það og og greinina um ótímabundnu leyfin. „Það er eins og engin viðvörunarljós hafi kviknað við þessa yfirferð. Þetta er massíf slysaslepping á vondu frumvarpi sem hefur átt sér stað í gegnum þessa flokka [...] „Við gefum heldur ekki auðlindir í eigu þjóðar, punktur.“
Eitt af því sem er sérstaklega áhugavert við þessa grein lagafrumvarpsins er að hún fór óbreytt í gegnum þrjá matvælaráðherra Vinstri grænna við vinnslu frumvarpsins. Fyrst Svandísi Svavarsdóttur, svo Katrínu Jakobsdóttur sem tók við af Svandísi þegar hún fór í veikindaleyfi og loks Bjarkeyju Gunnarsdóttir. Það var ekki fyrr en sagt var frá greininni í Heimildinni og í kjölfar umræðna á Alþingi að matvælaráðuneytið dró í land og vildi tímabinda leyfin.
Rétt eins og Bjarkey hefur Svandís nú dregið í land og sagst vera fylgjandi því að tímabinda rekstrarleyfin. Á Alþingi sagði hún: „Mikilvægt sé að ... „ráðast í breytingar á því ákvæði með það fyrir augum að tímabinda heimildirnar en um leið að gæta sérstaklega að því að það verði ekki á kostnað náttúruverndar og umhverfishagsmuna.“
Afstaða Katrínar til málsins liggur ekki fyrir þar sem hún fæst ekki til að tjá sig um það efnislega.
Athugasemdir (2)