Hlaup og önnur þolþjálfun hafa margvísleg áhrif á líkamann, ekki bara á hjarta- og æðakerfið, eins og oft er talað um heldur líka á aðra líkamsstarfsemi. Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir segir að ef fyrst er horft á afkastagetu hjarta- og æðakerfis þá aukist hún. Oft taki það dálítinn tíma að vinna upp þolið en þá sé þolinmæði lykilatriði. Hjartað aðlagast álaginu smám saman og verður ekki takmarkandi þáttur við áreynslu.
Hjartað dælir meiru
„Við þjálfun eykur maður hæfileikann til þess að mæta þessu þannig að maður geti þjálfað hjartað upp í að dæla meiru í hverju hjartaslagi en áhrifin á púlsinn eru svolítið önnur. Þjálfun hefur lítlil sem engin áhrif á hámarkspúls einstaklingsins. Hann er kannski fremur háður erfðum og aldri. Hins vegar lækkar hvíldarpúlsinn almennt og getur jafnvel farið mjög langt niður. Lækkaður hvíldarpúls skýrist að hluta til af því að hjartað stækkar og dælir meiru í hverju hjartaslagi …
Athugasemdir