Þann 17. september 1944 hófst hernaðaraðgerðin Market Garden á vesturvígstöðvunum. Rúmum þrem mánuðum eftir innrásina í Normandy höfðu herir Bandaríkjamanna, Breta og annarra Bandamanna í vestri hrakið Þjóðverja frá mestum hluta Frakklands og voru einnig búnir að ná stærstum hluta Belgíu. Næsta skref Bandamanna átti að vera að ná lykilborgum í Hollandi og sérstaklega að tryggja herliði sínu mjög mikilvægar brýr yfir Rínarfljót. Ef brýrnar næðust væru Bandamenn þess albúnir að halda sókn sinni áfram af fullum krafti og sækja beint inn í hjarta Þýskalands þá um haustið. Þeir bjartsýnustu gerðu sér vonir um að Bandamenn gætu náð til Berlínar fyrir jólin 1944 en þá hlytu Þjóðverjar að gefast upp og hinu grimmdarlega stríði lyki.
Tugþúsundir fallhlífarhermanna stukku því úr flugvélum yfir mikilvægum stöðum í Hollandi og áttu að halda brúnum í fáeina daga eða uns skriðdrekasveitir kæmu á vettvang.
Skemmst er frá því að segja að Market Garden misheppnaðist illilega. Þjóðverjar virtust vel undirbúnir og vörðust af mikilli hörku. Mannfall var mikið í liði Bandamanna og fjöldi fallhlífarhermanna varð að gefast upp þegar sókn skriðdrekasveitanna var stöðvuð.
Ekki nóg með að þessi tiltekna aðgerð misheppnaðist, heldur hafði svo miklu verið kostað til hennar að þrek Bandamanna var nú þorrið um skeið. Þeir urðu að stöðva sókn sína að þýsku landamærunum til að safna liði á nýjan leik. Þjóðverjar fengu tíma til að skipuleggja gagnsókn í desember sem fór að vísu út um þúfur en tafði þó enn sókn hinna vestrænu Bandamanna í átt til Berlínar.
Afleiðing þess var sú að þegar sovéski Rauði herinn fór aftur af stað í janúar 1945, eftir að hafa kastað mæðinni í nokkra mánuði, þá var það hann sem náði fyrstur til Berlínar og Sovétríkin réðu svo ríkjum í áratugi á eftir bæði yfir Póllandi, austurhluta Þýskalands og fleiri löndum Mið-Evrópu.
Ef Market Garden hefði hins vegar lukkast má ætla að stór svæði í Mið-Evrópu, þar á meðal mestallt Þýskaland og ef til vill vesturhluti Póllands, hefðu ekki einungis sloppið við stríðsátök veturinn 1944-45 heldur hefði næstu áratugir ekki endilega verið undir hinni þrúgandi ráðstjórn.
En hvers vegna tókst Þjóðverjum að bregðast svo skjótt og hart við þegar Market Garden hófst. Það hefur ýmsum þótt með mestu ólíkindum, enda var aðgerðin óneitanlega mjög djörf og í henni ýmsir óvæntir þættir sem ekki átti að vera auðvelt að bregðast við.
Sögusagnir hafa lengi verið á kreiki um að einhverjir úr herbúðum Bandamanna hafi upplýst Þjóðverja um áætlunina og þar með kannski framið afdrifaríkustu svik hernaðarsögunnar.
Þar hefur helst verið nefndur til sögunnar Christiaan nokkur Lindemans en hann var Hollendingur, meðlimur í andspyrnuhreyfingunni gegn Þjóðverjum og með mikil tengsl við bresku leyniþjónustuna.
Lindemans, sem var rakið illmenni og gekk ýmist undir nafninu King Kong eða Morðinginn, hafði ákveðnar upplýsingar um Market Garden, enda höfðu Bandamenn samvinnu við hollenska andspyrnumenn við undirbúninginn. Talið er býsna sennilegt að hann hafi komið að minnsta kosti einhverjum upplýsingum um Market Garden til Þjóðverja.
Eftir að grunur vaknaði um það áttu menn vissulega erfitt með að átta sig á því hvers vegna hann hafi skyndilega ákveðið að ganga í þjónustu Hitlers. Lindmans var handtekinn af Bretum og dó 1946 í fangelsi. Hann var sagður hafa framið sjálfsmorð. Seinna kom svo í ljós að hann hafði allan stríðstímann einnig verið í þjónustu Sovétríkjanna og var því í raun þrefaldur í roðinu.
Nú er komin ný bók sem fjallar um þetta mál, höfundurinn er Robert Verkaik og bókin hans heitir The Traitor of Arnhem, Svikarinn í Arnhem. Og óhætt er að segja að hann varpar nýju ljósi á málið.
Hann heldur því sem sé fram að auk upplýsinga sem Þjóðverjar hafi fengið frá Lindemans hafi annar njósnari einnig sent þeim upplýsingar um Market Garden, og það að líkindum mun návæmari og betri upplýsingar.
Það er að segja njósnari sem gekk undir nafninu Josephine og naut svo mikils trausts Þjóðverja að skýrslur frá henni lentu ævinlega á borði Hitlers sjálfs.
Svo gerðist og í þetta sinn og Verkaik heldur því fram að upplýsingar frá Josephine hafi verið svo nákvæmar að þær hafi orðið til þess að Þjóðverjum tókst að hrinda Market Garden-árásinni.
Og Verkaik telur sig vita hver Josephine hafi verið.
Það hafi verið enginn annar en Anthony Blunt starfsmaður bresku leyniþjónustunnar.
Og fjarskyldur ættingi konungsfjölskyldunnar.
Löngu eftir stríðið komust Bretar að því að Blunt, sem þá var orðinn sérfræðingur konungsfjölskyldunnar í myndlist og málverkum, var í rauninni, eða hafði verið á snærum Sovétmanna í stríðinu. Hann var einn fimm ungra og efnilegra menntamanna í Cambridge á fjórða áratugnum sem allir létu fallerast af kommúnismanum og urðu sovéskir njósnarar.
Nöfn þriggja þessarara manna eru heimsfræg: Kim Philby, Guy Burgess og Donald Maclean.
Eftir að upp hafði komist um þá bárust böndin einnig að Blunt og hann játaði árið 1964 að hafa verið í þjónustu Sovétríkjanna. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum var honum engin refsing gerð og hann fékk að halda áfram starfi sínu við hirðina. Ekki varð uppskátt um hlut hans fyrr en hálfum öðrum áratug síðar.
Engan grunaði hins vegar að Blunt hafi hugsanlega líka verið Josephine í þjónustu Þjóðverja. Fyrr en nú að Verkaik fullyrðir það.
Og ástæðan fyrir því að Josephine/Blunt hafi sent Hitler upplýsingar um Market Garden eru þá einmitt þær sem fjallað er um í upphafi þessarar greinar. Með því að koma í veg fyrir að Bandamenn í vestri næðu að ráðast inn í hjarta Þýskalands og stefna til Berlínar strax haustið 1944, þá hafi njósnarinn gert Stalín að ná stórum hluta Mið-Evrópu ... og Berlín í lok apríl 1945.
En framlengt stríðið um hálft ár og sjálfsagt kostað hundruð þúsunda mannslífa.
Auk alls annars sem hernám Rauða hersins hafði í för með sér.
Þénusta Blunt við Stalín var samkvæmt þessu ansi dýr.
Hafa ber í huga að Verkaik er að gefa út bók sem hann langar að selja í stóru upplagi. Hann vill auðvitað gjarnan gefa til kynna að þar komi margt óvænt fram.
En þeir sem hafa skrifað um bókina til þessa virðast sammála um að málatilbúnaður hans sé einkar sannfærandi.
Athugasemdir