„Forseti hefur þetta tækifæri til að horfa á stóru myndina og beita áhrifum sínum. Forsetinn er ekki að leggja fram frumvörp eða gera og græja eða taka ákvarðanir eða ákveða fjárveitingar. En forsetinn hefur það tækifæri að tala fyrir ákveðnum gildum, bæði hér heima og að heiman. Gildum sem ég hef áhyggjur af.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir í Pressu í dag þegar Helgi Seljan spurði hana hvers vegna hún þyrfti að fara á Bessastaði til að setja ýmis málefni á oddinn hafandi verið forsætisráðherra.
Katrín fór ekki að telja upp þau atriði sem hún hefur gert sem forsætisráðherra. „Það er auðvitað svo að stjórnmál eru bara allt annar hlutur en forsetaembættið,“ sagði Katrín.
Tjaldbúðirnar á Austurvelli
Helgi spurði Katrínu út í ummæli Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, um tjaldbúðirnar svokölluðu á Austurvelli fyrr á árinu. „Tókstu nægilega fast á því?“ spurði Helgi.
„Ég ætla bara að tala fyrir mín ummæli en ekki ummæli annarra,“ svaraði Katrín sem er sama svar og hún hefur áður gefið við fjölmiðla spurð um þetta málefni. Hélt hún sig við það svar þegar Helgi þrýsti á hana að svara.
Um útlendingamál sagði Katrín að henni hafi alltaf þótt málaflokkurinn kalla á það að vandað sé til verka. „Það er annars vegar krafa um það að við séum með lög og regluverk sem sé skýrt og gegnsætt og hins vegar að við tökum tillit til hvers og eins einstaklings. Þetta er málaflokkur sem er vandmeðfarinn.“
„Forsætisráðherrann Katrín er náttúrulega bara manneskjan Katrín og forsetinn er væntanlega bara manneskja,“ sagði Katrín. Spurð hvort hún hefði brugðist öðruvísi við ummælum Bjarna sem forseti svaraði hún ekki.
Athugasemdir