Velferðarvísitala Sameinuðu þjóðanna, sem við gætum einnig kallað mannþroskavísitölu (e. Human Development Index, HDI), er góðra gjalda verð svo langt sem hún nær. Þessi vísitala einblínir ekki á kaupmátt þjóðartekna á mann sem algildan mælikvarða á velferð og þá um leið lífskjör almennings, heldur tekur hún einnig mið af lýðheilsu og menntunarstigi. Þetta er framför frá fyrri tíð þegar alþjóðastofnanir, þar með taldar Sameinuðu þjóðirnar, einblíndu á þjóðartekjur á mann svo sem tíðkaðist þá í bransanum, en það má nú heita liðin tíð.
Velferðarvísitala SÞ er reiknuð sem meðaltal þriggja vísitalna, einnar fyrir kaupmátt þjóðartekna á mann, annarrar fyrir ævilengd og hinnar þriðju fyrir lengd skólagöngu sem mælikvarða á menntun mannaflans. Í nýrri skýrslu SÞ er Íslandi reiknuð þriðja hæsta velferðarvísitala heims fyrir 2022 á eftir bara Sviss og Noregi í tveim efstu sætunum í 193ja landa hópi.
Þessi niðurstaða kemur á óvart þar eð skýrslan sýnir að Ísland skipar 17. sæti listans yfir kaupmátt þjóðartekna á mann og 16. sæti listans yfir ævilengd. Af því leiðir að menntavísitalan, þar sem Ísland skipar 4. til 5. sæti listans (meira um það að neðan), fleytir Íslandi upp í 3. sæti velferðarlistans. Hvað er í gangi?
Um þetta er þrennt að segja.
-
Það kemur óneitanlega spánskt fyrir sjónir að meðaltal 17. sætis á tekjulistanum, 16. sætis á lýðheilsulistanum og 4. til 5. sætis á menntalistanum skuli skila 3. sæti á velferðarlistanum í ljósi þess að velferðarvísitalan er reiknuð sem meðaltal hinna þriggja. En þetta á sér samt eðlilega skýringu vegna þeirrar reikniaðferðar sem notuð er og á fullan rétt á sér þótt ótrúlegt megi virðast.
-
Hitt skiptir meira máli að menntavísitalan sem ríður baggamuninn fyrir stöðu Íslands í samanburðinum milli landa stendur á mun veikari grunni en hinar tvær. Það stafar af því að menntun er þarna metin með lengd skólagöngu, þ.e. fjölda ára á skólabekk, án tillits til árangurs af skólastarfinu. Þetta er kallað að meta afurðir með aðföngum, sem er aldrei góð latína. Magn tryggir ekki gæði. Margar heimildir benda til veikrar stöðu menntamála á Íslandi, þar á meðal hríðversnandi frammistaða íslenzkra nemenda í PISA-prófum OECD síðustu ár þar sem Ísland er nú sokkið langt undir meðallag OECD-landa og einnig meint neyðarástand vegna ólæsis meðal grunnskólanema, einkum drengja, að dómi margra kennara.
-
Við bætist að tekjur, lýðheilsa og menntun segja ekki alla söguna um velferð og lífskjör, heldur þarf, ef vel á að vera, að bæta fleiri þáttum í púkkið svo sem gert hefur verið smám saman undangengin ár. Þegar ójöfnuður eins og hann mælist án nauðsynlegra upplýsinga úr launsátri skattaskjólanna er tekinn með í reikninginn, hafnar Ísland í efsta sæti velferðarlistans. Þegar jafnrétti kynjanna er haft með hafnar Ísland í 9. sæti listans. Og þegar umgengni við náttúruna er talin með hafnar Ísland í 17. sæti. Eftir stendur að í velferðarvísitölu SÞ vantar enn að tekið sé tillit til lýðræðis, laga og réttar og spillingar. Vonir standa til að ráðin verði bót á því með tímanum.
Höfundar velferðarvísitölu SÞ þurfa að færa út kvíarnar enn frekar annars vegar með því að endurmeta menntunarþáttinn með árangri skólastarfsins frekar en með árafjölda á skólabekk og hins vegar með því að taka enn fleiri stærðir með í reikninginn svo sem lýðræði, lög og rétt og varnir gegn spillingu. Þessar þrjár stæðir vantar einnig í félagsframfaravísitöluna (e. Social Progress Indicator) þar sem Ísland skipaði 4. sæti listans 2023 á eftir Danmörku, Noregi og Finnlandi í hópi 170 landa.
Með enn víðfeðmari vísitölum fáum við fyllri mynd af því hvar við stöndum.
Athugasemdir