K
atrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti á föstudag að hún ætlaði að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hún yrði við það fyrsti sitjandi forsætisráðherrann í Íslandssögunni til að gera slíkt.
Í viðtali við Heimildina segir Jón Gnarr, sem er líka í framboði, að mögulegt framboð Katrínar sé sögulegt, og mjög athyglisvert. „Ég gæti talið margt gegn því og mér finnst svolítið umhugsunarvert að manneskja í ráðandi pólitískri stöðu blandi sér í svona baráttu með það forskot sem hún hefur umfram aðra. Ég veit ekki betur en að forsætisráðherra sé í stanslausum ferðum um landið sem forsætisráðherra sem margt af þessu fólki er að reyna að safna pening til að geta gert. En hún hefur verið á vegum ríkissjóðs að gera það. Ég held að það mætti alveg skoða að telja það sem ákveðna kosningabaráttu sem væri þá ekki alveg ærleg. Það væri þá falin kosningabarátta. En svo þarf það ekkert að vera þannig.
Mér finnst þetta umhugsunarvert út frá siðferðilegu og lýðræðislegu sjónarmiði. Ég á ekki von á öðru en að Katrín muni fá harða gagnrýni einmitt fyrir þetta. Ég held að það gæti orðið svolítið þungur róður. Það þarf þó ekkert að vera algjörlega rangt að sitjandi forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta. Það getur alveg verið að það sé algjörlega brilljant. Mér finnst að minnsta kosti spennandi að vera hluti af þeim kosningum sem það gerist.“
Með hlutverk við ríkisstjórnarmyndun
Það eru ýmis pólitísk úrlausnarefni sem lenda á borði forseta. Hann heldur til að mynda utan um veitingu stjórnarmyndunarumboðs og hefur hlutverki að gegna í stjórnarmyndun, þótt deilt sé um hversu raunverulegt það hlutverk sé.
Næstu þingkosningar verða í síðasta lagi haustið 2025, og mögulega fyrr. Það mun því fljótt reyna á nýjan forseta í þessu hlutverki. Sitjandi forseti fékk bæði kosningar og margra mánaða stjórnarkreppu í fangið á fyrsta hálfa árinu eftir að hann tók við embætti þar sem stjórnarmyndunarumboðið gekk á milli leiðtoga eins og kefli í boðhlaupi með of mörgum keppendum. Fyrir liggur, samkvæmt könnunum, að níu stjórnmálaflokkar gætu átt ágætis möguleika á því að ná inn fulltrúa á þing og miklar tilfærslur hafa orðið á fylgi flokka frá síðustu kosningum. Allt þetta gæti leitt til flókinnar stöðu sem forseti þyrfti að koma að.
Að mati Jóns er það stór hluti af sameiningarhlutverki forsetans að leggja sitt af mörkum við myndum ríkisstjórnar. „Að hjálpa til og leggja eitthvað til málanna um að mynda stjórn yfir landinu. Ég myndi taka það mjög alvarlega og leggja mjög hart af mér við að reyna að miðla málum ef þess þarf með.“
Athugasemdir (3)