Í alþingiskosningunum 2021 voru um 250.000 manns á kjörskrá. Þetta þýðir, að það eru 250.000 fullorðnir í þessu landi. Skv. fyrirliggjandi gögnum, virðast 80-100.000 þessa fólks vera skuldlausir. M.ö.o. eru skuldarar landsins um 150.000.
Á hverjum bitna yfirkeyrðir vextir?
Þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti, og viðskiptabankarnir hækka vexti á lánum til almennings, bitnar það því af fullum þunga, og með alvarlegum afleiðingum, á um 150.000 manns – líf, afkoma og velferð þessa fólks er sett í algjört uppnám – á sama tíma og um 100.000 manns sleppa. Standa uppi fríir og frjálsir, með alla sína fjármuni ósnerta; í friðhelgi.
Á svipaðan hátt leyfist um 250 fyrirtækjum landsmanna, mikið þeim helztu og stærstu, að byggja sinn rekstur á Evrum. Þessi fyrirtæki eru væntanlega með sína skuldsetningu í Evrum. Það þýðir, að vaxtasviptingar Seðlabanka fara fram hjá þessum fyrirtækjum öllum. Þau standa frí og frjáls frá öllu þessu vaxtagjörræði, ósnert. Nýlega kom í ljós, að umfang reksturs þessara 250 fyrirtækja nemur 42% af heildarrekstri í landinu.
Hinn 58% verða, hins vegar, nauðug viljug, að byggja sinn rekstur á íslenzku krónunni. Vaxtastormar Seðlabanka bitna því á þeim með fullum þunga. Nú er það auðvitað svo, að þessi 58% eru mest minni og meðalstór fyrirtæki, sem minna mega sín, en þau stóru. Þannig er Seðlabanki á lúberja þau fyrirtæki, og um leið atvinnuveitendur, sem minna mega sín, en hinir, þeir sterku, sem mest gætu borið, ganga frá borði ósnertir.
Það sama má segja um einstaklinga. Þeir, sem minnst eiga og verða að fjármagna sitt líf, íbúðarkaup, bílakaup og annað, meira eða minna með lánsfé, fá að finna fyrir svipu Seðlabanka. Hinir, sem nóg eiga, eru skuldlausir og kannske líka fjármagnseigendur, eru ekki bara óhultir, fínir og flottir, heldur fá þeir nú hærri vexti á sínar bankainneignir.
Gekk Seðlabanki gegn jafnréttislögum og Stjórnarskrá?
Hér er Seðlabanki í reynd að framkvæma stórfellda eignaupptöku hjá hluta þjóðarinnar og með valdboði að færa tugi milljarða af þeim, sem minna mega sín, yfir á þá, sem mest mega sín, banka og fjármagnseigendur, og, með þessu atferli, að setja fjárhagslegt jafnræði milli manna og fyrirtækja, jafnrétti, í algjört uppnám.
Með þessari aðferðafræði er Seðlabanki ekki aðeins að ganga gegn grunnréttindum um jafnræði og réttlæti, með herfilegum hætti, heldur virðist hann brjóta reglur og lög, stjórnarskrána, hvað varðar friðhelgi eignarréttarins.
72. grein Stjórnarskrár: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir“.
Ég, og mér mætari menn, m.a. Nóbelsverðlaunahafi, telja, að hér hafi alls ekki verið um „almenningsþörf“ að ræða, og, jafnvel, þó að svo hefði verið, er hér um varanlega eignarupptöku að ræða, þar sem „fullt verð“ kemur ekki fyrir.
Brot!
Leystu stýrivaxtahækkanirnar verðbólguvandann?
Ef leysa á vanda, þarf að komast fyrir rót hans.
Sá verðhækkanavandi, sem hefur verið í gangi síðustu 2 árin, átti þrennskonar rætur:
1. COVID-19 olli því, að menn gátu ekki komið saman til venjulegra verka og þarfa. Framleiðsla fór úr böndunum, datt víða niður, flutningsmagn snarminnkaði, verð á vörum og flutningi hækkaði. Þetta gerðist mest erlendis, mikið í Asíu og svo flutningi milli Asíu og Evrópu.
Þetta leiddi aftur til verulegar hækkunar á innfluttum varningi, en við, Íslendingar, flytjum verulegan hluta af okkar þörfum inn. Verðlag hækkaði því töluvert hér.
Löguðu hækkaðir vextir á Íslandi þetta? NEI. Þeir gátu engin áhrif haft á þessa erlendu verðþróun! Hins vegar hækkuðu þeir verð enn frekar á innfluttum vörum, því innflytjendur verða að fjármagna sinn innflutning, og þegar fjármagnskostnaður hækkar, hækkar verð. Sem sagt, kolöfug áhrif.
2. Fram að innrás Pútíns í Úkraínu höfðu margar þjóðir Evrópu keypt stóran hluta sinna orkugjafa, olíu og gas, af Rússum. Eftir árásina kom því upp mikill skortur á orkugjöfum í Evrópu. Verð þeirra stórhækkaði. Allur rekstur, framleiðsla, verzlun, þjónusta þarf orku. Mikil hækkunaralda varð þannig til í Evrópu. Löguðu hækkaðir vextir á Íslandi þessa þróun og stöðu; orkuverð í Evrópu? NEI, auðvitað ekki. Sama sagan og með COVID áhrifin. Þveröfug áhrif.
3. Vegna ófullnægjandi lóðaframboðs hækkaði húsnæðisverð hér, en það hefur veruleg áhrif á framfærsluvísitölu/reiknaða verðbólgu. Jók hækkun vaxta framboð á lóðum? NEI, líka hér, þvert í móti. Háir vextir eru letjandi fyrir byggingarverktaka. Þeir draga úr getu og vilja til að byggja meir.
Vaxtahækkanir Seðlabanka virkuðu því ekki á nokkurn hátt til að draga úr verðhækkunaröldunni, heldur juku þær vandann. Voru olía á eldinn.
Hvað hefði mátt gera?
Oft, þegar stormur gengur yfir, er bezt að bíða hann af sér. Á sama hátt og veðrið jafnar sig, leita markaðirnir alltaf jafnvægis. Milli framboðs og eftirspurnar. Enda hefur það svo orðið. Síðustu 12 mánuði lækkaði t.a.m. heimsmarkaðsverð á matvælum um yfir 10%.
Jafnframt komst framleiðsla í Asíu aftur í fyrra form, og skip gátu aftur siglt fullhlaðin.
Vestur-Evrópa fann nýjar leiðir til að afla orkugjafa. Verð á orku stórlækkaði aftur, enda er verðbólga í Evrópu gengin niður um helming eða meira, mest af sjálfu sér.
Tímabundið hefði Seðlabanki t.a.m. getað keyrt upp gengi íslenzku krónunnar, með kaupum á henni og öðrum aðgerðum, til að draga úr áhrifum erlendra verðhækkana hér. Þetta hefði auðvitað bara þurft að vera tímabundið; þar til erlent verð hefði gengið niður aftur.
Margt hefði mátt gera til að örva lóðaframboð og byggingaframkvæmdir. T.a.m. hefði Seðlabanki getað boðið sveitarfélögum fjármagn á lágum vöxtum, beint eða í gegnum viðskiptabankana, til að örva frágang byggingalóða. Það sama hefði getað átt við um byggingarverktaka. Bjóða hefði mátta þeim lága vexti, í stað þess að stórhækka þá.
Til að hemja eftirspurn eftir íbúðum, meðan að þetta hefði verið að virka, hefði mátta setja reglur um hærri úrborun við íbúðarkaup o.s.frv.
Eðlileg og nútímaleg viðbrögð við verðþenslu
Einföld stýrivaxtahækkun er eldgömul og úrelt aðferðafræði. Hún átti kannske við fyrir mörgum áratugum, um eða upp úr síðustu öld, þegar gerð og samþætting þjóðfélagsins var önnur.
Flest bankakerfi hafa breytt sinni nálgun, aðferðafræði, og sínum vinnubrögðum. Dæmigerðir vextir af íbúðarlánum til 10 ára í Þýzkalandi eru nú rúm 3%. Á sama tíma eru stýrivextir ECB 4,5%. Útlánsvextir viðskiptabanka í Þýzkalandi eru þannig langt undir stýrivöxtum.
Hækkun vaxta, sérstaklega á löngu umsamin og tekin lán, er grófleg og hrein eignaupptaka, sem ætti ekki að viðgangast í neinu landi, sem vill kalla sig siðmenntað.
Þar eru fjármunin færðir, með valdi og ofbeldi, af þeim, sem oft eiga minna, yfir á banka og fjármagnseigendur, með endanlegum hætti. Fráleitt og forkastanlegt.
Ef draga þarf úr verðþenslu, sem myndast innanlands og hægt er að taka beint á, t.a.m. vegna mikils uppgangs í ferðaþjónustu, stóraukins afla, mikillar hækkunar heimsmarkaðsverð fyrir íslenzkar framleiðsluvörur eða annars, væri rétt að beita a) hóflegri, tímabundinni skattlagningu, sem næði með einhverjum hætti til þeirra, sem breiðari hefðu bökin (slíkt fé gengi til samfélagsins, okkur öllum til framdráttar) b) skyldusparnaði, líka helzt á þá, sem væru aflögufærir (en menn fengju það fé til baka, að aðgerð afstaðinni) c) hóflegri vaxtahækkun, en bara á ný lán, alls ekki fyrri/hlaupandi lán.
Hvað segja Nóbelsverðlaunahafar og aðrir málsmetandi menn?
Undirritaður hefur ritað margar greinar um stýrivaxtastjórn Seðlabanka, í sama anda og hér er gert, síðustu 2 árin. Seðlabankastjóri og Peningastefnunefnd hafa auðvitað ekkert með það gert.
Svo gerist það á dögunum, að hingað kemur einn helzti hagfræðingur og efnahagssérfræðingur okkar tíma, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Joseph Stiglitz.
Stiglitz hefur verið yfirhagfræðingu Alþjóðabankans, stýrt nefnd SÞ, sem hafði það verkefni, að endurskoða hin alþjóðlegu peninga- og fjármálakerfi, hefur verið efnahagsráðgjafi Bandaríkjaforseta, auk þess, að vera yfirmaður hagræðideildar Columbia háskóla og prófessor þar.
Og, hvað sagði hann? M.a. þetta, og er þá vitnað í vefsíðu RÚV, sem átti við hann viðtal 6. marz sl.:
Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz segir, að seðlabankar heimsins hafi hellt olíu á eldinn með því að hækka stýrivexti í baráttu sinni við verðbólgu. Verðbólga...sé ekki að minnka vegna stýrivaxtahækkana
...segir Stiglitz, að verðbólgan hafi orsakast af hökti í framboði og eftirspurn.
Verðbólgan, sem hefur herjað á heiminn að undanförnu, er að hans mati að miklu leyti tengd við verð á matvælum og orku. Skapar hækkun vaxta meira af matvælum eða meira af orku, sem lækkar verðið?“ spyr svo Stiglitz.
Eins má vitna í ummæli Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, í Eyjunni/DV 3. marz:
„Vextirnir hafa bein áhrif á vísitöluna, einn grunnmælikvarðann við vaxtaákvarðanir Seðlabankans...
...en verra er, þegar það er hagkerfið sjálft, sem býr til vandamálin
...þú getur algerlega fært rök fyrir því, að hluti þeirra verðhækkana, sem hafa orðið, stafi beinlínis af þessum háu vöxtum.
Þarf að segja mikið meira!?
Með öðrum orðum þá hafa vaxtastýringar seðlabankans engin áhrif á fjármagn í umferð en stórskaða lífskjör... og enginn segir neitt... engin reverse engineeringm engin greining á fyrri áhrifum.... ekkert.... nema þögn og bullið úr hvíta turni Sarumans heldur áfram.