Í nóvemberbyrjun voru grindvísk börn öll í sama skólanum, Grunnskóla Grindavíkur. Í dag dreifast þau á 73 skóla í 27 sveitarfélögum. Ákveðið var, skömmu eftir að hamfarirnar riðu yfir, að setja upp safnskóla á fjórum stöðum í Reykjavík þar sem nemendum bauðst að halda áfram námi með kennurunum sínum úr Grindavík, og gömlu bekkjarfélögunum. Safnskólarnir eru í Hvassaleitisskóla, Laugalækjarskóla, Ármúla og höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli. Fyrir áramót stunduðu 55 prósent nemenda úr Grindavík nám í þessum skólum. Eftir áramót hefur það hlutfall lækkað umtalsvert, og er nú í kringum 40 prósent. Skólaakstur hefur auk þess verið í boði frá Suðurnesjum, Selfossi og Mosfellsbæ.
Í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar kemur fram að um 225 nemendur séu nú í þessum safnskólum, 87 eru í skóla í Reykjanesbæ, 59 í öðrum skólum í Reykjavík, 28 í Kópavogi, 25 í Garðabæ, 25 í Sveitarfélaginu Árborg, 22 í Hafnarfirði, ellefu í Sveitarfélaginu Vogum, tíu í Suðurnesjabæ og tíu í Hveragerði. „Hins vegar dreifast nemendur á mun fleiri sveitarfélög og þá eru oft ekki fleiri en 2-4 nemendur í hverjum skóla.“
Framhaldsskólanemendur, sem eiga lögheimili í Grindavík, eru nú í 14 mismunandi skólum sem eru í níu sveitarfélögum og flestir eru í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Leikskólabörn eru í 46 skólum sem eru í 16 sveitarfélögum.
Í svari ráðuneytisins segir enn fremur að áhrif hamfaranna á líf grindvískra barna séu miklar, ófyrirséðar og koma fram í áskorunum er tengjast m.a. skóla- og frístundastarfi. „Mikil hreyfing er á fólki og stöðugt er unnið að því að kortleggja og meta stöðu barnanna. Allt þetta gerir það að verkum að skipulag skólahalds hefur reynst krefjandi verkefni en það hefur verið á könnu fræðslusviðs Grindavíkurbæjar en mennta- og barnamálaráðuneytið hefur lagt til sérfræðiráðgjöf, m.a. við greiningu og lausnaleit. Í öllum viðbrögðum sem gripið hefur verið til er áhersla á að hlúð sé að börnunum og velferð þeirra tryggð eftir bestu getu. Trygg skólaganga er eitt af lykilatriðum í viðbragðinu.“
Skólaskylda er á grunnskólastigi og heldur fræðslusvið Grindavíkurbæjar utan um skólasókn grindvískra grunnskólabarna. „Grindvíkingar hafa búið við ótrygga búsetu síðustu mánuði og hefur það óhjákvæmilega haft þau áhrif að ákveðinn hópur grindvískra barna hefur verið tilneyddur til þess að skipta nokkrum sinnum um skóla frá 10. nóvember en tölulegar upplýsingar um þetta hafa ekki verið teknar saman enn þá,“ segir í svari ráðuneytisins.
Athugasemdir