Þjóðir hyggja misvel að innviðum sínum og útviðum.
Tökum Finna. Í landi þeirra er næstum allt eins og það á að vera, innviðirnir traustir frá a til ö: menntakerfið, heilbrigðisþjónustan, menningarlífið, samgöngur, nefndu það bara. Finnar hafa meira að segja byggt 50.500 neðanjarðarbyrgi sem myndu duga handa 4,8 milljónum manns í kjarnorkustríði. Íbúafjöldi Finnlands er 5,5 milljónir. Þetta kallar maður fyrirhyggju.
Löng landamæri að Rússlandi
Menntakerfið, heilbrigðiskerfið, menningarlífið og samgöngur eru hluti innviðanna, sem svo eru nú gjarnan nefndir. Neðanjarðarbyrgin má líta sömu augum, það er sem innviði, en þau er einnig gagnlegt að flokka sem útviði þar eð þau tengjast samskiptum Finna við önnur lönd, einkum Rússland. Landamæri Finnlands og Rússlands eru 1.340 km að lengd, lengri en hringvegurinn kringum Ísland.
Finnar hafa gætt vel að útviðum sínum ekki síður en innviðum. Þeir töldu sig þurfa að stíga varlega til jarðar í utanríkismálum meðan glæpum vafinn Kommúnistaflokkurinn réð ríkjum í Sovétríkjunum í næsta nágrenni. Finnar gerðust til dæmis ekki stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu 1949 eins og Danir, Íslendingar og Norðmenn gerðu, en Finnar gerðust þó aukaaðilar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu (EFTA) 1961 til að styrkja stöðu sína gagnvart umheiminum. Íslendingar gengu ekki í EFTA fyrr en 1970.
Þegar veldi kommúnista hrundi í Sovétríkjunum 1991 hófu Finnar undirbúning að inngöngu í Evrópusambandið, héldu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið 1994 þar sem 57% kjósenda lýstu sig fylgjandi aðild, gengu síðan í sambandið 1. janúar 1995 og tóku upp evruna 2002. Svíar fóru eins að án þess þó að stíga skrefið til fulls, því þeir eiga enn eftir að taka upp evruna, sem þeir hafa þó skuldbundið sig til að gera. Svíar sömdu um tímabundna en þó ekki tímasetta undanþágu frá skyldunni til að taka upp evruna.
Enn varð þróun mála í Rússlandi til að hreyfa við Finnum þegar Rússar réðust öðru sinni inn í Úkraínu 2022 til að reyna að leggja landið undir sig. Þá sóttu Finnar og einnig Svíar strax um inngöngu í NATO og hurfu þar með af illri nauðsyn frá langvarandi hlutleysi í utanríkismálum. Finnar gengu inn í bandalagið ári síðar, 2023, en Tyrkir og Ungverjar töfðu inngöngu Svía framan af, en hurfu síðan frá frekara andófi. Aðild Svía er nú tryggð.
Fyrirhyggjuleysi ...
Skugginn sem Rússar hafa lengi varpað yfir Finnland, meðal annars með því að sölsa undir sig tíunda hluta flatarmáls Finnlands í Vetrarstríðinu 1939-1940, hefur knúið Finna til að gæta vel að öryggismálum sínum og öðrum útviðum.
Öðru máli gegnir um Ísland. Íslendingar gengu að vísu eins og Danir og Norðmenn í NATO við stofnun bandalagsins 1949 og gerðu varnarsamning við Bandaríkin. En Íslendingar neyttu ekki lags til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu 1994 um inngöngu í Evrópusambandið eins og Finnar, Norðmenn og Svíar gerðu, kannski vegna þess að skoðanakannanir virtust sýna að meiri hluti íslenzkra kjósenda hefði lýst sig fylgjandi inngöngu eins og raunin varð í Finnlandi og Svíþjóð, en ekki Noregi. Nú kæmi sér vel fyrir Ísland að vera löngu komið inn í ESB til að þétta raðirnar af öryggisástæðum, hvað sem líður öðrum rökum fyrir aðild.
Bandaríkjastjórn sagði varnarsamningnum upp einhliða gegn mótmælum íslenzkra stjórnvalda 2006 og dró þá herlið sitt til baka, tveim árum eftir að Eystrasaltsríkin og fjögur önnur Austur-Evrópulönd gengu í NATO 2004. Ísland varð því varnarlaust 2006 og reiddi sig eftir það alfarið á aðildina að NATO. Allar götur frá endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna 1991 höfðu þau varað við hættunni á endurnýjuðum yfirgangi Rússa. Réttmæti þeirra viðvarana staðfestu Rússar með innrásinni í Úkraínu, fyrst 2014 og síðan aftur 2022.
Ísland hefur samt ekki verið alveg varnarlaust þótt hér hafi ekkert fast herlið verið á vegum NATO undangengin 18 ár. NATO hefur þó haft hér á sínum snærum misfjölmennt lið til eftirlits með öryggi landsins, fólk sem kemur og fer og lætur lítið á sér bera, en stjórnvöld hafa kosið að greina almenningi ekki frá þessu, að minnsta kosti ekki svo mikið bæri á. Hvers vegna er fólkinu í landinu ekki sagt frá þessu? spurði ég þýzkan hershöfðingja fyrir fáeinum árum. Það er nú til dæmis af tillitssemi við stjórnmálamenn eins og þessa þarna sagði sá borðalagði og benti á stjórnarandstöðuþingmann sem stóð þrjá metra frá okkur á stofugólfinu og er nú forsætisráðherra Íslands.
Ísland er sem sagt varið með leynd, íbúum landsins að kostnaðarlausu og þá um leið meðvitundarlausu. Hér minnist enginn á varnir gegn yfirvofandi styrjaldarhættu. Hér hafa meira að segja eldgosin á Reykjanesskaga komið yfirvöldum að óvörum, þrátt fyrir viðvaranir Páls Einarssonar prófessors fyrir 30 árum meðal annars um Grindavík þar sem menn byggja „klofvega yfir þekktar sprungur og án umhugsunar“.
... kallar á andvaraleysi
Fyrirhyggjuleysi og meðfylgjandi hirðuleysi um útviði hefur afleiðingar, ekki bara þegar eldfjöll gjósa eða stríð skellur á, heldur einnig vegna andvaraleysisins sem þrífst í skjóli fyrirhyggjuleysins jafnvel þótt allt sé með kyrrum kjörum.
Skilningurinn á viðvörunum Eystrasaltsríkjanna allar götur frá 1991 um hættuna sem Evrópulöndum, einkum Austur-Evrópulöndum, stafar frá Rússum var ekki meiri en svo að Seðlabanki Íslands reyndi að selja Ísland í hendur Pútíns forseta eftir hrun til að reyna að komast hjá því að þiggja hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Af láninu varð þó ekki, og AGS kom á vettvang, þeim var að vísu meinuð innganga í bankann fyrsta daginn (þeim var snúið við í fordyrinu), en það tókst að koma vitinu fyrir bankastjórnina og hleypa sendinefnd sjóðsins inn í húsið nokkru síðar til að hefja vinnuna við að leggja línurnar að endurreisn efnahagslífsins sem tókst vel að mörgu leyti.
Hvers vegna reið þeim í Seðlabankanum og ríkisstjórninni svona á að komast fram hjá AGS? Kannski héldu þau að AGS myndi grafast fyrir um misferlið í bönkunum, meint Rússatengsl þar og fleira. En sá ótti var alveg ástæðulaus. AGS ber samkvæmt settum reglum skylda til að lána aðildarlöndum í gjaldeyriserfiðleikum fé gegn umsömdum skilyrðum og veita þeim ráð hvort sem viðkomandi stjórnvöld eru spillt eða ekki. Þess vegna lánaði AGS Kongó allt þetta fé á fyrri tíð án þess að depla auga. Ég man það vel, var á staðnum. AGS er ekki lögreglustofnun. Það er í annarra verkahring en sjóðsins að afhjúpa til fulls misferlið í föllnu bönkunum fyrir og eftir hrun svo að saga landsins sé rétt skráð.
Athugasemdir (4)