H
ey þú, ógesslega töff, ég er að tala við þig.
Hey þú, „ekkert Palestínu drasl,“ „burt með þetta mússa svín,“ ég er að tala við þig.
Hey þú, „svona fávitum á umsvifalaust að keyra útá Leifsstöð og senda út með næstu vél“.
Hér gerðist eitthvað á laugardagskvöld sem þarf að staldra við og skoða.
Hvað varð þess valdandi að fullorðið fólk talar með þessum hætti um mann sem hafði unnið sér það eitt til saka að taka þátt í söngvakeppni hér á landi og sækjast eftir því að koma fram fyrir Íslands hönd í Eurovision með atriði sem veðbankar höfðu spáð sigri?
Maðurinn var lítilsvirtur vegna þátttöku sinnar, kallaður „geitahirðir“, „grenjandi og illa skeindur Palestínuarabi“.
Palestínuarabi er orðið sem Morgunblaðið er farið að nota reglubundið yfir íbúa Palestínu til að minna á að bakgrunnur þeirra er annar en okkar. Að þeir eru arabar, múslimar, ógn við íslenskt gildismat. Allt í einu eru menn farnir að láta í sér heyra því þeir hafa svo miklar áhyggjur af velferð og öryggi íslenskra kvenna. Og réttindum samkynhneigðra. Menn sem hafa hingað til látið slíkt ofbeldi sig litlu varða. Jafnvel talað sjálfir af fyrirlitningu um konur og homma.
Tilhugsunin um mögulegan sigur Bashar virtist æra hluta þjóðarinnar.
Sömu þjóðar og gaf Úkraínu fullt hús stiga í símakosningu fyrir tveimur árum, eftir að Rússar réðust þar inn. Eftir innrásina hikuðu Íslendingar ekki við að taka afgerandi afstöðu á alþjóðlegum vettvangi. Boðað var til leiðtogafundar hér á landi til að árétta stuðning við Úkraínu og undirstrika grunngildi Evrópuráðsins; mannréttindi, lýðræði og réttarríki. Forseta Úkraínu var boðið að ávarpa Alþingi, íslenskir ráðherrar héldu til Kænugarðs og fólki var boðið skjól frá stríðsátökunum hér á landi. Og þegar Úkraínumenn stigu á svið í Eurovision bárust baráttukveðjur alls staðar að.
Sýnileikinn
En nú stígur maður frá stríðshrjáðu landi á svið í undankeppninni og minnir á að á meðan hann syngur er verið að fremja þjóðarmorð á fólkinu hans. Orð hans eru ekki þýdd yfir á íslensku, heldur láta glaðbeittir kynnar kvöldsins sér nægja að tala um þjáningar. Ekkert tal um útrýmingu, enga pólitík, í glimmergallanum. Þegar það er verið að reka mál fyrir Alþjóðadómstólnum varðandi þjóðarmorð í Palestínu er þátttaka í Eurovision, þar sem keppt er við hlið Ísrael, í eðli sínu pólitík. Pólitík þeirra sem ýmist samþykkja eða neita að taka afstöðu og taka fyrir vikið afstöðu með gerendum.
Laugardagskvöld rennur upp og í Laugardalshöll er ekkert nema gleði og glimmer. Hér eiga allir að vera hressir: Eru ekki allir í stuði?
Gjörningur Palestínumannsins er ekki viðurkenndur af neinum sem staddur er í salnum, jafnvel þótt hann hafi ratað langt út fyrir landsteinana.
Og alla leið til Ísraels, þaðan sem hvatning berst til Íslendinga að kjósa Heru Björk í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að Palestínumaður færi með sigur af hólmi, því það gæti haft slæmar afleiðingar fyrir samskipti þjóðanna. „Þátttaka Bashars verður aldrei öðruvísi metin en pólitísk og það verður mun alvarlegra ef Ísrael verður ekki með.“
Pólitísk skilaboð Palestínumannsins felast einfaldlega í tilvist hans og sýnileika. Ísraelar sendu inn lagið October Rain. Það var í október sem þeir hófu sprengjuregn á innilokaða íbúa Gaza, sem hefur nú dregið minnst 30 þúsund til dauða. Í stríði þar sem 132 blaðamenn hafa verið drepnir, 165 starfsmenn hjálparsamtaka og 365 heilbrigðisstarfsmenn. Stríði sem hættulegt er að segja frá.
Af þeim sökum var meirihluti íslensku þjóðarinnar þeirrar skoðunar að meina ætti Ísraelum þátttöku í Eurovision, eða 76 prósent. Um sextíu prósent töldu að ella ætti Ísland að draga sig úr keppni. En þegar hvatt var til sniðgöngu bárust skilaboð frá fyrsta sigurvegara Ísraela: „Fáið ykkur kjaftfylli af klökum og þegið!“
Föstudagur
Þessa helgi, frá föstudagseftirmiðdegi og fram að morgni mánudags, voru 306 Palestínumenn drepnir og mun fleiri særðust illa.
Á föstudeginum fór lokaæfing fram í Höllinni. Spennan lá í loftinu, sambland ótta og eftirvæntingu fyrir úrslitakvöldinu. Í heimalandi eins þátttakandans var veruleikinn annar, annars skonar spenna liggur þar í loftinu, stöðugur ótti og algjör örvænting. Þar er ekki spurt um sigur eða tap, heldur líf eða dauða.
Klukkan fjögur var árás gerð á flóttamannabúðir. Tíu létust. Tíu til viðbótar létust í loftárásum síðdegis og skömmu fyrir miðnætti bættust sextán við í hóp látinna á Gaza.
Árásirnar héldu áfram.
Alls eru 1,7 milljón manna á vergangi í Gaza, búnir að missa heimili sín. Þegar samfélag er óstarfhæft vegna stríðsástands ganga börn ekki í skóla og fullorðnir stunda ekki vinnu. Þegar fólk missir heimili sín, það er alvarlegur skortur á mat og hreinu vatni, heilbrigðisþjónustu og nauðsynlegum lyfjum, snýst lífið um það eitt að lifa af.
Hér á Íslandi var vinnudeginum að ljúka. Margir komu við í búðinni á leiðinni heim. Birgðu sig upp af snakki og nammi fyrir helgina. Allt klárt fyrir úrslitakvöld Söngvakeppninnar.
Laugardagur
Á meðan keppendur komu sér fyrir í Laugardalshöllinni á laugardag voru um 20 Palestínubúar drepnir í enn einni árás á flóttamannabúðir. Í suðurhluta Gaza var ráðist á tjaldbúðir fyrir utan spítala sem leiðir mæðravernd á svæðinu. Ellefu dóu í árásinni, þeirra á meðal hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamenn. Sjúklingar höfðu látið í ljós ótta sinn við að mæta í mæðravernd vegna skipulagðra árása á heilbrigðisstofnanir.
Á Vesturbakkanum var þrettán ára strákur skotinn af ísraelskum hermanni við flóttamannabúðir í Ramallah þennan laugardaginn. Síðar sama dag var fimmtán ára strákur skotinn til bana þegar hann fylgdist með ísraelska hernum að störfum. Frá 7. október hefur ísraelski herinn drepið yfir 400 Palestínumenn, þar á meðal 106 börn, á Vesturbakkanum. Alls hafa 12.300 börn látist í árásum Ísraela.
Hér var tekist á um það í athugasemdakerfum hvort Bashar væri alvöru Palestínumaður, fyrst hann býr á Vesturbakkanum og stundaði tónlistarnám í Ísrael. Eins og allir Íslendingarnir sem hafa menntað sig erlendis hafi glatað uppruna sínum. Sumir gengu svo langt að gera hann að Ísraelsmanni, fulltrúa þjóðar sem er að slátra þjóð hans. „Þessi ferðamaður frá Ísrael,“ sagði í athugasemdum við fréttir af söngvakeppninni.
Um miðjan dag trommaði Morgunblaðið upp með skandal. Forsvarsmaður Söngvakeppninnar hafði skrifað Útlendingastofnun bréf til að staðfesta að palestínski þátttakandinn þyrfti vegabréfsáritun vegna þátttöku í keppninni. Fólk átti ekki orð. Í það minnsta kosti ekki falleg. „RÚV vinnur gegn þjóðinni sem ber stofnunina uppi. Lokum Ríkisútvarpinu!“
Íslenskar fjölskyldur hrúguðu sér saman í sófanum og fylgdust með. Bashar steig á svið, klæddur sem kúreki, komst í einvígið og bað um að hætt yrði að skjóta hann niður. Og allt varð vitlaust:
„Það vill enginn þessa Palestínumenn nema heilaþvegin Evrópa.“
„Uppí vél með þig og vertu sæll.“
Um ellefu að kvöldi náði gleðin í Höllinni hámarki. Búið var að krýna sigurvegara kvöldsins og áhorfendur voru kvaddir með breiðu brosi. Útsendingu var lokið.
Um ellefu að kvöldi var sprengju varpað á fjögurra hæða hús í Rafah. Fjórtán létust í árásinni. Annars staðar á Gaza létust tíu í árás á flóttamannabúðir.
„Það vill enginn þessa Palestínumenn.“
Sunnudagur
Á sunnudeginum höfðu fimmtán börn látist af völdum vannæringar í Palestínu. Þau eru nú orðin átján. Það var líka þá sem ísraelski herinn drap sextán ára strák í flóttamannabúðum og særði tvo til viðbótar. Að sögn sjónarvotta voru engin átök til staðar, en brutust út í kjölfarið.
Síðar þennan sama dag kom í ljós að atkvæði sem ætluð voru Bashar runnu til Heru Bjarkar. Og númerið hans var merkt ruslnúmer. RÚV sendi frá sér yfirlýsingu og sagðist harma að það hefði gerst, en ætlaði ekki að gera neitt í því.
„Ísland vann. Almenningur kaus gegn ofstæki góða fólksins. Til hamingju Ísland.“
Til hamingju Ísland með að ég fæddist hér.
Born in Reykjavík, hæfileikarík.
„Hvað hefur það með rasisma að gera þótt hæfileikasnauður arabi tapi í kosningu?“
Mitt lag ógesslega töff,
Ekkert nineties ógeð.
Það er töff ókey,
Það er ekki gay.
Ég er komin here to stay.
Skotleyfið
Hvað varð til þess að virðulegur eldri maður, sem stundar golf, birtir myndir af stórfjölskyldunni og er meðlimur í Oddfellow, sat á bak við skjáinn og skrifaði: „Frímerki á rassgatið á helv. Mussanum og heim til Gaza með hann. Það vill hann enginn hér!“
Hvaðan kemur þessi lítilsvirðing?
Öll þessi reiði, þetta hatur og afmennskun?
Til að bregðast við fallandi fylgi hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið harðar í útlendingamálin. Sá flokkur sem hefur lengst verið við völd hér á landi og haft hvað mest áhrif á samfélagsgerðina hefur markvisst beint frá sér reiði, óánægju og ótta, yfir á innflytjendur og ekki síst á hælisleitendur. Talað um þá sem byrði á íslensku samfélagi. Fólk sem stendur höllum fæti fyrir og hefur í gegnum tíðina átt sér fáa málsvara í íslensku samfélagi er þannig látið bera byrðarnar af ósætti Íslendinga við stöðu sína og þróun mála í samfélaginu.
Upptakturinn var reyndar hafinn löngu áður. En þegar formaður flokksins og utanríkisráðherra Íslands ræddi um hælisleitendur í samhengi við skipulagða glæpastarfsemi urðu þáttaskil í íslenskri stjórnmálaumræðu. Búið var að gefa skotleyfi.
Rasistar Íslands risu upp.
Og því miður miklu fleiri með.
Fólkið sem tjáir sig með þessum hætti í kommentakerfinu er upp til hópa gott fólk, sem hefur látið afvegaleiðast í umræðu þar sem markvisst er verið að afmennska fólk, stimpla það og skipta því upp í andstæða hópa. Þannig eru þeir sem taka afstöðu gegn morðum á saklausum borgurum stimplaðir sem gyðingahatarar. Fólk sem grípur til varna er stimplað sem góða fólkið. Eins og það sé orðið samfélagslega samþykkt að uppnefna fólk fyrir að sýna gæsku og samkennd með náunganum.
Á undanförnum árum hefur hvert áfallið rekið annað. Þjóðin hefur þurft að takast á við heimsfaraldur, verðbólgu og vaxtahækkanir, náttúruhamfarir og nú er hópur Íslendinga á flótta innanlands. Hér hefur einnig reynt á þegar farið hefur verið fram á uppgjör við gömul viðhorf og gjörðir.
Smám saman hefur skautun orðið í samfélaginu, þannig að nú þykir ekkert tiltökumál fyrir venjulegt fólk að skrifa svona athugasemdir á opinberum vettvangi. Það er auðvelt að dæma það, en líklegra til árangurs að reyna að skilja hvaðan þetta sprettur. Ef farið er í gegnum athugasemdir birtist undirliggjandi ótti. Ótti við grimmilegar frásagnir af voðaverkum sem framin hafa verið úti í heimi. Ótti við hið óþekkta og örlög Íslendinga, við efnahagsástandið, tæknibreytingar og menningarbreytingar. Fólk hefur tilhneigingu til að halda fast í heim sem það þekkir.
Söngvakeppnin hefur um árabil verið eins konar þjóðhátíð. Fólk ýmist elskar hana eða elskar að hata hana. Og þótt þjóðin samfagni þegar samlöndum gengur vel á erlendum vettvangi virtist sem síðasta vígið væri að falla þegar Bashar steig á svið.
En ef ráðamenn ýta undir rasisma við slíkar kringumstæður, gagnvart fólki sem stendur andspænis þjóðarmorði, má velta fyrir sér hvað þarf eiginlega til svo þeir snúi af þeirri vegferð.
Athugasemdir (5)