Auknar líkur eru á eldgosi næstu daga. Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Kemur þar fram að fyrirvari goss gæti verið mjög stuttur, jafnvel 30 mínútur eða minna.
Mestar líkur eru á að gos komi upp á svæðinu á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Er það á svipuðum slóðum og fyrri gos á svæðinu.
Kvikumagnið undir Svartsengi heldur áfram að aukast og hraði landrissins er nokkuð jafn. Alla jafna hefur dregið úr hraða landriss þegar nær dregur gosi. Um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast undir Svartsengi á sólarhring. Alls hafa um 8,5 til 8,9 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir undir Svartsengi. Möguleikinn á kvikuhlaupi án þess að til eldogss komi er einnig fyrir hendi.
Hættumat Veðurstofunnar helst óbreytt. Þrátt fyrir að hættustig hafi ekki verið aukið geta aðstæður á vettvangi þó breyst hratt og fyrirvaralaust. Mikilvægt er að hafa þetta í huga eigi maður erindi inn á svæðið.
Athugasemdir (1)