Katrín Jakobsdóttir er einn öflugasti stjórnmálamaður samtímans. Hún hefur til að bera mikla hæfni til að sinna þessu starfi, hefur notið persónufylgis langt út fyrir flokkinn og er sá stjórnmálamaður sem flestir treysta. Ólíkt forverum sínum naut hún meira trausts en vantrausts sem forsætisráðherra í mörg ár áður en það snerist, en frá hruni hefur það aðeins tekið forsætisráðherra nokkra mánuði að missa þá stöðu til þessa.
Þrátt fyrir það hefur Katrín þurft að þola harða gagnrýni. Oftar en ekki vegna þess að hún leiðir ríkisstjórn sem samanstendur af fólki með ólíkt gildismat og áherslur. Og sem stjórnmálamaður sátta og samvinnu hefur hún umborið meira en sumir geta afborið.
Harðasta gagnrýnin hefur sem sagt ekki verið tilkomin vegna þess að hún hafi sjálf flækst inn í spillingar- og hneykslismál, heldur vegna þess að samstarfsfólk hennar í ríkisstjórn hefur gengið fram af fólki.
En nú er það allt að breytast.
Katrín getur ekki lengur falið sig á bak við Bjarna Benediktsson.
Á hverju byggir samstarfið?
Katrín verður seint sökuð um óheiðarleika, misnotkun valds eða eiginhagsmunapólitík, á meðan hennar helsti samstarfsmaður í ríkisstjórn hefur skandalísarað allan sinn stjórnmálaferil.
Fyrst sem óbreyttur þingmaður, þegar hann sat beggja vegna borðsins í viðskiptum og stjórnmálum og kom himinháum upphæðum undan bankahruni, flæktist inn í vafasama vafninga og aðrar fléttur.
Í öllum ráðuneytum sem hann hefur stýrt hafa komið upp spillingar- og hneykslismál.
Ríkisstjórnin féll þegar aflandsfélög ráðherra voru afhjúpuð. Fjármálaráðherra átti félag í skattaskjóli.
Ríkisstjórnin féll þegar dómsmálaráðherra hélt hlífiskildi yfir dæmdum barnaníðingum sem fengu æru sína uppreista, meðal annars fyrir tilstuðlan föður þáverandi forsætisráðherra.
Hann stýrði fjármálaráðuneytinu þegar ríkisbanki var seldur með ólögmætum hætti, meðal annars til föður hans.
Sem utanríkisráðherra skipaði hann fyrrverandi aðstoðarkonu sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Öllu verri var var þó framganga hans á alþjóðavettvangi varðandi árásir Ísraelshers á Palestínu, áður en hann dæmdi Palestínumennina hér heima sem grátbáðu hann um áheyrn. Og hælisleitendur almennt, með því að gefa til kynna að þeir séu byrði á samfélaginu.
Fyrir utan allt hitt sem ráðherra hefur gert sem hefur vakið furðu og orkað tvímælis. Öll skiptin sem hann hefur verið staðinn að því að leyna upplýsingum, greina rangt eða villandi frá. Bregðast við með frekju og yfirgangi, setja í brýrnar og skammast í þeim sem dirfast að krefja hann svara, hvort sem það eru þingmenn, fjölmiðlafólk eða menntaskólanemar.
Ráðherrann sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af á jólunum.
Dökkbláu jakkafötin
Sá stjórnmálamaður sem fólk treystir verst en lifir lengst. Í þeim skilningi að hann virðist alltaf standa af sér storminn. Ríkisstjórnir falla og hann hrökklast frá völdum, en snýr alltaf aftur stálsleginn. Beinn í baki, með vel greitt hár og þaulæfðar ræður. Hávaxinn maður í dökkbláum jakkafötum. Hin fullkomna ímynd valdsins.
Í bókinni Blink er fjallað um það hvernig fólk hugsar án þess að hugsa, hvernig ákvarðanir sem virðast vera teknar á augabragði eru ekki endilega eins einfaldar í raun og virðist vera. Fjallað er um Warren Harding-skekkjuna: Af hverju við föllum fyrir hávöxnum karlmönnum, myndarlegum og dökkum yfirlitum.
„Allt hans fas og framkoma undirstrikar að þarna fari maður sem þyki sjálfsagt að gera tilkall til valdsins“
Warren Harding var bandarískur stjórnmálamaður, hávaxinn og herðabreiður. Dökkar augabrúnir undirstrikuðu stálgrátt hárið. Sólbrún húðin vakti þau hughrif að hann væri heilsuhraustur og sterkur maður. Sterkur leiðtogi.
Hann „leit út eins og öldungadeildarþingmaður“, eins og það var orðað. Og frábær forseti. Í það minnsta frábærlega útlítandi forseti. Sem dugði til.
Á meðan stuttri forsetatíð hans stóð naut hann vinsælda, en eftir fráfall hans hefur verið talað um hann sem versta forseta í sögu Bandaríkjanna. Ekki síst vegna fjölda hneykslismála sem komu upp í stjórnartíð hans.
Bjarni Benediktsson hefur útlitið, sjálfsöryggið og söguna. Allt hans fas og framkoma undirstrikar að þarna fari maður sem þyki sjálfsagt að gera tilkall til valdsins. Og aðrir veita honum það.
Nánast sama hvað hann gerir. Hann varð sjöundi ráðherrann sem baðst lausnar, en var hvergi nærri hættur og hélt völdum. Ólíkt Sigríði Andersen sem vildi aðeins stíga tímabundið til hliðar en hvarf af vettvangi stjórnmála. Líkt og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Fleiri samflokks- og samstarfsmenn Bjarna hafa þurft að víkja en sjálfur situr hann sem fastast. Og rífur bara kjaft.
Hann hefur það fram yfir aðra að útlit hans og fas fellur að staðalmyndinni af valdhafa. Karlmaður af yfirstétt sem krefst virðingar og kann að koma fram. Þó ekkert endilega af virðingu við aðra.
Að selja valdið
Það er þetta sem Katrín hefur valið.
Það var hún sem bauð Bjarna Benediktssyni sæti í ríkisstjórn. Og fyrir það þarf hún að svara. Í hvert einasta sinn sem hann gengur fram af fólki.
Af því að fólk gerir aðrar kröfur til hennar heldur en Bjarna. Það treystir henni til þess að standa vörð um ákveðið gildismat og heilindi. Ekki aðeins vegna þess að hún er forsætisráðherra, heldur vegna þess að hún hefur talað fyrir annars konar veruleika.
Kannski hefur áhrif að hún er kona. Það er vel þekkt að konur sæta harðari gagnrýni heldur en karlar. Hér hefur jafnvel verið ráðist að heimili stjórnmálakvenna vegna þess að mótmælendur skynjuðu ótta þeirra. Ólíkt Bjarna þá lítur Katrín ekki út eins og staðalmyndin af sterkum leiðtoga.
Á fyrra kjörtímabili ríkisstjórnarinnar varði Katrín tíma og orku í að verjast kvenfyrirlitningunni, sem birtist meðal annars í því að hún var sögð strengjabrúða Bjarna.
Hún er engin strengjabrúða. Hún hefur valdið. Og markaðssetti það í aðdraganda kosninga.
Það er ekki hægt að selja slagorðið: Það skiptir máli hver stjórnar. En láta síðan sem hún hafi ekkert um athafnir annarra ráðherra að segja.
Það sem þú ert – og það sem þú gerir
Stuðningsmenn Katrínar hafa kvartað sáran yfir ósanngjarnri gagnrýni. Katrín sé svo hæfur stjórnmálamaður. Það sé mikilvægt að hún sé við völd. En þá verður hún líka að beita þeim.
Það skiptir ekki máli fyrir hvað þú stendur, heldur hvað þú gerir.
Nú er tími fyrir heilindi.
„Ekkert segir eins mikið um fólk sem gegnir valdastöðum eins og hvernig það bregst við fólki í neyð“
Ef vandi Katrínar felst fyrst og fremst í vali á samstarfsfólki, þeirri ákvörðun að gera Bjarna Benediktsson að samstarfsmanni og mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, sem rekur stefnu sem gengur þvert gegn yfirlýstum áherslum Katrínar og Vinstri grænna, þá þarf hún að bregðast við því.
Hún hefur valið: Annaðhvort slítur hún samstarfinu, breytir áherslum eða situr uppi með ábyrgðina.
Af því á endanum var það ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem sat hjá á meðan verið var að slátra saklausum borgurum í Palestínu.
Hún sem hefur talað fyrir mannréttindum þeirra.
Réttur til lífs er grundvöllur annarra mannréttinda. Í því felst meðal annars skylda að vernda rétt fólks til lífs.
Stjórnarráðið sendi frá sér yfirlýsingu til að árétta að yfirvöldum „beri ekki skylda að senda íslenska ríkisborgara til að sækja fólk á Gaza“.
Börn sem bíða á Gaza með dvalarleyfi á Íslandi. Börn sem eru skotmörk í stríði. Börn sem lifa biðina ekki öll af.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þurfti að þola niðurlæginguna þegar þrjár íslenskar konur afbáru ekki lengur að horfa upp á aðgerðarleysið, nurluðu saman fyrir flugmiða til Egyptalands og afsönnuðu yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda um að það væri einfaldlega ekki hægt að hjálpa fólki frá Palestínu.
Á nokkrum dögum tókst þeim það sem íslensk stjórnvöld höfðu haft marga mánuði til að gera. Koma fólki yfir landamærin og loks í öruggt skjól á Íslandi. Enn hefur eina framlag íslenskra stjórnvalda falist í því að vísa fólki á flótta frá Palestínu á brott.
Ekkert segir eins mikið um fólk sem gegnir valdastöðum eins og hvernig það bregst við fólki í neyð. Hvergi í heiminum ríkir eins sár neyð og í Gaza.
Við munum öll deyja
„Við munum deyja. Við öll. Vonandi nógu fljótt til að stöðva þjáningarnar sem við lifum hverja einustu sekúndu.“ Skilaboðin bárust frá lækni sem starfar hjá Læknum án landamæra í Gaza.
Hryllingurinn sem þar á sér stað er þess eðlis að erfitt reynist að meðtaka það. Fyrir fólk sem hefur alist upp á Íslandi, við almennt öryggi og frið, getur reynst ómögulegt að skilja til fulls hvernig það er að vakna upp á spítala og komast að því að öll fjölskyldan þín lést í árásinni, hvernig það er að þurfa að draga sundurtætt lík barna úr húsarústum eða vita ekki hvort þú deyrð úr hungri eða í loftárás.
Vonandi mun sprengjuregninu ljúka og endurreisn hefjast á ný. Enn einu sinni. En það mun taka tíma, þegar heimili fólks hafa verið jöfnuð við jörðu, skólar og sjúkrahús. Allir innviðir eru brostnir.
Líklega verður þó erfiðast að endurheimta sálarheill þeirra sem þetta lifðu. Vitandi að þjóðir heims fylgdust með en gerðu ekkert.
Ísland uppselt
Og nú stíga þeir fram, íslenskir stjórnmálamenn sem lýsa áhyggjum af álagi á innviði: Ísland er uppselt.
Talað er um fólk á flótta í því samhengi.
„Ef innviðir eru að þrotum komnir er það vegna þess að rangar ákvarðanir hafa verið teknar“
Eins og þessir 150 einstaklingar frá Palestínu sem hafa fengið samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar séu byrði á kerfinu.
Þá má hafa í huga að kerfið er ekkert annað en ákvarðanir fólksins sem er við völd.
Ef innviðir eru að þrotum komnir er það vegna þess að rangar ákvarðanir hafa verið teknar. Forgangsröðunin hefur ekki verið rétt. Forrík þjóð getur vel sinnt grundvallarþjónustu við íbúa, rekið bæði velferðar- og heilbrigðiskerfi, ef það hefur ekki þeim mun meira farið úrskeiðis við efnahagsstjórn landsins.
Aumt er að færa þá byrði á herðar þeirra sem standa viðkvæmastir fyrir.
Þegar rýnt er í tölur Útlendingastofnunar bárust samtals 4.155 umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2023. Inni í þessum tölum eru stórir hópar frá Úkraínu og Venesúela. Báðir þessir hópar eru í sérstakri stöðu. Íslensk stjórnvöld ákváðu að taka á móti fólki frá Venesúela áður en hætt var við. Og eftir innrás Rússa ákváðu stjórnvöld að veita fólki frá Úkraínu skjól frá stríðsátökunum. Það komu því 1.560 einstaklingar þaðan.
Alls fengu 1.393 efnislega meðferð hér á landi. Af þeim var 981 synjað. En 412 var veitt einhvers konar vernd. Þar af voru 154 frá Palestínu.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þykir nóg um. Utanríkisráðherra viðhafði nýlega orðræðu sem var helst til þess fallin að vara við fólki á flótta og ýta undir fordóma, þegar staða þessa hóps var sett í samhengi við glæpastarfsemi og þörf á aukinni löggæslu. Og nú stendur til að herða útlendingalögin og reisa lokaðar búðir fyrir flóttafólk.
Eitthvað sem forsætisráðherra hefur lýst að henni hugnist ekki. En á meðan hún samþykkir það þá er þetta hin raunverulega stefna Vinstri grænna í útlendingamálum. Sú sem þau vinna eftir.
Rétt eins og það sem forsætisráðherra hefur verið tilbúinn til að umbera af hálfu annarra ráðherra í ríkisstjórn endurspeglar raunverulegt gildismat hans. Í afstöðuleysi felst afstaða með ráðandi öflum.
Það kann vel að vera að forsætisráðherra líti svo á að fórnarkostnaður vegna samstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn hafi verið þess virði. Kannski geta Vinstri græn réttlætt fyrir sér allt sem á undan er gengið.
En að vera í valdastöðu og vita að þú hefur ekki gert allt sem í þínu valdi stendur til að sækja þessi börn hlýtur að vera vont. Þau eru varla komin í slíkar ógöngur sálarinnar að þau geti litið sátt í spegil eftir það.
Þannig reyna þú og margir úr þinni stétt að þagga niður alla gagrýna umræðu um þessi mál.