Fyrsta fjölskyldan, sem þrjár íslenskar konur hafa undanfarið aðstoðað við að komast frá Gaza, er nú á leið til landsins. Gert er ráð fyrir að flugvél þeirra lendi í Keflavík um tvöleytið í dag. Um er að ræða konu og þrjá syni hennar sem hafa verið innlyksa í Gazaborg þar sem blóðug átök hafa geisað síðastliðna fimm mánuði.
Fjölskyldan fékk dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, en eiginmaður konunnar og faðir drengjanna þriggja er búsettur hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki beitt sér fyrir því að aðstoða fólk með samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við að komast frá átakasvæðinu og til landsins.
Viðbragðsleysi stjórnvalda í þessum efnum hefur valdið miklu fjaðrafoki og mótmæli hafa staðið yfir á Austurvelli frá því í desember í fyrra. Kristín Eiríksdóttir, María Lilja Þrastardóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir ákváðu í stað þess að bíða álengdar að hefja vinnuna við að safna nöfnum þeirra sem sitja fastir á Gaza með samþykkt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Í síðustu viku flugu konurnar þrjár út með listann með það fyrir augum að koma sem flestum frá Gaza og flytja þá til ástvina þeirra á Íslandi. Konunum hefur nú tekist að koma tveimur fjölskyldum í skjól. Önnur er á leiðinni til landsins og hin er enn sem komið er stödd í Kaíró.
Í samtali við Heimildina sögðust Bergþóra, Kristín og María Lilja myndu halda björgunarstarfinu áfram þangað til að utanríkisráðuneytið brygðist við og tæki við af þeim. „Við munum svo halda áfram að selflytja fólk heim til Íslands þar til ráðuneytið sendir fólk hingað. Þá getum við farið heim,“ sagði Kristín á dögunum.
Athugasemdir