Neyðarástand blasir við íbúum Reykjanesinu eftir hraun flæddi yfir stofnlögn HS Veitna. En lögnin sér Reykjanesbæ, Grindavík, Suðurnesjabæ og Vogum fyrir heitu vatni.
Heimildin hafði samband við Guðlaug Helga Sigurjónsson, sviðstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Reykjanesbæjar, sem situr um þessa mundir í aðgerðastjórn almannavarna í Reykjanesbæ. En bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, er um þessar mundir staddur erlendis.
Guðlaugur segir að eignarvernd sé helst forgangsatriðið í viðbragðsáætlun bæjaryfirvalda.
„Nú erum við fyrst og fremst að hugsa um eignarvernd og halda hita í húsnæði eins og hægt er. Það var ákveðið að skólahald ætti að vera óbreytt allavega þennan dag í dag. En það er hægt segja það að það verður ekki skólahald á morgun. Við höfum lokað sundlaugum, öllum óþarfa hita sem við erum að nota, svo sem gervigrasvelli og fleiri stöðum,“ segir Guðlaugur.
Þá segir Guðlaugur að gert sé ráð fyrir að heitavatnlaust verði í bænum þegar vatnsaflsbirgðir í miðlunartönkum klárast, en gert er ráð fyrir að þeir endist í sex til 12 klukkustundir.
Guðlaugur telur ólíklegt að rafmagn fari af bænum. „Það verður kannski mögulega skert rafmagn. Og við beinum til fólks að vera ekki nota mikið umfram rafmagn í heimahúsum með rafmagnshiturum, kerfið mun ekki hafa það.“
Spurður hvort til standi að flytja íbúa úr bænum vegna skorts á heitu vatni segir Guðlaugur að enn sem komið er standi ekki til að flytja almenna íbúa úr bænum. Hins vegar sé farið að ræða þann möguleika að flytja fólk sem dvelur á hjúkrunarheimilum og aðra sem þurfa aðstoð við flutning úr bænum. „Við erum aðeins farin að skoða það.“
Vatnaveröld skellir í lás og skrúfar fyrir heita vatnið
„Það verða bara allir að vera rólegir,“ segir Hafdís Alma Karlsdóttir, forstöðukona í Vatnaveröld í Reykjanesbæ í samtali við Heimildina. Dagurinn í Vatnaveröld hófst eins og hver annar fimmtudagur þrátt fyrir fregnir af eldgosi í morgunsárið. Dagurinn tók hins vegar óvænta stefnu þegar heitavatnslögnin sem liggur frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ fór undir hraun.
„Við fengum hringingu frá hitaveitunni rétt um hálf ellefu í morgun þar sem við vorum beðin um að minnka heitavatnsnotkun. Það var farið strax í það og við hættum að hleypa ofan í stuttu eftir það. Það var engin breyting fyrr en við fengum þetta símtal,“ segir Hafdís Alma.
„Við erum bara að þrífa, það er ekkert mikið um þetta að segja, við tökum þessu bara rólega og vinnum eftir þeim upplýsingum sem við höfum hverju sinni,“ segir Hafdís Alma. „Það er bara lokað.
Athugasemdir