Laufey Lin Jónsdóttir vann í kvöld Grammy- verðlaun fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundna popptónlistar, sungin tónlist (e.Traditional Pop Vocal Album). Þetta var í fyrsta sinn sem Laufey var tilnefnd til verðlaunanna en á meðal þeirra sem voru líka tilnefndir í hennar flokki var goðsögnin Bruce Springsteen.
Hægt er að sjá brot úr sigurræðu Laufeyjar hér að neðan.
Þegar Laufey tók við verðlaununum þakkaði hún innilega fyrir sig og sagði að verðlaunin væru stórkostleg. „Ég trúði því ekki í milljón ár að þetta gæti gerst.“ Hún þakkaði svo teyminu á bakvið sig, foreldrum sínum og ömmum og öfum fyrir að kynna sig fyrir tónlist. Stærstu þakkirnar fékk svo Junia, tvíburasystir Laufeyjar, sem tónlistarkonan sagði vera sinn helsta stuðningsmann.
Laufey var líka á meðal þeirra tónlistarmanna sem skemmtu á hátíðinni í kvöld.

Ólafur Arnalds var einnig tilnefndur fyrir plötuna Some Kind of Peace (Piano Reworks) í flokknum nýaldarstemmningstónlist (e. Best New Age, Ambient, or Chant Album). Hann hefur tvisvar áður hlotið tilnefningu.
Jón Sigurgeirsson, faðir Laufeyjar, var eðlilega stoltur af dóttur sinni í kvöld.

Jón starfar sem efnahagsráðgjafi Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Lilja fagnaði verðlaununum á Facebook í kvöld með eftirfarandi orðum:
„Þvílík stund! Laufey hlaut Grammy-verðlaun fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundnar popptónlistar, sungin tónlist (e. Traditional Pop Vocal Album)!
Þetta er risastór áfangi og sigur fyrir Laufeyju sjálfa, en ekki síst íslenskt menningarlíf.
Og kvöldið er ekki búið, en um sannkallaða Íslandshátíð er að ræða á sjöttugustu og sjöttu Grammy-tónlistarverðlaunahátíðinni, sem fram fer í Los Angelesí kvöld. Ólafur Arnalds er líka tilnefndur fyrir Some Kind of Peace (Piano Reworks) í flokknum nýaldarstemmningstónlist (e. Best New Age, Ambient, or Chant Album).
Ekki nóg með þetta, heldur koma Íslendingar við sögu í annarri tilnefningu í kvöld. Tölvuleikurinn Stríðsguðin Ragnarök hlaut tilnefningu fyrir besta hljóðritið í flokki tölvuleikja og annarra gagnvirkra miðla (e. Best Score Soundtrack for Video Games and Other Interactive Media), og í flokknum besta hljóðplatan fyrir hljóðupptökur (e. Best Immersive Audio Album). Í laginu er áberandi kórsöngur á norrænu máli, sem Schola Cantorum og Hymnodia taka upp í Hofi á Akureyri undir merkjum SinfoniaNord.
Það drjúpa hæfileikar af hverju strái á þessari eyju okkar. Það er bara þannig. Við getum verið svo ótrúlega stolt hvað fólkið okkar er að ná langt úti í honum stóra heimi. Höldum áfram að hlúa að menningarlífinu okkar, útkoman úr því mun alltaf gera okkur stolt."
Athugasemdir (1)