„Ég tel að við getum ekki verið hér með einhvern útgjaldalið alveg galopinn sem að bara stækkar og stækkar og stækkar,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, í Pressu. Hún segir markmiðið vera að fækka umsóknum um vernd á Íslandi.
Guðrún var viðmælandi Helga Seljan í tíunda þætti af Pressu. Umfjöllunarefnið var útlendingamál og afleiðingar jarðhræringanna í Grindavík. Í fyrri hluta þáttarins ræddi Helgi við almannatenglana Björgvin Guðmundsson og Andrés Jónsson. Ræddu þeir þá sérkennilegu stöðu sem nú er uppi í stjórnmálum.
Stækkandi útgjaldaliður
„Við erum bara með einn ríkissjóð. Við þurfum að reka þetta samfélag allt og þetta er útgjaldaliður í mörgum. Þannig að það er heldur ekki sanngjarnt að ætla að segja hérna við íslenska skattgreiðendur að einn útgjaldaliður verði bara stærri og stærri.“
Þegar horft sé til nágrannalanda Íslands sé ekki þessi fjöldi ríkisborgara frá Venesúela sem sækja um vernd, segir Guðrún. „Núna hefur orðið breyting á afgreiðslu Útlendingastofnunar sem hefur verið staðfest af kærunefnd útlendingamála. Þannig að við erum með hér núna mörg hundruð manns frá Venesúela sem munu líklega að stærstum hluta fá synjun hér um vernd á Íslandi og þurfa þar af leiðandi að yfirgefa landið.“
„Við erum bara hér með gríðarlegan fjölda umsókna sem er fólk sem að þarf ekki á þessari vernd að halda heldur er að leita að betri lífsgæðum. Við eru sömuleiðis hér með stóran hóp fólks sem kemur hér til Íslands sem er nú þegar með vernd í öðru landi.“
Hún segir málaflokkinn vera stóran, knýjandi og dýran.
Lokuð búseta
Dómsmálaráðuneytið lagði fram frumvarp í janúar um lokaða búsetu fyrir útlendinga sem liggur fyrir að senda eigi úr landi. Kemur þetta í stað þess að þeir séu vistaðir tímabundið í fangelsi líkt og tíðkast hefur. Nokkuð strangar reglur eiga að gilda í lokaðri búsetu svo sem aðskilnaður kynja, möguleiki á agaviðurlögum og leit á herbergjum.
Spurð hvort að þetta sé ekki bara fangelsi fyrir flóttamenn leggur Guðrún áherslu á að þetta sé það ekki, heldur búsetuúrræði. „Það er munur á því.“ Hún segir þetta vera ákveðna frelsissviptingu en þarna verði heimilt að vista einstaklinga til að tryggja návist þeirra þegar þeir eiga að yfirgefa landið. Guðrún segir Ísland vera eina landið innan Schengen sem uppfyllir ekki skilyrði um að vera með brottvísunarbúðir.
„Við erum að beita því úrræði hér að setja fólk sem á að fara frá landinu í gæsluvarðhaldsvistun á Hólmsheiði sem er harðasta úrræði sem þú eiginlega getur beitt gagnvart fólki sem að hefur ekkert annað til saka unnið en að það fær ekki samþykkta dvöl í þessu landi. Mér finnst það ekki hægt að bjóða því fólki upp á það og það hafa verið gerðar athugasemdir af Schengen um að við séum að vista umsækjendur um vernd í gæsluvarðhaldsfangelsi.“
Athugasemdir