Innflutningur á kjöti jókst um 17 prósent milli áranna 2022 og 2023. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar voru flutt inn alls 4.976 tonn af kjöti árið 2023. Lang stærstur hluti innflutts kjöts var alifuglakjöt, en árið 2023 voru flutt inn rúmlega tvö þúsund tonn af kjúklingakjöti.
Í línuriti Hagstofunnar sem sýnir innflutning á kjöti milli áranna 2011 til 2023 má glöggt sjá að innflutningur á kjöti hefur farið ört vaxandi síðastliðinn fjögur ár. Innflutningur á alifuglakjöti jókst um nálega 740 hundruð tonn milli áranna 2020 til 2023. Innflutningur á svínakjöti jókst um svipað magn.
Þá má einnig sjá á töflunni að innflutningur á nautakjöti tók stökk milli áranna 2022 og 2023 og jókst um 48 prósent. Hefur innflutningur á nautakjöti aldrei verið meiri, en hann var 1.344 tonn árið 2023.
Lítið flutt inn af kindakjöti
Ein kjötvara sker sig þó úr í talnaefni Hagstofunnar, það er kindakjötið. Milli áranna 2011 og 2023 hefur innflutningur á kindakjöti öllu jafna verið núll til tvö tonn ári. Þegar mest lét voru flutt inn 39 tonn árið 2019, en það sker sig úr í gögnunum.
Milli áranna 2011 til 2018 var nánast ekkert kindakjöt flutt inn til landsins. Frá 2021 til 2023 má þó greina hægfara aukningu í innflutningi. Þá fór innflutt magn úr núll tonnum árið 2020 yfir í 20 tonn árið 2023.
Þá kemur einnig fram í tilkynningu Hagstofunnar að útflutningur á kindakjöti hafi dregist saman um 43 prósent milli áranna 2022 og 2023. Í lok árs námu uppsafnaðar birgðir af kindakjöti um 4.660 tonnum.
Íslendingar sólgnir í kjúklinga
Í frétt Heimildarinnar sem birtist fyrir tæpum mánuði síðan var greint frá því að framleiðsla á kjúklingakjöti hafi tekið fram úr framleiðslu á lambakjöti annað árið í röð. Árið 2023 var samanlögð framleiðsla á alifuglakjöti rúmlega 8.955 tonn, sem var um 500 tonnum meira en samanlögð ársframleiðsla á kindakjöti.
Það má því með sanni segja að Íslendingar séu orðnir að kjúklingaþjóð. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur útflutningur á alifuglakjöti verið nánast enginn síðastliðinn fimm ár, fyrir utan árið 2021 þegar eitt tonn var flutt úr landi. Samanlagt nam framboð á kjúklingakjöti á íslenskum markaði árið 2023 því um 11 þúsund tonnum.
Þá kemur einnig fram í tilkynningu Hagstofunnar að eggjaframleiðsla hafi náð aftur sínu striki eftir mikinn samdrátt í kórónuveirufaraldrinum. Nam framleiðslan 4.790 tonnum árið 2023 og hefur aldrei verið meir.
Athugasemdir