Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi í dag að ríksstjórnin ætli að framlengja skammtímaúrræði fyrir íbúa Grindavíkur. Til stendur að framlengja launa- og húsnæðisstyrk til Grindvíkinga og sagði Katrín að slíkir styrkir verði auknir fyrir stærri barnafjölskyldur. Þá mun ríkisstjórnin einnig kaupa fleiri íbúðir í gegnum Bríet leigufélagi til þess að mæta framboðsvandanum.
„Það er okkar mat að við verðum að bjóða Grindvíkingum lausnir því við getum ekki gert ráð fyrir því að Grindvíkingar geti snúið til baka á næstu mánuðum og misserum,“
Varðandi stærri aðgerðir sem eru til lengri tíma sagði Katrín að ríkisstjórnin hafi rætt tvær mögulegar leiðir, en hafi enn ekki tekið ákvörðun. Önnur leiðin er að ríkið kaupi upp allt íbúðarhúsnæði í Grindavík. Hins vegar hefur ríkisstjórnin skoðað þann möguleika að finna leiðir til þess að leysa íbúa Grindavíkur út og „geyma ákvörðunina um eignarhald á húsnæðinu fram í framtíðina.“
Á blaðamannafundinum sagði Katrín að um stóra ákvörðun væri að ræða sem krefjist samráðs og samtals við alla hagaðila. Ríkisstjórnin hafi undanfarið fundað með bæjarstjórn Grindavíkur og fulltrúum allra flokka á Alþingi.
Á vef stjórnarráðsins var tilkynnt að til standi að stofna samráðsnefnd með fulltrúum allra flokka á þingi undir forystu fjármála- og efnhagasráðherra, þar sem unnið verður að nánari útfærslu á aðgerðum stjórnvalda.
Ólíklegt að Grindvíkingar snúi aftur í náinni framtíð
Auk Katrínar Sigurður Ingi Jóhannsson Innviðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra viðstödd blaðamannafundinn í dag. Tilefni hans var að fara yfir fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda fyrir íbúa Grindavíkur.
Á íbúafundi fyrir íbúa Grindavíkur, sem haldinn var í síðustu viku, kölluðu margir eftir skýrum og afdráttarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Lýstu sumir gremju yfir óljósum yfirlýsingum og hægagangi við ákvörðunartöku um hvernig ætti að grípa Grindvíkinga.
Í kjölfar eldgossins sem hófst þann 14. janúar varð ljóst að Grindvíkingar munu að öllum líkindum ekki snúa aftur til bæjarins í náinni framtíð. Landris heldur áfram samkvæmt mælingum Veðurstofu og Íslands og enn er óljóst hvenær verður öruggt að flytja aftur til Grindavíkur.
Fréttin verður uppfærð
Athugasemdir