Skáldverk sem styðjast við sagnfræði eða þó ekki sé nema „raunverulega atburði“ vekja oft miklar deilur. Spurningar kvikna um hvort og að hve miklu leyti listamenn mega eða ættu að breyta hinum sagnfræðilega veruleika í þágu verka sinna.
Kvikmynd Ridley Scotts um Napóleon Frakkakeisara, sem frumsýnd var í vetrarbyrjun, hefur erlendis vakið fjörugar umræður um þetta. Sér í lagi Frakkar og Bretar hafa skeggrætt í þaula hvað sé „að marka“ sýn Scotts af lífi og ferli hans hágöfgi keisarans og þótt sumar þær umræður snúist vissulega um keisarans skegg (ekki bókstaflega) þá kveikja önnur dæmi úr mynd Scotts markverðar spurningar um eðli sannleika og skáldskapar.
Eitt prýðilegt dæmi má finna í sjálfri upphafssenu myndarinnar sem er innan við tvær mínútur að lengd. Hún gerist 16. október 1793 þegar franska byltingin hefur staðið í fjögur ár og nú er komið að því að byltingarmenn færa Maríu Antonettu drottningu á aftökustað. Napóleon er látinn vera viðstaddur og fylgjast með í æstum mannfjöldanum þegar drottingin er keyrð í vagni inn á Byltingartorgið.
Drottningin er hrokafull og staffírug á svip, klædd glæsilegum samkvæmiskjól þeirra tíma og með villt ljóst hár flóandi í allar áttir. Hún er samt einhvern veginn ekki mjög drottningarleg í fasi, heldur nánast gleðikonuleg í sínum flegna kjól.
Hún gengur upp á pallinn þar sem fallöxin bíður, skiptist ekki á orðum við neinn, krýpur við öxina og meðan böðlarnir eru að koma öllu í kring virðist hún loks örlítið óróleg á svip.
En svo fellur öxin, böðullinn tekur í hárlubbann og lyftir upp höfðinu til að sýna mannfjöldanum sem fagnar ógurlega — nema Napóleon sem grettir sig lítillega.
Senan búin, myndræn og sterk, er það ekki?
En þetta gerðist ekki svona, það er alveg ljóst.
Í fyrsta lagi var Napóleon ekki viðstaddur aftöku Maríu Antonettu drottningar. Með því að koma honum þarna fyrir vill Scott leikstjóri líklega stytta sér leið að söguefninu — sýna okkur í einu vetfangi byltingarástandið og leiða fram hetju sína, Napóleon.
En með þessu gefur Scott okkur í skyn að Napóleon hafi frá byrjun verið í hringiðu byltingarinnar.
Og það var hann nefnilega alls ekki. Hann var varla skriðinn úr herskóla þegar byltingin braust út og þegar María Antonetta var hálshöggvin var hann staddur við Toulon á suðurströnd Frakklands, lágt settur liðsforingi í byltingarhernum.
Og hann var 24 ára og pasturslítill en ekki sá miðaldra sjálfsöruggi karl sem Joaquin Phoenix sýnir okkur á Byltingartorginu í þessari senu.
Skipta þessar breytingar í skáldverkinu máli? Hamla þær í einhverju skilningi okkar á Napóleon?
En hvað með Maríu Antonettu, eins og drottning birtist í myndinni í túlkun írsku leikkonunnar Catherine Walker? Hún sést ekki í myndinni nema í rétt rúma mínútu en samt tekst Scott að þjappa þar saman ótal „vitleysum“.
María Antonetta var alls ekki upplitsdjörf og hrokafull á svip þegar hún var keyrð í vagninum upp að höggstokknum.
Hún var örmagna af þreytu, vonbrigðum og ótta og þótt hún reyndi vissulega að bera sig vel og af eins miklu stolti og hún fann í brjósti sér eftir fjögurra ára fangavist, þá duldist engum að konan sem fetaði sig upp á höggstokkinn átti ekki lengur neinn hroka í sér.
Hún hafði verið rænd börnunum sínum og barnungur sonur hennar settur í klær illmenna og neyddur til að saka móður sína opinberlega um kynferðislega misnotun, hvorki meira né minna.
Ásakanir sem áttu sér enga stoð en drógu úr henni máttinn.
Og María Antonetta var ekki með flóandi greitt hár í allar áttir, heldur hafði hún verið nánast snoðklippt áður en hún var flutt á torgið. Það var gert við alla sem leiddir voru undir fallöxina, svo hárið þvældist ekki fyrir.
Og yfir þessu stutta hári var hún með einfalda húfu.
Og hún var sannarlega ekki í samkvæmiskjól, hvorki drottningarlegum né fleðulegum, heldur í hvítum slopp.
Og þegar María Antonetta kom upp á pallinn steig hún óvart á tána á böðlinum sem bjóst til að leggja hana undir fallöxina.
Og drottningin bað böðulinn kurteislega afsökunar, þetta hefði verið alveg óvart.
Svo var hún höggvin.
Þarna hefur Ridley Scott sem sé gerbreytt allri umgjörðinni kringum þá staðreynd að á tilteknum stað og tiltekinni stundu hafi tiltekin kona verið hálshöggvin.
Og skipta þessar breytingar máli?
Ridley Scott gæti sagt sem svo að hrokafull firring hirðarinnar í Frakklandi hafi vissulega átt sinn þátt í að byltingin braust út og því sé réttlætanlegt að sýna þann hroka í persónu drottningar á aftökustaðnum — þótt raunverulega hafi hún hegðað sér allt öðruvísi.
En er það svo? Hvað má gera í þágu listarinnar ef maður gefur sig um leið út fyrir að vilja lýsa sannleikanum?
Má til dæmis gerbreyta hegðun manneskju á banastundinni bara af því hún er „vondi kallinn“ í sögunni?
Athugasemdir (1)