„Það er svo mikið að gera í að spjalla við fjölmiðla að ég þarf að fara að rukka ykkur fyrir þetta,“ segir Ólafur Benedikt Arnberg Þórðarson, veitingamaður og íbúi í Grindavík, en hann komst í fréttirnar nýverið eftir að honum var hótað handtöku fyrir að neita að yfirgefa heimili sitt. Hann hafði þá gist þar í nokkra daga, þrátt fyrir tilmæli yfirvalda um annað, en lét þó undan áður en til handtökunnar kom.
Ólafur er engu að síður ósáttur við að fá ekki að vera heima hjá sér og segist ekki vitund óttast jarðhræringarnar. „Það var ekki verið að rýma neitt þegar hin eldgosin stóðu yfir og enginn varði okkur íbúana fyrir ágangi þeirra sem komu að skoða þau gos. Það var ekki hægt að keyra hér um plássið,“ segir Ólafur, sem var staddur á heimili sínu í Grindavík þegar blaðamaður náði tali af honum síðdegis á fimmtudag.
Athugasemdir