Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir eldgosið, sem hófst í byrjun viku, vera atburð sem er hluti af stærri heild. Hugsanlega munu íbúar á Reykjanessvæðinu og víðar búa við endurtekin gos næstu árin.
„Og ég verð bara að segja því miður að þá held ég að þessar hrinur sem við erum búin að fá, þær eiga eftir að verða fleiri,“ segir Þorvaldur. Hann tekur þó fram að erfitt sé að segja til hversu margar hrinur verða í náinni framtíð eða hversu lengi þær munu vara. Hann segir nýjan veruleika blasa við, sem einkennist af óvissu sem sé óþægileg en staðreynd sem við þurfum að lifa með.
Í samtali við Heimildina, þar sem Þorvaldur var spurður um framtíðarhorfur á Reykjanesskaganum og möguleika þess að gos gæti ógnað Grindavíkurbæ á nýjan leik, segir Þorvaldur að hann telji það ekki líklegt.
Hins vegar segist hann vera „alveg sannfærður um það að það verður gos á þessu svæði aftur. Þá gætu Sundhnúkar gosið aftur, það gæti náttúrulega líka fært sig vestur í Eldvörpin eða Illahraunið eða jafnvel aftur upp í Fagradalsfjall.
Við sjáum ekki neitt sem segir okkur að þetta sé búið og gengið yfir með þessum atburðum sem hafa verið í gangi núna. Það er kannski frekar að þetta sé fimmti atburðurinn í frekar löngu ferli.“
Langtímahorfur eldsumbrota
Ármann Höskuldsson, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, tekur undir þessar spár, en telur atburðarásina munu taka lengri tíma. „Svæðið verður með svona læti í einhver tíu til fimmtán ár og svo færir það sig,“ segir Ármann. Þá spáir Ármann því að goshrinurnar muni færast út í Eldvörp. „Svo þegar það er búið þar þá færir það sig yfir á Krísuvíkur eða Bláfjallakerfið,“ segir Ármann.
Spurður út í þessar spár Ármanns, tekur Þovaldur undir þær en segir þó að sú spá sé á talsvert lengri tímaskala. Svæðið sem er nú að ganga í gegnum tiltekið eldsumbrotatímabil, sem Þorvaldur kallar Fagradalsfjallselda, gæti verið virkt næstu fimm ár eða svo.
Þegar litið er á söguna, fyrri gos tímabila á Reykjanesskaganum, sem hafa varið í 300 til 400 ár, segir Þorvaldur eldgosin hafa breiðst yfir allar gosreinar á Reykjanesinu.
Gos nálægt austustu byggðum Stór- Reykjavíkursvæðisins
„Þá mun gjósa alveg örugglega á Eldvörpunum og þeirri línu. Það mun gjósa á Reykjaneslínunni, sem eru stamparnir, sem eru gýgarnir við Reykjanesvirkjunina. Það er næsta ljóst að það mun gjósa á Trölladyngjureininni, sem er reinin sem nær frá Ögmundarhraun og alveg norður undir Helgafellið, fyrir ofan Hafnafjörð. Svo er náttúrulega Brennisteinsreinin, hún á alveg örugglega eftir að taka við sér líka.“
Það gos gæti til að mynda haft áhrif á þjóðveg númer eitt og austustu byggðir á stór Reykjavíkursvæðinu, segir Þorvaldur. Sömuleiðis segir Þorvaldur að búast megi við gosi í Bláfjöllum þar sem hraun myndi renna í átt að Kópavogi og Reykjavík.
„Hraun myndi þá renna niður Rjúpnadyngjurnar í átt að Þjóðvegi númer eitt og í átt að austasta hluta Kópavogs og Reykjavíkur.“
Þá tekur hann einnig fram að ekki sé aðeins um hraungos að ræða, heldur getur líka komið sprengigos og þá þarf líka að huga að gasmengun. Þá er heldur ekki hægt að segja með vissu hvenær Bláfjöllin gosið, „það gæti verið 100 til 200 ár þess vegna, við vitum ekkert um það“ segir Þorvaldur.
Athugasemdir