„Í gær var þetta til, nú er þetta horfið,“ segir Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur um minjar sem nú liggja undir nýju hrauni sem runnið hefur úr gossprungunni við Sundhnúkagíga frá því í gærkvöldi. Ómar Smári er Grindvíkingur sem þekkir sögu og umhverfi bæjarins vel, auk þess að vera einn helsti sérfræðingur landsins um minjar og gönguleiðir á Reykjanesi.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Vegurinn er um það bil 16 kílómetra langur. Vörður voru hlaðnar alla leiðina og í seinni tíð var leiðin stikuð. Út frá Skógfellastíg er gönguleiðin Sandakravegur. Sá vegur er nú kominn að stórum hluta undir hraun.

Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aldrei varðveittur. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að vegurinn hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það heimilisfólkið í Ísólfsskála sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni. Vegurinn hefur ekki verið merktur formlega inn á nein kort.

‘