Al-Nasr barnaspítalinn á Norður-Gasa var umkringdur skriðdrekum og ísraelskir herforingjar skipuðu starfsfólki spítalans að rýma svæðið umsvifalaust, þau fengju aðeins hálftíma og þá myndi sprengjuregn hefjast. Læknar og hjúkrunarfræðingar mótmæltu því að yfirgefa sjúklinga sína sem gátu ekki flúið með þeim, þar á meðal nýfædd börn sem fæðst höfðu fyrirburar og voru háð hitakössum og súrefnisaðstoð. Afarkostir Ísraelshers voru þó óhagganlegir að sögn Bakr Qaoud stjórnanda spítalans, honum hafi verið sagt: „Farið út eða verið sprengd.“
Umsátur Ísraelshers um Norður-Gasa hafði þá þegar stigmagnast fljótt í kjölfar innrásarinnar sem hófst í lok október. Spítalar urðu fljótt yfirfullir af fólki, hinum særðu, hinum látnu og þeim sem sóttu sér þar skjól frá átökunum í kring. Þann 10. nóvember síðastliðinn fyrirskipaði Ísraelsher síðan öllum að yfirgefa Al-Nasr barnaspítalann. Þaðan fór fólkið flest á annan spítala, Al-Shifa, en átti ekki heldur eftir að hljóta þar náð.
„Á þessari stundu er fjórðungur allra sjúklinga á Gasa á Al-Shifa spítalanum,“ sagði Dr Zaher Sahloul, meðlimur MedGlobal, samtaka sem styðja við starf heilbrigðisstofnanna á Gasa, í viðtali við Guardian þann 17. október.
„Þetta er ekkert annað en hellir frá miðöldum“
Heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar Al-Shifa spítalans fengu klukkustundarfrest til að yfirgefa spítalann þann 11. nóvember eftir margra daga umsátur. Hreinlætisaðstæður voru orðnar hörmulegar vegna vatnsskorts. „Þetta er ekkert annað en hellir frá miðöldum,“ var lýsing Omars Zaqout, stjórnanda spítalans, á ástandinu. Ísraelsher hafi skipað rýmingu en ekki útvegað nein farartæki eða búnað til flytja særða og veika. Fólkið hafið orðið að flýja gangandi.
„Þetta er ekkert annað en hellir frá miðöldum“
Þúsundir flúðu, en þeir sjúklingar sem gátu ekki ferðast ásamt læknum og hjúkrunarfræðingum urðu eftir. 39 fyrirburar spítalans höfðu verið án hitakassa og súrefnis í átta daga á þeim tímapunkti vegna skorts á rafmagni og fjögur barnanna höfðu þá þegar dáið. Þegar rýming spítalans var yfirstaðin höfðu fjögur börn dáið í viðbót, hin 31 voru flutt til Egyptalands.
Sama var upp á teningnum á Al-Nasr barnaspítalanum. Þann 9. nóvember höfðu loftárásir Ísraelshers gert súrefnisbúnað nýburadeildarinnar óvirkan og næsta dag var starfsfólki skipað að rýma svæðið að sögn Bakr Qaoud.
Hjúkrunarfræðingur spítalans lýsir ómögulegri stöðu sinni við Washington Post. Hann hafði þá fimm fyrirbura í sinni vörslu og þurfti að taka ákvörðun, hvert þeirra gat hann tekið með sér. „Mér leið eins og ég væri að skilja börnin mín eftir,“ segir hann. Hann tók með sér barnið sem honum þótti líklegast til að þola tímabundið súrefnisleysi, en hin hefðu ekki lifað af ferðina. Hjúkrunarfræðingurinn komst til Al-Shifa spítalans með barnið en þar fundu þau aðeins tímabundið öryggi þar sem spítalinn varð rýmdur skömmu.
Að sögn Qaoud lofuðu foringjar umsátursliðsins starfsfólkinu að börnin sem eftir væru yrðu flutt á brott. Shani Shasson, talskona COGAT, stofnunar á vegum ísraelska varnarmálaráðuneytisins, neitar því að Ísraelsher hafi fyrirskipað rýmingu spítalans. Hún neitaði þó að svara því hvort að COGAT eða Ísraelsher hafi verið tilkynnt um börnin eða sinnt umönnun þeirra. Upptaka af símtali starfsmanns Al-Rantisi krabbameinsdeildarinnar, sem liggur við hlið Al-Nasr, og yfirmanns COGAT, þar sem starfsmaðurinn biður um sjúkrabíla til að rýma sjúklinga og yfirmaðurinn játar beiðninni, staðfestir þó að yfirvöld Ísraels hafi vitað af einhverjum sjúklingum sem þurfti að forða frá spítalanum.
Tveimur vikum frá rýmingu Al-Nasr komst palestínskur blaðamaður, Mohammed Balousha, inn í spítalann. Ísraelsher hafði lokað aðgangi að spítalanum en blaðamaðurinn fór í gegnum húsarústir og náði að klifra yfir brotna veggi til að komast inn. Myndbandið sem hann tók af ferð sinni í gegnum rústir spítalans vekur óhug. Þess ber að geta að blaðamenn Washington Post hafa farið yfir myndbandið og staðfest að myndefnið passar við önnur gögn sem sýna að það er sannarlega úr Al-Nasr spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn staðfesti einnig að börnin í myndbandinu hafi verið á sama stað og hann hafi skilið við þau.
Athugasemdir (2)