Leikkonan, skáldið og söngkonan Ólöf Sverrisdóttir gaf nýlega út aðra barnabók sína, Sóla og stjörnurnar. Bókin er sjálfstætt framhald af bókinni Sóla og sólin, sem kom út árið 2014 og er ætluð börnum á aldrinum þriggja til átta ára.
Þegar Heimildin náði tali af Ólöfu var hún stödd fyrir utan prentsmiðjuna að sækja fleiri eintök af bókinni. „Ég lét ekki prenta alveg nóg.“
Ólöf vann sem sögukona í sögubílnum hjá Bókasafninu áður en sú starfsemi var lögð niður á síðasta ári. „Ég var alltaf þessi karakter, Sóla sögukona, að segja sögur í bílnum. Bjó til fullt af sögum í kringum hana og á þær enn þá. Þetta er ein af sögunum sem ég sagði í bílnum.“
Boðskapurinn
Sagan fjallar um Sólu, dóttur Grýlu, sem vill ekki hlýða því sem mamma hennar segir henni að gera. Hana langar ekki að hrekkja börn fyrir jólin, eins og jólasveinarnir, bræður hennar, gera.
„Sólu langar ekki til að hrekkja þó að mamma hennar segi að hún eigi að hrekkja börnin,“ útskýrir Ólöf, sem segir boðskapinn felast í því að fylgja eigin sannfæringu. „Þótt allir í kringum mann geri eitthvað, þá á maður að fylgja sínu hjarta. Svo fær hún stjörnur í hjartað í lokin á bókinni.“
„Þótt allir í kringum mann geri eitthvað, þá á maður að fylgja sínu hjarta. Svo fær hún stjörnur í hjartað í lokin á bókinni“
Ólöf segir söguna vera jólasögu, en líka ótengda jólunum að vissu leyti. „Hún kom til af því að það voru stjörnur á himninum í bílnum og börnin fengu alltaf eina stjörnu í hjartað áður en við byrjuðum að segja sögur. Þessi saga varð til í framhaldinu af því.“
Það tók Ólöfu ekki langan tíma að setja söguna saman. „Hún er búin að vera í tölvunni hjá mér lengi. Svo fór ég aðeins að laga hana, snurfusa og fékk líka yfirlestur.“
Fólk hefur hrósað bókinni fyrir að vera falleg með góðan boðskap. Ólöf tekur fram að myndirnar, teiknaðar af Hlíf Unu Bárudóttur, geri mikið fyrir bókina. „Þær gera náttúrlega þessa sögu að bók, annars væri þetta lítil saga.“
Hægt er að kaupa eintök af bókinni í gegnum Karolina Fund-síðu Ólafar eða með því að hafa beint samband við hana.
Athugasemdir