Stríðið á Gaza er hafið á ný eftir skammvinnt vopnahlé. Á meðan á vopnahléinu stóð skiptust Ísraelsríki og Hamas á gíslum, sem lýsa harðræði, myrkri og vannæringu.
Í árás Hamas á Ísrael þann 7. október síðastliðinn, sem var upphafið að nýjasta stríðinu í langri átakasögu Ísraels og Palestínu, voru teknir 240 gíslar. Nú þegar 105 af þessum gíslum hefur verið sleppt af Hamas, og 240 palestínskum föngum sleppt úr ísraelskum fangelsum ríkir aftur óvissa um framhaldið, hvort og hvenær fleiri gíslum verði sleppt.
Flúði skothríð í Gaza-borg á Disney-náttfötum
Emily Hand, 9 ára gömul írsk-ísraelsk stúlka, gisti heima hjá vinkonu sinni þegar þeim tveimur, ásamt móður vinkonunnar, var rænt. Henni var sleppt úr haldi 25. nóvember á öðrum degi vopnahlésins. Faðir hennar, Thomas Hand, sagði tárvotur frá upplifun hennar í viðtali við CNN. Emily, ásamt vinkonu hennar, Hilu, og móður Hilu, Raayu, var haldið vikum saman ofanjarðar í Gaza-borg og þær reglulega fluttar hús úr húsi, á flótta undan sprengjuregni og götubardögum sem stigmögnuðust þegar leið á stríðsátökin. Emily var vannærð, föl og illa á sig komin andlega þegar henni var sleppt og er enn þögul og í áfalli, að sögn föður hennar. Fyrst um sinn gat hún aðeins talað með svo lágu hvísli að hann þurfti að leggja eyra sitt alveg við munn hennar til að hann heyrði í henni og hvíslar enn svo lágt að illa heyrist í henni. Emily á að hafa lært eitt orð í arabísku á meðan að gíslingu hennar stóð, orð sem þýðir „hafðu hljóð“. Þegar pabbi hennar spurði hana hversu lengi hún hefði verið í haldi fékk hann átakanlegt svar. Hún hélt að liðið væri heilt ár.
Á þeim fimmtíu dögum sem liðu þurfti Emily að hlaupa undan kúlnahríð í gegnum umsetna Gaza-borg á Disney-náttfötum. Hún léttist um þrjú kíló. „Ég geri hvað sem þarf til að fá Emily aftur eins og hún var. Hún er ekki lengur með mjúkar kinnar en hún er aftur farin að brosa og nú er hún örugg,“ sagði pabbi hennar í fyrsta viðtalinu eftir að hann endurheimti hana.
Barinn af fólki í Gaza
Tólf ára gömlum dreng, Eitan Yahalomi, var sleppt úr haldi mánudaginn 27. nóvember. Að sögn ættingja hans var Eitan barinn af óbreyttum borgurum á Gaza þegar að hann var færður þangað af Hamas. Þau segja liðsmenn Hamas hafa neytt hann til að horfa á hryllileg myndbönd af morðum sem Hamas framdi 7. október. Börnum hafi iðulega verið hótað með vopnum ef þau grétu og einnig hafi Hamas-liðar sagt mörgum þeirra að fjölskyldur þeirra hefðu verið myrtar og heimilum þeirra tortímt og þannig reynt að skelfa þau til hlýðni.
„Mig langaði til að trúa því að það yrði farið vel með Eitan. Greinilega ekki. Þetta fólk er skrímsli,“ sagði móðursystir hans í viðtali við franska fjölmiðla. Pabbi hans er enn í haldi.
Svaf á plaststólum
Meðlimum Munder fjölskyldunnar, Ruti, 78 ára, dóttir hennar Keren, 54 ára og dóttursonur Ohad, 9 ára, var sleppt úr haldi 24. nóvember. Sonur Ruti, Roee, var myrtur á degi árásar Hamas og eiginmaður hennar, Abraham, sem einnig er 78 ára, er enn haldið í gíslingu. Ruti segir frá harkalegri meðferð, henni hafi verið haldið í súrefnislitlu herbergi og gert að sofa á plaststólum í þá tæpa tvo mánuði sem henni var haldið í gíslingu.
Gíslarnir fengu nóg að borða fyrst um sinn segir frændi Ruti, þó að matarvistir hafi farið þverrandi þegar á leið. Fangaverðir úr röðum Hamas hafi þó snætt sama mat í sama magni með gíslunum, að hans sögn.
„Sumt er hægt að segja að hafi verið sanngjarnt,“ sagði frændi hennar á blaðamannafundi í London. „Þau borðuðu með gíslatökumönnunum, sem bjuggu til mat og allir borðuðu sama matinn. Þeir reyndu að gefa þeim eins mikinn mat og mögulegt var, en það varð sífellt erfiðara að útvega hann eftir því sem vikurnar liðu og hveiti varð torfundnara. Þeir létu þau fá spilastokk til að eyða tímanum, þannig að það var einhver manngæska þarna.“
Aðrir gíslar bera merki um harkalega meðferð. Eldra fólk er vannært og með greinilega áverka eftir að hafa verið dregið milli staða í handjárnum. Þá voru mörg þeirra geymd neðanjarðar í djúpum göngum Hamas undir Gaza svæðinu meirihluta tímans í haldi og þurftu að mestu að dúsa þar í niðamyrkri vikum saman. Einnig voru margir gíslanna lúsugir eftir vist sína í göngunum.
Palestínskir fangar beittir ofbeldi
Ísrael bauð fram frelsun palestínskra fanga gegn því að gíslum yrði sleppt. Úr hópi 300 þeirra sem Ísrael bauð upp á að yrðu valin fengu 240 frelsun. Þau bera mörg hver ísraelskum yfirvöldum slæma söguna. Mikill fjöldi þeirra eru börn og hátt í 80% þessara 300 voru ekki fundin sek um neina glæpi. Fangar í ísraelskum fangelsum bera einnig vitni um harðræði úr fangavist sinni og segjast hafa verið barðir hrottalega með kylfum og hundum sigað á þá daginn eftir árásina 7. október í hefndaraðgerðum Ísraelshers. Þá hafa samtök aðgerðarsinna vakið athygli á því að fangelsisyfirvöld Ísraela neituðu föngum um læknisaðstoð í viku hið minnsta eftir árás Hamas, jafnvel þeim föngum sem urðu fyrir miklum barsmíðum.
Mætti líka bæta við að Ísraelsher hefur gripið fleiri gísla heldur en þeir hafa látið lausa í þessum gíslaskiptum?